Spurning

Hefur ESB aðild áhrif á skatta?

Spyrjandi

Sigurður Steinar Valdimarsson, Sandra Ýr

Svar

Aðildarríki Evrópusambandsins fara sjálf með valdheimildir í eigin skattamálum enda er ákvörðun skatta mikilvægur hluti af fjárstjórnar- og fjárlagavaldi ríkja, sem algengt er að bundið sé í stjórnarskrá þeirra. ESB-ríkin hafa því til þessa fremur litið svo á að skattamál skuli vera á hendi löggjafans, það er þjóðþinganna, fremur en Evrópusambandsins. Samræming á sviði skattamála í ESB er því eingöngu á afmörkuðum sviðum.


Íslenskir peningaseðlar.
Í grófum dráttum skiptist stefna Evrópusambandsins í skattamálum í tvennt. Annars vegar eru það beinir skattar sem fyrst og fremst tengjast skattlagningu fyrirtækja og í sumum tilvikum einstaklinga. Beinir skattar eru að mjög litlu leyti samræmdir meðal aðildarríkjanna. Hins vegar eru það óbeinir skattar á vörur og þjónustu en þar hefur yfirgripsmeiri samræming átt sér stað. Mesta samræmingin hefur átt sér stað á sviði virðisaukaskatts. Þar hefur verið mótuð sameiginleg rammalöggjöf. Í tilskipun um sameiginlegt virðisaukaskattskerfi (nr. 112/2006/EC) er meðal annars að finna reglur um lágmarkshlutföll virðisaukaskatts, skattskyldusvið, skattaverð, endurgreiðslur, skráningu, innheimtu og eftirlit svo eitthvað sé nefnt. Nánar má lesa um samræmingu í skattamálum og um regluverk ESB um virðisaukaskatt í svari við spurningunum Er samræmd stefna í skattamálum innan ESB? og Ef Ísland yrði hluti af ESB yrðu íslensk stjórnvöld þá neydd til að lækka virðisaukaskatt svo að íslensk verslun stæðist samkeppni frá öðrum Evrópuríkjum?

Í rýniskýrslu samninganefndar Íslands um skattamál vegna aðildarviðræðna Íslands og ESB kemur fram að ef til aðildar Íslands kæmi yrðu breytingar á íslensku lagaumhverfi um skattamál. Ísland mundi þurfa að innleiða regluverk ESB sem og setja upp nauðsynlegan stofnanaramma. Einnig þyrfti að setja upp rekstrarhæft tölvukerfi hér á landi sem stæðist kröfur ESB í þessum efnum. Þá mundi aðild hafa veruleg áhrif á íslenska virðisaukaskattkerfið. Þó að íslensk lög um virðisaukaskatt byggi í stórum dráttum á svipuðum sjónarmiðum og evrópska regluverkið þyrfti bæði að breyta lagaumhverfinu að verulegu leyti og ekki síður rafræna umhverfinu, með tilheyrandi uppbyggingu nýrra upplýsingakerfa. Þessar breytingar mundu kalla á undirbúning fyrir íslensk fyrirtæki með óhjákvæmilegum kostnaði. Einnig gætu endurgreiðslur á virðisaukaskatti breyst, meðal annars til sveitarfélaga, en íslenskar reglur þessa efnis virðast vera víðtækari en regluverk ESB.

Ef Ísland yrði aðili að ESB tæki tollskrá sambandsins gildi hér á landi og Ísland mundi jafnframt gangast undir viðskiptastefnu ESB. Ítarlegri umfjöllun um tolla ESB er að finna í svari vefsins við spurningunni Hvort mundu íslensk heimili og fyrirtæki greiða hærri eða lægri tolla vegna útflutnings með aðild að ESB?

Heimildir og mynd:

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur13.12.2013

Tilvísun

Þorvarður Kjerulf Sigurjónsson. „Hefur ESB aðild áhrif á skatta?“. Evrópuvefurinn 13.12.2013. http://evropuvefur.is/svar.php?id=63677. (Skoðað 15.7.2024).

Höfundur

Þorvarður Kjerulf Sigurjónssonalþjóðastjórnmálafræðingur og fyrrverandi verkefnastjóri hjá Evrópuvefnum

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Við þetta svar er engin athugasemd Fela