Spurning

Gilda strangar reglur um aðbúnað í fangelsum í löndum Evrópusambandsins?

Spyrjandi

Þorsteinn Davíð Stefánsson

Svar

Reglur um aðbúnað í fangelsum eru settar af aðildarríkjum ESB. Evrópusambandið hefur ekki laga- eða reglusetningarvald á sviði aðbúnaðar í fangelsum, aðildarríkin fara sjálf með slíkar valdheimildir. Á vettvangi Evrópuráðsins vinna Evrópuríki hins vegar saman að mannréttindavernd. Meðal annars hefur ráðið beitt sér fyrir réttindum fanga og komið sér saman um evrópskar fangelsisreglur sem beinast að aðildarríkjum ráðsins. Aðildarríki Evrópuráðsins eru 47 talsins, þeirra á meðal er Ísland sem og öll aðildarríki Evrópusambandsins.

***

Tilmæli ráðherraráðs Evrópuráðsins um reglur í fangelsum (Recommendation of the Committee of Ministers to Member States on the European Prison Rules (nr. (2006)2) eru ekki lagalega bindandi fyrir aðildarríkin. Reglurnar eru viðmiðanir sem aðildarríkin hafa komið sér saman um til að tryggja vernd lágmarksréttinda einstaklinga sem sæta afplánun í fangelsum. Fyrstu evrópsku fangelsisreglurnar litu dagsins ljós árið 1973 (ályktun nr. (73)5), en þær voru endurskoðaðar árið 1987 (tilmæli nr. (87)3) og aftur árið 2006 (tilmæli nr. (2006)2), og var ætlað að hafa leiðbeinandi áhrif á löggjöf, stefnumörkun og framkvæmd í fangelsismálum aðildarríkjanna. Markmið reglnanna er því að samræma stefnur aðildarríkjanna í fangelsismálum og fá ríkin til að taka upp sameiginlega staðla og venjur á þessu sviði.


Mótmæli vegna yfirfylltra fangelsa í Evrópusambandinu fyrir utan ráð ESB í Brussel árið 2008. Mannréttindadómstóll Evrópu flokkar of þéttsetin fangelsi sem ómannúðleg og vanvirðandi meðferð sem brýtur í bága við 3. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu.
Tilmæli ráðherranefndar Evrópuráðsins frá 11. janúar 2006 leystu af hólmi fyrri fangelsisreglur ráðsins. Í 18. grein tilmælanna er kveðið á um viðunandi aðbúnað í fangelsum. Þar segir meðal annars að:

Húsnæði (einkum gistirými) þar sem afbrotamenn þurfa að afplána refsingu sína, skal samrýmast grundvallargildum um mannlega reisn og, eftir því sem unnt er, tryggja næði fanga, uppfylla kröfur um heilbrigði og hreinlæti, og þar með skulu loftgæði innandyra, gólfrými, rúmmál lofts, lýsing, hiti og loftræsting vera mannsæmandi (1. mgr. 18. gr.).

Í 2. mgr. 18. greinar er kveðið á um að:

Í öllum byggingum sem fangar þurfa að búa, starfa eða safnast saman:
  1. Skulu gluggar vera nægilega stórir til að gera föngum kleift að lesa eða starfa með náttúrulegu ljósi við venjulegar aðstæður og hleypa inn fersku lofti nema loftræsting sé til staðar,
  2. gervilýsing skal uppfylla viðurkennda tæknilega staðla og
  3. viðvörunarkerfi skal vera til staðar þannig að fangar geti haft samband við starfsfólk án tafar í neyð.

Aðildarríki Evrópuráðsins skulu, í landsrétti sínum, gera ráðstafanir til að tryggja að þessar lágmarkskröfur séu ekki brotnar vegna yfirfylltra fangelsa (4. mgr. 18. gr.). Fangar skulu að jafnaði dvelja einir í klefa um nætur, nema talið sé æskilegra fyrir þá að dvelja með öðrum (5. mgr. 18. gr.). Í því skyni er mikilvægt að föngum, sem vistaðir eru saman í klefa, komi vel saman (6. mgr.). Föngum skal einnig gefinn kostur á því að ákveða sjálfir, verði því við komið, hvort þeir deila klefa með öðrum fanga (7. mgr.).

Þegar ákvörðun er tekin um hvar á að vista fanga, í tilteknu fangelsi eða á ákveðinni deild innan fangelsis, þarf að hafa eftirfarandi í huga (samanber 8. mgr. 18. gr.):

  1. Einstaklingar í gæsluvarðhaldi skulu ekki vera vistaðir með föngum sem hafa þegar hlotið dóm,
  2. karlkyns- og kvenskynsfangar skulu ekki vistaðir saman og
  3. ungmenni sem hafa brotið af sér skulu ekki vistuð með eldri afbrotamönnum.

Síðasta málsgrein 18. gr. tilmælanna tekur fram að:

Fangar skulu vistaðir við aðstæður þar sem öryggisráðstafanir hamla þeim sem minnst og skulu þessar ráðstafanir vera í samræmi við þá áhættu sem talin er vera á að þeir reyni að flýja eða valda sjálfum sér eða öðrum skaða.

Evrópsku fangelsisreglurnar eru ekki lagalega bindandi fyrir aðildarríki Evrópuráðsins og þeim er því ekki skylt að taka þær upp í landslög. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur þó flokkað óviðunandi húsnæðisaðstæður fanga, einkum of þéttsetin fangelsi, sem ómannúðleg og/eða vanvirðandi meðferð; en slík meðferð brýtur í bága við 3. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu. Mannréttindadómstóllinn hefur því margsinnis kveðið upp dóma þar sem hann gerir aðildarríki bótaskylt gagnvart einstaklingi sem leggur fram kvörtun vegna óviðunandi fangelsismeðferðar.

Evrópuráðið hefur einnig sett á stofn Evrópunefnd um varnir gegn pyndingum sem fylgist með því hvort menn sem sviptir hafa verið frelsi í aðildarríkjum ráðsins sæti pyndingum, ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Nefndin heimsækir aðildarríki Evrópuráðsins með reglulegu millibili og kannar meðal annars ástand fangelsa. Í kjölfar slíkra heimsókna semur nefndin skýrslu og gerir athugasemdir og gefur út tilmæli til aðildarríkis um úrbætur ef hún telur ástand fangelsa ábótavant.

Evrópusambandið hefur ekki laga- eða reglusetningarvald á sviði fangelsismála en hefur þó beitt sér til að varpa ljósi á tölulegar staðreyndir og vanrækslu aðildarríkjanna í þessum málaflokki. Framkvæmdastjórn ESB birti til að mynda í júní árið 2011 grænbók um ástand fangelsa í aðildarríkjum ESB þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að þrettán ríki sambandsins glímdu við vandamál tengd þéttsetnum fangelsum. Yfirfyllstu fangelsin voru í Búlgaríu, á Ítalíu, Kýpur, Spáni og Grikklandi.

Heimildir og mynd:

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur13.7.2012

Tilvísun

Brynhildur Ingimarsdóttir. „Gilda strangar reglur um aðbúnað í fangelsum í löndum Evrópusambandsins?“. Evrópuvefurinn 13.7.2012. http://evropuvefur.is/svar.php?id=62766. (Skoðað 9.11.2024).

Höfundur

Brynhildur Ingimarsdóttiralþjóðastjórnmálafræðingur og fyrrverandi verkefnastjóri á Evrópuvefnum

Við þetta svar er engin athugasemd Fela