Spurning

Hefur ríki verið neitað um inngöngu í ESB?

Spyrjandi

Ólafur Jóhann Sigurðsson

Svar

Já, Bretlandi var í tvígang neitað um inngöngu í Evrópusambandið áður en landið fékk aðild árið 1973. Bretar höfðu ekki sýnt því áhuga að taka þátt í Evrópusamstarfinu þegar því var komið á fót en snérist seinna hugur og sóttu um aðild árið 1962. Vegna sterkra efnahagslegra tengsla við Bretland ákváðu Írland, Noregur og Danmörk í kjölfarið að leggja einnig inn aðildarumsóknir.

Ekkert varð þó af aðildarviðræðum neinna þessara ríkja þar sem þáverandi Frakklandsforseti Charles De Gaulle beitti neitunarvaldi gegn umsókn Breta á þeim forsendum að aðild þeirra gæti raskað þeim stöðugleika sem ríkti innan sameiginlegu landbúnaðarstefnunnar og að Bretar hefðu fremur áhuga á fríverslun en samvinnu. Bretland ætti því ekki samleið með hinum sex aðildarríkjum sambandsins. Þá hafði De Gaulle áhyggjur af því að aðild Bretlands, sem alltaf átti í nánum samskiptum við Bandaríkin, mundi leiða til bandarískra áhrifa innan Evrópusambandsins. Í kjölfar ákvörðunar Frakklandsforseta drógu hin ríkin umsóknir sínar til baka enda sáu þau ekki ástæðu til að halda áfram umsókn sinni ef Bretar fengju ekki inngöngu í sambandið.


Charles De Gaulle Frakklandsforseti og Harold Macmillan forsætisráðherra Bretlands árið 1961.

Bretland sótti aftur um aðild að Evrópusambandinu árið 1967 ásamt Noregi, Danmörku og Írlandi en aftur beitti De Gaulle neitunarvaldi gegn umsókn Breta þvert gegn vilja hinna fimm aðildarríkja sambandsins. Rökstuðningur Frakklandsforsetans að þessu sinni var sá að Bretland væri ekki tilbúið til að takast á við skuldbindingar innri markaðarins í ljósi þeirra efnahagsörðugleika sem Bretar glímdu við á þessum tíma. Þrátt fyrir mikinn þrýsting af hálfu hinna aðildarríkja sambandsins var Frakkland ekki tilbúið til að samþykkja aðildarumsókn Breta nema að undangengnum pólitískum og efnahagslegum betrumbótum. Auk þessara opinberu ástæðna deildu Frakkland og Bretland á sviði utanríkis- og öryggismála. Aftur drógu hin ríkin þrjú umsóknir sínar til baka.

Þriðja umsókn Bretlands að ESB var lögð fram árið 1969 og enn fylgdu Noregur, Írland, og Danmörk í kjölfarið. Að þessu sinni voru engin mótmæli gegn umsókn Breta enda hafði Charles De Gaulle þá látið af embætti. Nýr Frakklandsforseti Georges Pompidou setti sig ekki upp á móti aðildarumsókn Breta en hann vildi ekki einangra Frakkland á sama hátt og áður gagnvart hinum aðildarríkjunum. Aðildarviðræður umsóknarríkjanna og ESB gátu því hafist. Að loknum samningaviðræðum var mótaður einn aðildarsamningur fyrir öll umsóknarríkin fjögur. Hann innihélt þó mörg ólík ákvæði fyrir hvert og eitt ríki sökum ólíkra hagsmuna þeirra í tilteknum málaflokkum. Bretland, Írland og Danmörk gengu í sambandið árið 1973.

Heimildir og mynd:

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur19.4.2013

Tilvísun

Þorvarður Kjerulf Sigurjónsson. „Hefur ríki verið neitað um inngöngu í ESB?“. Evrópuvefurinn 19.4.2013. http://evropuvefur.is/svar.php?id=64914. (Skoðað 18.9.2024).

Höfundur

Þorvarður Kjerulf Sigurjónssonalþjóðastjórnmálafræðingur og fyrrverandi verkefnastjóri hjá Evrópuvefnum

Við þetta svar er engin athugasemd Fela