Spurning

Alþjóðadómstóllinn í Haag

Spyrjandi

Evrópuvefur

Svar

Alþjóðadómstóllinn (International Court of Justice, ICJ) var stofnaður árið 1945 á grundvelli stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna og hóf störf í apríl 1946. Aðsetur dómstólsins er í Haag í Hollandi og er hann eina stofnunin af mikilvægustu stofnunum Sameinuðu þjóðanna sem ekki er staðsett í New York í Bandaríkjunum.

Hlutverk Alþjóðadómstólsins er tvíþætt:
  • Hann leysir úr deilumálum, í samræmi við þjóðarétt, sem ríki vísa til hans.
  • Hann veitir ráðgefandi álit vegna lögfræðilegra álitaefna sem stofnanir og sérhæfðar undirstofnanir Sameinuðu þjóðanna leggja fyrir hann.

Einungis ríki, en ekki einstaklingar, geta verið aðilar að málum sem lögð eru fyrir dómstólinn. Hafi ríki ákveðið að leggja mál fyrir Alþjóðadómstólinn eru þau skuldbundin til að hlýta dómi hans. Úrskurðir Alþjóðadómstólsins eru því bindandi og ekki er hægt að áfrýja dómum hans.

Fimmtán dómarar eiga sæti í Alþjóðadómstólnum. Þeir eru kjörnir til níu ára í senn af allsherjarþingi og öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Kosið er á þriggja ára fresti um þriðjung dómarasæta en dómarar mega sitja mörg kjörtímabil. Aðeins einn dómari má vera af hverju þjóðerni. Níu dómara þarf til að mynda ákvörðunarbæran meirihluta sem getur kveðið upp úrskurð í málum.

Alþjóðadómstóllinn starfar allt árið um kring. Opinber tungumál dómstólsins eru enska og franska.
Við þetta svar er engin athugasemd Fela