Spurning

Hvert er hlutfall kvendómara við Mannréttindadómstól Evrópu?

Spyrjandi

Kristín Jóhannsdóttir

Svar

Fjörutíu og sjö dómarar sitja við Mannréttindadómstól Evrópu þar sem sérhvert aðildarríki Evrópuráðsins skipar eina dómarastöðu við dómstólinn. Aðildarríkin tilnefna þrjá frambjóðendur í sitt sæti og þurfa að uppfylla þá kröfu að dómaraefnin séu af báðum kynjum. Kosning dómara fer fram á þingi Evrópuráðsins þar sem meirihluti atkvæða ræður úrslitum. Í dag eru 19 kvenkyns dómarar við Mannréttindadómstól Evrópu. Hlutfall kvendómara er því 40,4%. Fyrsta konan sem kjörin var dómari við Mannréttindadómstól Evrópu var Helen Pedersen frá Danmörku, árið 1971.

***

Mannréttindadómstóll Evrópu (e. European Court of Human Rights, ECHR) starfar á grundvelli Mannréttindasáttmála Evrópu en samkvæmt 22. og 23. grein hans eru dómarar við dómstólinn kjörnir af þingi Evrópuráðsins til níu ára í senn. Í sáttmálanum er ekki tekið sérstaklega fram að virða skuli ákveðið kynjajafnvægi við dómstólinn. Ályktanir og tilmæli um að auka jafnvægi í kynjahlutfalli dómara við Mannréttindadómstólinn hafa þó verið samþykkt á vettvangi þings Evrópuráðsins (sjá ályktun 1366 (2004), með síðari breytingum (sbr. ályktanir 1426 (2005), 1627 (2008) og 1841 (2011)) og tilmæli 1649 (2004) um fulltrúa til kjörs í Mannréttindadómstól Evrópu).


Kvendómararnir Işıl Karakaş frá Tyrklandi (til vinstri) og Zdravka Kalaydjieva frá Búlgaríu, við störf hjá Mannréttindadómstól Evrópu.

Ríkin leggja fram lista með nöfnum þriggja frambjóðenda til Mannréttindadómstólsins, sem skulu innihalda fulltrúa beggja kynja, fyrir þing Evrópuráðsins. Engu að síður mega frambjóðendur á listanum vera aðeins af öðru kyninu ef það kyn er í minnihluta við dómstólinn, og hlutfall þess er lægra en 40% sitjandi dómara, eða ef sérstakar aðstæður eru til staðar. Þingið hefur skilgreint þessar sérstöku aðstæður sem undantekningartilvik þegar ríki hefur gert allar nauðsynlegar og viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að listinn samanstandi af frambjóðendum af báðum kynjum.

Ef þingið telur að fullnægjandi ráðstafanir hafi ekki verið gerðar við tilnefningu frambjóðenda getur það vísað listanum frá og krafist nýs lista. Til að mynda hafnaði þing Evrópuráðsins þrívegis nýju dómaraefni frá Möltu vegna þess að einungis karlkyns frambjóðendur voru á listanum (árin 2004, 2006 og 2009). Þáverandi dómari, Giovanni Bonello, átti að fara á eftirlaun árið 2004 en þurfti að sinna störfum fram til ársins 2010 þegar Malta tilnefndi loks eina konu á lista yfir dómaraefni. Maltverjinn Vincent Anthony De Gaetano var þó talinn hæfastur á listanum og kjörinn af þinginu.

Frá og með árinu 2004, þegar fyrsta ályktunin og fyrstu tilmælin um aukið jafnvægi í kynjahlutfalli dómara við dómstólinn voru samþykkt, hefur hlutfall kvendómara við Mannréttindadómstól Evrópu aukist. Árið 2004 var hlutfall kvenna í stöðu dómara við dómstólinn 26% til samanburðar við 40,4% í dag.

Fram til þessa hafa einungis karlar verið kjörnir af lista tilnefndra frambjóðenda frá Íslandi. Núverandi dómari er Davíð Þór Björgvinsson og mun hann sinna störfum til ársins 2013.

Heimildir:

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur23.3.2012

Flokkun:

Evrópumál > Stofnanir

Tilvísun

Brynhildur Ingimarsdóttir. „Hvert er hlutfall kvendómara við Mannréttindadómstól Evrópu?“. Evrópuvefurinn 23.3.2012. http://evropuvefur.is/svar.php?id=62165. (Skoðað 22.5.2024).

Höfundur

Brynhildur Ingimarsdóttiralþjóðastjórnmálafræðingur og fyrrverandi verkefnastjóri á Evrópuvefnum

Við þetta svar er engin athugasemd Fela