Spurning

Stofnsáttmáli Sameinuðu þjóðanna

Spyrjandi

Evrópuvefur

Svar

Stofnsáttmáli Sameinuðu þjóðanna (e. Charter of the United Nations) er stofnskrá samtakanna. Ráðstefna um stofnun Sameinuðu þjóðanna var haldin í San Francisco í Bandaríkjunum árið 1945 og lauk henni með undirritun sáttmálans þann 26. júní 1945. Sáttmálinn öðlaðist gildi 24. október sama ár eftir að fastafulltrúar öryggisráðsins höfðu fullgilt hann. Samþykktir Alþjóðadómstólsins í Haag eru óaðskiljanlegur hluti sáttmálans.

Stofnríki Sameinuðu þjóðanna voru 51 talsins en sáttmálinn var undirritaður af fulltrúum 50 þessara ríkja. Pólland átti ekki fulltrúa á ráðstefnunni en undirritaði sáttmálann tveimur mánuðum síðar og telst vera eitt stofnríkjanna. 193 ríki hafa nú fullgilt sáttmálann. Ísland fékk aðild að Sameinuðu þjóðunum með undirritun sáttmálans þann 19. nóvember 1946.

Sáttmálinn skiptist í 19 kafla, inngangsorð og formála. Með sáttmálanum eru settar grundvallarreglur í alþjóðlegum samskiptum. Sáttmálinn hefur stöðu þjóðréttarsamnings og eru ákvæði hans ekki lög en hafa þó forgangsáhrif að því leyti að þau ganga framar öðrum þjóðréttarsamningum (samanber 103. gr. sáttmálans).
Við þetta svar er engin athugasemd Fela