Spurning

Fréttamönnum verður tíðrætt um "alþjóðalög". Hvar situr það löggjafarþing er lögin setur? Á orðið sér einhverja stoð?

Spyrjandi

Ingólfur Arnarson

Svar

Með alþjóðalögum er átt við reglur sem gilda í lögskiptum ríkja, það er samskiptum sem lúta ákvæðum laga. Einnig þær réttarreglur sem gilda um starfsemi alþjóðastofnana. Aðallega er því um að ræða ákvæði alþjóðasamninga, venjur og meginreglur. Ekkert eitt löggjafarþing setur reglurnar heldur eru þær settar af þeim aðilum sem koma að stofnun hvers alþjóðasamnings fyrir sig. Í flestum tilvikum er fullvalda ríkjum í sjálfsvald sett hvaða reglum þjóðaréttar þau kjósa að fylgja, til dæmis hvort þau gerist aðili að tilteknum alþjóðasamningi.

***

Alþjóðalög, sem einnig kallast þjóðaréttur, eru reglur sem gilda með bindandi hætti í lögskiptum ríkja og einnig þær réttarreglur sem gilda um starfsemi alþjóðastofnana. Almennt eru það einungis ríki sem njóta réttinda og bera skyldur að þjóðarétti en ekki einstaklingar og fyrirtæki. Eftir heimsstyrjöldina síðari hefur þetta þó verið að breytast með tilkomu alþjóðlegra mannúðar- og mannréttindasamninga, sem og samninga á sviði Evrópska efnahagssvæðisins og Evrópusambandsins.


Frá undirritun sáttmála Sameinuðu þjóðanna árið 1945.

Með alþjóðalögum er aðallega átt við ákvæði þeirra alþjóðasamninga sem ríki eru aðilar að. Ekki er um ákveðið löggjafarþing að ræða, heldur eru reglurnar settar af þeim sem stofnuðu til alþjóðasamningsins hverju sinni. Einnig getur verið um að ræða milliríkjavenjur og meginreglur, sem hafa þó í auknum mæli vikið fyrir ákvæðum alþjóðasamninga, enda eru margir þeirra lögfesting á venjum og meginreglum. Þá má líta á úrlausnir alþjóðlegra dómstóla og landsdómstóla sem alþjóðalög enda slá þeir oft fastri þjóðréttarvenju. Vínarsamningurinn um þjóðréttarsamninga tók gildi árið 1980. Hann hefur að geyma reglur um það hvernig staðið skuli að gerð þjóðréttarsamninga. Litið er svo á að samningurinn sé lögfesting á gildandi þjóðréttarvenjum og því bindi hann ríki hvort sem þau eru aðilar að samningnum eða ekki, svo sem Ísland.

Þjóðaréttur skiptist í tvenns konar reglur, almennar reglur þjóðaréttar sem binda öll ríki (lat. jus cogens) og svo aðrar reglur. Undir jus cogens falla meðal annars reglur um bann við árásarstríði, þjóðarmorðum, sjóránum og þrælahaldi. Þegar jus cogens reglum sleppir er fullvalda ríkjum í sjálfsvald sett hvaða reglum þjóðaréttar þau kjósa að fylgja, til dæmis hvort þau gerist aðili að tilteknum alþjóðasamningi.

Þegar ríki hefur undirgengist ákveðin alþjóðalög fer það eftir stjórnskipan hvers ríkis hvernig reglan birtist í landsrétti þess. Ríki eru annað hvort eineðlisríki eða tvíeðlisríki. Í eineðlisríkjum verða ákvæði alþjóðalaganna sjálfkrafa hluti af landsrétti þess. Í tvíeðlisríkjum eru reglur alþjóðlaga sérstaklega innleidd í landsrétt. Ísland er dæmi um tvíeðlisríki. Sumir alþjóðasamningar ganga lengra og hafa í för með sér að ríki framselja hluta fullveldis síns með fullgildingu þeirra. Evrópusambandið er dæmi um slíkt yfirþjóðlegt samstarf og hafa stofnanir ESB það sem kallast yfirþjóðleg völd.

Ein af grunnreglum þjóðaréttar er sú að brot ríkis á þjóðréttarlegum skuldbindingum verður ekki réttlætt með vísan til ákvæða landsréttar. Þetta þýðir að aldrei er hægt að nota landsrétt ríkis sem afsökun fyrir að fylgja ekki reglum sem koma fram í alþjóðasamningi.

Sáttmála Sameinuðu þjóðanna er gefinn alger forgangur umfram aðra alþjóðasamninga. Í 103. grein hans segir að verði árekstur ákvæða sáttmála SÞ og ákvæða annarra alþjóðasamninga skuli ákvæði sáttmála SÞ sitja í fyrirrúmi.

Fyrir utan öryggisráð Sameinuðu þjóðanna er ekkert framkvæmdarvald í þjóðarétti. Dómsvald er í höndum dómstóla, bæði landsdómstóla og alþjóðadómstóla. Mörgum alþjóðasamningum fylgir sérstakur dómstóll sem dæmir um ágreininga sem kunna að rísa um samninginn. Þannig er Alþjóðadómstóllinn í Haag aðaldómstóll Sameinuðu þjóðanna, mannréttindadómstóll Evrópu er stofnaður á grundvelli mannréttindasáttmála Evrópu og Evrópudómstóllinn er settur á fót af Evrópusambandinu.

Þeir alþjóðasamningar sem Ísland hefur gert birtast í C-deild stjórnartíðinda Alþingis.

Heimildir og mynd:

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur27.9.2013

Tilvísun

Lena Mjöll Markusdóttir. „Fréttamönnum verður tíðrætt um "alþjóðalög". Hvar situr það löggjafarþing er lögin setur? Á orðið sér einhverja stoð?“. Evrópuvefurinn 27.9.2013. http://evropuvefur.is/svar.php?id=65825. (Skoðað 22.5.2024).

Höfundur

Lena Mjöll Markusdóttirlaganemi og verkefnastjóri á Evrópuvefnum

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Við þetta svar er engin athugasemd Fela