Spurning

Hvaða afleiðingar getur það haft fyrir Ísland ef við töpum Icesave-málinu?

Spyrjandi

Jón Heiðar Þorsteinsson

Svar

Hinn 15. desember 2011 höfðaði eftirlitsstofnun EFTA mál gegn Íslandi fyrir EFTA-dómstólnum. Dómkröfur eftirlitsstofnunarinnar lúta að því að EFTA-dómstóllinn lýsi því yfir að aðgerðir og aðgerðaleysi íslenska ríkisins vegna svokallaðra Icesave-reikninga í útibúum Landsbankans í Bretlandi og Hollandi hafi falið í sér brot á skyldum íslenska ríkisins samkvæmt EES-samningnum.

Sá fyrirvari er sjálfsagður að það er alls ekki víst að Ísland tapi umræddu samningsbrotamáli þar sem raunverulegur ágreiningur er til staðar um skyldur ríkisins varðandi Icesave-reikningana. Til skýringar má einnig nefna að niðurstaða EFTA-dómstólsins um samningsbrot Íslands mundi ekki fela í sér aðfararhæfan dóm um greiðsluskyldu á ákveðinni upphæð, líkt og mögulega væri að finna í dómsorði íslenskra dómstóla, heldur er aðeins krafist viðurkenningar á því að umrætt brot hafi átt sér stað.


Auglýsing fyrir Icesave-reikninga í Bretlandi þar sem lofað var hærri innlánsvöxtum. Ekki reyndist Landsbankanum unnt að standa við loforðið en 400.000 breskir og hollenskir innstæðueigendur töpuðu eigum sínum þegar Landsbankinn fór í þrot. Stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi endurgreiddu innstæðueigendum síðar tap sitt og hafa síðan reynt að sækja það fé til íslenskra stjórnvalda.

Í þessu tiltekna máli verður hins vegar að skoða samhengi samningsbrotamálsins við tvíhliða deilu milli Íslands og Bretlands annars vegar og Hollands hins vegar. Ísland hefur samþykkt lögsögu EFTA-dómstólsins og samkvæmt 33. grein samnings EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls ber Íslandi að „gera nauðsynlegar ráðstafanir til að framfylgja dómum EFTA-dómstólsins.“ Því má segja að á grundvelli EES-réttar mundi Íslandi bera að leita samninga við viðsemjendur sína um uppgjör lágmarksgreiðslna til hvers innstæðueigenda (20.000 evrur). Dómur EFTA-dómstólsins mundi hins vegar að öllum líkindum fela í sér takmarkaðar leiðbeiningar um lagaleg atriði tengd slíku uppgjöri (svo sem vaxtastig og að hvaða leyti taka bæri tillit til greiðslna frá þrotabúi Landsbankans).

Alls kyns óvissuþættir geta að sjálfsögðu komið inn í slíkt uppgjör. Þrátt fyrir að samningar tækjust er til að mynda ekki ómögulegt að saga fyrri Icesave-samninga mundi endurtaka sig; að samningar um uppgjör mundu, eftir langt ferli, enda í þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem þeim yrði jafnvel hafnað. Íslensk stjórnvöld gætu enn fremur tekið þá afstöðu að EFTA-dómstóllinn hefði einungis leyst úr hluta deilunnar og að nauðsynlegt væri að dómstólar tækju afstöðu til fleiri atriða í tengslum við Icesave (eins og lögmæti bresku tilskipunarinnar (nr. 2668/2008) um frystingu eigna Landsbankans, og eigna tengdum Landsbankanum í eigu, vörslu eða undir yfirráðum Seðlabanka Íslands, fjármálaeftirlitsins, skilanefndar Landsbankans og ríkisstjórnar Íslands). Í þeim tilgangi mundu stjórnvöld hugsanlega leita til annarra alþjóðadómstóla, eins og til dæmis Alþjóðadómstólsins í Haag. Einnig kæmi til greina að einhvers konar gerðardómur yrði stofnaður til þess að taka afstöðu til þeirra atriða sem stæðu í vegi fyrir því að samkomulag milli ríkjanna þriggja um uppgjör yrði að veruleika.

Þegar svo margir óvissuþættir koma inn í myndina er skiljanlega erfitt að meta hvaða afleiðingar það hefði fyrir Ísland að tapa Icesave-málinu. Hugsanlega mundi tap hafa áhrif á pólitíska stöðu Íslands í Evrópu og draga úr trúverðugleika aðila innanlands sem töluðu fyrir því að Ísland þyrfti ekki að óttast það að Icesave-deilan færi fyrir EFTA-dómstólinn. Samkomulag um greiðslur gæti einnig verið dýrt bæði í beinum kostnaði og vegna þess að auknar skuldir ríkisins mundu hækka vaxtaálag fyrir Ísland. Þá má einnig velta upp þeim möguleika að Íslendingar neituðu að fara eftir niðurstöðu EFTA-dómstólsins en það gæti valdið því að EES-samningnum yrði sagt upp gagnvart Íslandi og/eða að pólitískum og efnahagslegum refsiaðgerðum yrði beitt af ESB eða Bretlandi og Hollandi.

Að mati höfundar er það þó langlíklegasta niðurstaðan, að því gefnu að Ísland tapi Icesave-málinu, að samið yrði um uppgjör við Breta og Hollendinga fljótlega eftir uppkvaðningu dómsins og að tekið yrði fullt tillit til greiðslna úr þrotabúi Landsbankans. Í ljósi þess að endurheimtur verðmæta hafa þótt ganga vel má leiða að því líkur að afleiðingar slíks dóms yrðu ekki þungur baggi í stærra samhengi hlutanna.

Heimild og mynd:

Upprunaleg spurning:

Nú stendur yfir málflutningur í Icesave málinu fyrir EFTA-dómstólnum. Hvaða afleiðingar getur það haft fyrir Ísland ef við töpum málinu?

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur24.8.2012

Tilvísun

Þorbjörn Björnsson. „Hvaða afleiðingar getur það haft fyrir Ísland ef við töpum Icesave-málinu?“. Evrópuvefurinn 24.8.2012. http://evropuvefur.is/svar.php?id=62787. (Skoðað 25.4.2024).

Höfundur

Þorbjörn Björnssonlögfræðingur

Við þetta svar er ein athugasemd Fela athugasemd

Guðmundur Ásgeirsson 25.8.2012

Afleiðingar þess ef dómur fellur sem kveður á um ríkisábyrgð á innstæðum er að þá myndi stofnast yfir 500 milljarða krafa vegna ríkisábyrgðargjalds sem yrði að lögveðskröfu í þrotabú Landsbankans og stæði því framar kröfum vegna innstæðna. Álíka stór krafa myndi jafnframt falla á núverandi banka fyrir ríkisábyrgðargjaldi af innlendum innstæðum. Bankakerfið myndi þurrkast út í heild sinni en skyndilega ætti íslenska ríkið meira en nóg fyrir öllum erlendum skuldum sínum. Þetta yrði ekki tap heldur stórsigur fyrir Ísland. Hinsvegar er alveg sama á hvorn veginn það fer, afleiðingarnar geta ekki orðið annað en hræðilegar fyrir önnur Evrópuríki sem munu annaðhvort fara á hausinn, eða bankarnir þeirra, eða bæði.