Spurning

Hvað er öryggisráð Sameinuðu þjóðanna og hver eru markmið þess?

Spyrjandi

Kamilla Björt Mikaelsdóttir, Róshildur Jónsdóttir

Svar

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna var stofnað á grundvelli stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna og hóf störf 17. janúar 1946. Samkvæmt 24. grein stofnsáttmálans eru markmið öryggisráðsins að viðhalda friði og öryggi á alþjóðavettvangi.


Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna á opnum fundi.

Ráðið gerir tillögur um fyrirkomulag vopnamála, mælir með aðgerðum til lausnar á deilum milli ríkja eða átökum innan ríkja og getur ákveðið að senda friðargæslulið á átakasvæði. Það getur einnig falið ríkjum að beita þvingunaraðgerðum, efnahagslegum refsiaðgerðum eða gripið til sameiginlegra hernaðaraðgerða gegn árásaraðila. Sameinuðu þjóðirnar ráða ekki sjálfar yfir herliði og því þurfa aðildarríkin að bjóða fram herlið og aðra aðstoð.

Aðildarríki öryggisráðsins eru fimmtán talsins. Fimm þeirra - Bandaríkin, Bretland, Frakkland, Kína og Rússland - eiga fastafulltrúa í ráðinu og hafa neitunarvald í öllum málum sem ráðið tekur fyrir. Hinir fulltrúarnir tíu eru kjörnir af allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna til tveggja ára í senn. Ályktanir sem teknar eru á vettvangi öryggisráðsins þurfa stuðning níu fulltrúa ráðsins til að teljast samþykktar.

Skipan öryggisráðsins hefur sætt mikilli gagnrýni, einkum það fyrirkomulag að fimm ríki eigi þar fast sæti og hafi neitunarvald. Flestir eru sammála um að slík skipan endurspegli úrelta mynd þar sem sigurvegarar seinni heimsstyrjaldarinnar ráða enn ríkjum. Evrópsk ríki njóta einnig mun meira fyrirsvars í ráðinu en ríki annarra heimsálfa. Þannig eiga tvö aðildarríki Evrópusambandsins fastafulltrúa í ráðinu auk þess sem þrír evrópskir fulltrúar eru kjörnir til tveggja ára í senn, tveir frá ríkjum Vestur-Evrópu og einn frá Austur-Evrópu. Þriðjungur fulltrúa í öryggisráðinu kemur því frá evrópskum ríkjum þrátt fyrir að evrópsk ríki séu aðeins fimmtungur af öllum aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna.

Til samanburðar á Kína einn fastafulltrúa í ráðinu og tveir fulltrúar frá Asíu eru kjörnir til tveggja ára í senn. Ríki Afríku eiga engan fastafulltrúa í ráðinu en þrír fulltrúar eru kjörnir úr þeirri álfu. Hvor álfan um sig á því fimmtung fulltrúa í ráðinu en ríki úr þessum heimsálfum eru helmingur allra aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna.

Umbætur á skipulagi og skipan öryggisráðsins hafa verið til umræðu síðustu áratugi en aðildarríki Sameinuðu þjóðanna, einkum fastaríkin fimm, hafa ekki náð að koma sér saman um hverju þurfi að breyta og hvernig best sé að hrinda því í framkvæmd.

Ísland hefur einu sinni sóst eftir sæti í öryggisráðinu en það var fyrir tímabilið 2009-2010. Keppinautarnir úr hópi Vestur-Evrópuríkja voru Austurríki og Tyrkland. Ísland náði ekki kjöri.

Heimildir og mynd:

Við þetta svar er engin athugasemd Fela