Spurning

Hvort mundu íslensk heimili og fyrirtæki greiða hærri eða lægri tolla vegna útflutnings með aðild að ESB?

Spyrjandi

Egill Almar Ágústsson

Svar

Stutta svarið við þessari spurningu er að það yrðu engar sýnilegar breytingar á greiðslum útflutningstolla við aðild Íslands að ESB. Ástæðan er sú að útflutningur er almennt tollfrjáls bæði frá Íslandi og frá aðildarríkjum ESB til þriðju ríkja.

***

Evrópusambandið er tollabandalag sem þýðir að aðildarríkjum sambandsins er óheimilt að leggja tolla, eða gjöld með samsvarandi áhrif, á vörur í frjálsu flæði innan sambandsins. Ef Ísland yrði aðili að ESB tæki tollskrá sambandsins gildi gagnvart þriðju ríkjum og mundi Ísland jafnframt gangast undir viðskiptastefnu ESB. Enn fremur mundi Ísland þurfa að segja upp tvíhliða fríverslunarsamningum og samningum á vettvangi EFTA en fengi í staðinn aðild að fríverslunarsamningum sem ESB hefur gert.


Útflutningur er almennt tollfrjáls bæði frá Ísland og frá aðildarríkjum ESB til þriðju ríkja.

Upptaka tollskrár Evrópusambandsins fæli í sér margvíslegar breytingar á tolltöxtum gagnvart þriðju ríkjum samanborið við gildandi tollskrá, bæði til hækkunar og lækkunar, en það á þó í reynd einungis við um tolla á innfluttar vörur.

Samkvæmt tollskrá ársins 2011 er útflutningur frá Íslandi almennt tollfrjáls. Það þýðir að hvorki er lagður tollur né önnur útflutningsgjöld á útfluttar vörur en ákvæði um útflutningsgjöld í lögum voru felld úr gildi árið 1990.

Í Evrópusambandinu er að meginreglu leyfilegt að leggja tolla á útflutning. Þar sem sambandið, líkt og íslenska ríkið, hefur þó iðulega sjálft hag af því að flytja út vörur til annarra landa er sjaldgæft að lögð séu útflutningsgjöld á útfluttar vörur. Einungis í þeim tilvikum þegar heimsmarkaðsverð vöru, sem skortur er á innan Evrópusambandsins, er hærra en verð hennar á innri markaði sambandsins er stundum gripið til þess ráðs að leggja á útflutningsgjöld til að draga úr útflutningi vörunnar. Þetta er gert til að tryggja framboð vörunnar á heimamarkaði á lægra verði en á sambærilegri innfluttri vöru.

Samkvæmt upplýsingum á heimasíðu þýska tollembættisins eru um þessar mundir aðeins lögð gjöld á útflutning einnar vöru, durum-hveitis, en innlend framleiðsla hveitis er ekki nógu mikil til að mæta innlendri eftirspurn.

Ekki er flutt út durum-hveiti frá Íslandi og því er ekki að sjá að breytingar yrðu á greiðslu útflutningstolla fyrir íslensk heimili og fyrirtæki með aðild Íslands að Evrópusambandinu.

Mynd:

Upprunalega spurningin hljóðaði svona:

Munu íslensk heimili og fyrirtæki greiða minni eða meiri tolla vegna útflutnings eftir inngöngu í ESB, miðað við núverandi útflutning?

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur 2.12.2011

Tilvísun

Þórhildur Hagalín. „Hvort mundu íslensk heimili og fyrirtæki greiða hærri eða lægri tolla vegna útflutnings með aðild að ESB?“. Evrópuvefurinn 2.12.2011. http://evropuvefur.is/svar.php?id=60262. (Skoðað 20.5.2024).

Höfundur

Þórhildur HagalínEvrópufræðingur og fyrrverandi ritstjóri Evrópuvefsins

Við þetta svar eru 5 athugasemdir Fela athugasemdir

Egill Almar Ágústsson 2.12.2011

Þið eruð eitthvað að misskilja. Ég átti við þann toll sem íslensk fyrirtæki greiða til þriðju ríkja þegar verið er að flytja út til þeirra ríkja. Það er, leggja þriðju ríki hærri tolla á vörur frá Íslandi en frá ESB eða öfugt?

Gunnlaugur Ingvarsson 2.12.2011

Takk fyrir ágæta grein. Mér finnst þó að stærstum hluta vanta skýringar á því hvernig tollar myndu hækka á vörum sem við flytjum inn frá löndum utan ESB. Ég held að þar yrðu verulegar hækkanir sem við yrðum að samþykkja. Tolltekjurnar myndu ennfremur að stærstum hluta renna beint til ESB en hækka verð þessara vara hér á landi. Um er að ræða ýmsar nýlenduvörur og ávexti, svo sem hveiti, sykur, banana og appelsínur. Ég veit ekki með vörur almennt frá Bandaríkjunum en reikna með að þar sé víða lagður einhver tollur á til að vernda samkeppnisaðila innan ESB. Þetta kallar kannski miklu frekar á nýja áhugaverða fyrirspurn.

Þórhildur Hagalín 6.12.2011

Sæll Egill

Upprunalega spurningin þín var: „Munu íslensk heimili og fyrirtæki greiða minni eða meiri tolla vegna útflutnings eftir inngöngu í ESB, miðað við núverandi útflutning?“

Einu tollarnir sem eru borgaðir af íslenskum heimilum og fyrirtækjum eru þeir tollar sem íslenska ríkið leggur á innfluttar vörur. Ef íslenska ríkið legði toll á útfluttar vörur væri sá tollur einnig greiddur af viðkomandi íslensku útflutningsfyrirtæki – en eins og fjallað var um í svarinu hér að ofan leggur íslenska ríkið engan toll á útflutning.

Þeir tollar sem önnur ríki leggja á útfluttar íslenskar vörur eru ekki greiddir af íslenskum heimilum eða fyrirtækjum heldur af innflutningsaðilum, einstaklingum eða fyrirtækjum, í viðkomandi landi. Því verður ekki annað séð en að þeirri spurningu sem upprunalega var spurt hafi verið svarað hér að ofan.

Hitt er annað mál að innflutningstollar annarra landa hafa vissulega áhrif á stöðu íslenskra útflutningsgreina. Eftir því sem þriðju ríki leggja hærri tolla á innfluttar íslenskar vörur þeim mun dýrari verður íslenska varan á þeim markaði og samkeppnisstaða íslensku vörunnar þar af leiðandi lakari. Það er því fullt tilefni til að fjalla um áhrif aðildar að ESB á stöðu íslenskra útflutningsgreina í þessu tilliti og verður það gert í öðru svari.

Þórhildur Hagalín 6.12.2011

Sæll Gunnlaugur

Í þessu svari var fjallað um hvernig greiðslur útflutningstolla myndu breytast með aðild Íslands að ESB. Nú þegar er í vinnslu svar við spurningunni um hvernig tollar á innfluttar vörur myndu breytast með aðild að ESB. Við látum þig vita þegar svarið hefur verið birt.

Egill Almar Ágústsson 8.12.2011

Sæl Þórhildur

Það má vel vera að þetta hafi ekki verið alveg skýrt. Með spurningunni

„Munu íslensk heimili og fyrirtæki greiða minni eða meiri tolla vegna útflutnings eftir inngöngu í ESB, miðað við núverandi útflutning?“

átti ég ekki við á Íslandi heldur í þeim löndum sem verið er að flytja vörurnar til. Þess vegna sagði ég "vegna útflutnings" frá Íslandi en ekki útflutningstollur. Ég á sem sagt við innflutningstoll í öðrum löndum.

Allavega væri áhugavert að fá svar við því. Þegar ég samdi spurninguna datt mér einfaldlega ekki í hug að hægt væri að túlka þetta sem útflutningstoll því ég vissi ekki að hann væri til.