Svar
Ef evrópsku stúdentarnir sem um ræðir í spurningunni búa í Finnlandi og stunda nám sitt við finnskan háskóla hafa þeir sama rétt og finnskir stúdentar til að fá afslátt á lestarmiðum í Finnlandi. Ef stúdentarnir stunda hins vegar nám sitt annars staðar en í Finnlandi og eru ekki búsettir þar, hafa þeir ekki sama rétt og finnskir stúdentar til að fá afslátt á lestarmiðum.
***
Frjáls för fólks er liður í
fjórfrelsinu (e. the four freedoms) sem er grundvöllur Evrópusambandsins og
Evrópska efnahagssvæðisins (EES). Í því felst meðal annars að ríkisborgarar EES-ríkja hafa rétt til að stunda nám í öðru aðildarríki með flestum þeim réttindum sem ríkisborgarar viðkomandi ríkis njóta vegna stöðu sinnar sem námsmenn. Niðurgreiðsla á fargjöldum með almenningssamgöngum er á meðal þeirra hlunninda sem algengt er að námsmenn njóti.
Aðaljárnbrautarstöðin í Helsinki, Finnlandi. |
Tilskipun 2004/38/EB um rétt borgara sambandsins og aðstandenda þeirra til frjálsra flutninga og búsetu á yfirráðasvæði aðildarríkjanna sameinar reglur um frjálsa för fólks á EES-svæðinu og kveður á um jafna meðferð sambandsborgara (e. citizens of the Union). Evrópskt ríkisfang er ekki hluti af EES-samningnum og var það tekið skýrt fram við upptöku tilskipunarinnar í EES-samninginn, í desember 2007 (sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar
nr. 158/2007). Ríkisborgarar EFTA/EES-ríkjanna eru því ekki ríkisborgarar Evrópusambandsins og njóta ekki réttinda sem slíkir á Evrópska efnahagssvæðinu. Tilskipunin er þó einnig útfærsla á fjórfrelsinu, sem er hluti af EES-samningnum, en réttarstaða ESB-borgara annars vegar og EFTA/EES-borgara hins vegar hefur verið samræmd þegar reglur um jafna meðferð einstaklinga tengjast réttinum til frjálsrar farar.
Tilskipun 2004/38/EB gildir meðal annars um námsmenn og réttindi þeirra á Evrópska efnahagssvæðinu. Samkvæmt henni eiga námsmenn sem eru ríkisborgarar tiltekins EES-ríkis en stunda nám í öðru EES-ríki rétt á sömu bótum og niðurgreiðslum og þegnar viðkomandi ríkis að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Í ákvæði tilskipunarinnar um jafna meðferð (24. grein) er til að mynda tekið fram að allir borgarar sambandsins, sem dvelja á yfirráðasvæði gistiaðildarríkis, sæta sömu meðferð og ríkisborgarar þess aðildarríkis en þó með fyrirvara 2. mgr. 24. gr. tilskipunarinnar. Þar segir að gistiaðildarríkinu beri „ekki skylda til að veita rétt til félagslegrar aðstoðar fyrstu þrjá mánuði dvalar […] og ber[i] ekki heldur skylda til, áður en réttur til ótímabundinnar dvalar er fenginn, að veita framfærsluaðstoð vegna náms, þar með talið starfsnám, í formi námsstyrkja eða námslána“.
Framkvæmdastjórn ESB hefur skilgreint afslátt á fargjöldum með almenningssamgöngum sem framfærsluaðstoð (e. maintenance aid) (samkvæmt 24. gr. tilskipunar 2004/38/EB). Þar sem þessi tegund framfærsluaðstoðar er hvorki í formi námslána né -styrkja er aðildarríkjunum ekki heimilt að mismuna námsmönnum á grundvelli þjóðernis við veitingu námsmannaafsláttar á fargjöldum (sjá
lið 3.3. í kynningarbæklingi framkvæmdastjórnarinnar um frjálsa för námsmanna sem nema á erlendum vettvangi). Á þessum forsendum hefur framkvæmdastjórnin stefnt Austurríki fyrir dómstól Evrópusambandsins þar sem evrópskir námsmenn sem stunda nám þar í landi njóta ekki afsláttar á fargjöldum til jafns við austurríska nemendur (sbr.
IP/10/1227). Dómur hefur ekki fallið í málinu (sbr.
mál C-75/11).
Ef evrópskir námsmenn telja að þeim hafi verið mismunað á grundvelli þjóðernis í ESB-ríki, þar sem þeir stunda nám, geta þeir leitað réttar síns fyrir dómstólum viðkomandi ríkis. Málið gæti jafnframt ratað til framkvæmdastjórnar ESB, eins og gerðist árið 2010 gegn Austurríki. Ef framkvæmdastjórnin kemst að þeirri niðurstöðu að um brot aðildarríkis á sáttmálum eða afleiddum reglum sambandsins sé að ræða, byrjar hún á því að senda viðkomandi ríki rökstutt álit og krefjast þess að aðildarríkið tilkynni þær ráðstafanir sem það grípur til til að ráða bót á ástandinu innan tiltekins tíma, yfirleitt innan tveggja mánaða. Ef viðkomandi ríki grípur ekki til neinna aðgerða til að bæta úr ástandinu getur framkvæmdastjórnin vísað málinu til
dómstóls Evrópusambandsins (
258. gr. sáttmálans um starfshætti Evrópusambandsins).
Að sama skapi geta evrópskir námsmenn leitað réttar síns telji þeir að þeim hafi verið mismunað í einhverju EFTA/EES-ríki, fyrir dómstólum viðkomandi ríkis. Mál þeirra gæti ennfremur ratað til Eftirlitsstofnunar EFTA (EFTA Surveillance Authority, ESA) og sambærilegt ferli færi þá af stað. Ef eftirlitsstofnunin kemst að þeirri niðurstöðu fyrir sitt leyti að viðkomandi ríki hafi brotið gegn ákvæðum EES-samningsins sendir hún því rökstutt álit og ef ríkið fer ekki eftir álitinu innan tiltekins tíma getur stofnunin vísað málinu til
EFTA-dómstólsins (
31. gr. samnings EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls).
Mynd: