Spurning

Getur verið að umræðan um ESB hafi það markmið að ræna Íslendinga borgaralegum réttindum og gera þá að þegnum í hinu nýja heimsveldi?

Spyrjandi

N.N.

Svar

Í fljótu bragði mætti svara þessari spurningu neitandi vegna þess að umræða hafi ekki markmið, heldur fólk. Þar fyrir utan mætti telja hæpið að umræða geti yfirleitt rænt fólk réttindum; það séu réttindi fólks að fá að taka þátt í umræðu og hún sem slík geti naumast gengið svo berlega gegn eðlilegum tilgangi sínum. Loks virðist fremur langsótt að ætla að umræða geti gert fólk að þegnum í nýju heimsveldi – fyrir utan að það er auðvitað ekki ljóst að fólk hafi síðri borgaraleg réttindi í ESB (hvort sem það er heimsveldi eða ekki) heldur en það hefur utan ESB.

En þótt spurninguna virðist mega blása fremur léttilega af með þessu móti, þá væri svona svar allsendis ófullnægjandi og bæri frekar vott um viðleitni til að forðast umræðuefnið en að takast á við það. Þau álitamál sem undir liggja eru áleitin og verðskulda nánari skoðun, hvert svo sem endanlegt svar kann að vera.

Hér kemur þrennt til:

  1. Hvað eru borgaraleg réttindi?
  2. Getur umræða rænt fólk borgaralegum réttindum?
  3. Hvaða borgaralegu réttindi eru í húfi vegna hugsanlegrar inngöngu í ESB?

Fyrstu tveimur spurningunum er svarað hér fyrir neðan en þriðju spurningunni er svarað í sérstöku svari sem hægt er að lesa með því að smella á spurninguna.

1. Hvað eru borgaraleg réttindi?

Borgaraleg réttindi eru yfirleitt skilgreind sem þau réttindi sem ríkisvaldi ber að tryggja þegnum eða borgurum sínum, svo sem (a) ýmis frelsisréttindi, til dæmis málfrelsi eða frelsi til að taka þátt í almennum kosningum, trúfrelsi og skoðanafrelsi, einnig (b) það sem kalla mætti verndarréttindi, svo sem rétturinn til að sæta ekki kúgun eða hvers konar vanvirðingu, rétturinn til sanngjarnrar málsmeðferðar og rétturinn til að þurfa ekki að sæta ólögmætri röskun á einkalífi, og loks (c) það sem kalla mætti jafnaðarréttindi, það er rétturinn til að standa jafnfætis hverjum öðrum frammi fyrir lögum og eiga rétt á sömu lagavernd og hver annar án nokkurrar mismununar.


Mótmælendur í Burma krefjast tjáningarfrelsis.

Árið 1979 gerðist Ísland aðili að samningi Sameinuðu þjóðanna um borgaraleg réttindi (frá 1966) en í honum er kveðið ítarlega á um hver þau réttindi séu, hvaða takmörkunum þau eru háð og á hvaða grundvelli þau eru reist. Í inngangi að samningnum segir meðal annars:

Ríki þau sem aðilar eru að samningi þessum hafa í huga, í samræmi við grundvallaratriði þau sem sett eru fram í sáttmála Sameinuðu þjóðanna, að viðurkenning á meðfæddri göfgi mannsins og jöfnum óaðskiljanlegum réttindum allra manna sé grundvöllur frelsis, réttlætis og friðar í heiminum, viðurkenna að þessi réttindi leiðir af meðfæddri göfgi mannsins, viðurkenna, í samræmi við Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna, að sú hugsjón að menn séu frjálsir og njóti borgaralegs og stjórnmálalegs frelsis, séu óttalausir og þurfi ekki að líða skort, rætist því aðeins að sköpuð verði skilyrði til þess að allir geti notið borgaralegra og stjórnmálalegra réttinda, jafnt sem efnahagslegra, félagslegra og menningarlegra réttinda ...

2. Getur umræða rænt fólk borgaralegum réttindum?

Nú ætti að vera nokkuð ljóst hvað átt er við með borgaralegum réttindum. Víkjum þá að næstu spurningu, það er hvort umræða geti mögulega rænt fólk borgaralegum réttindum. Skoðum tvenns konar tilvik: (i) Getur umræða rænt fólk réttinum til að láta í ljósi skoðanir sínar? og (ii) Getur umræða falið í sér kúgun og vanvirðingu, eða leitt til slíks?

(i) Getur umræða rænt fólk réttinum til að láta í ljósi skoðanir sínar? Þótt umræða sé vissulega leið fólks til að láta í ljósi skoðanir sínar, þá getur umræða líka gert fólki erfiðar fyrir. Í greininni „Stjórnmál og ensk tunga“ (Orwell, 2009) lýsir George Orwell því vel hvernig tiltekin orð í tungumálinu eru orðin nánast merkingarlaus vegna sífelldrar og skipulegrar misnotkunar þeirra. Hann tiltekur meðal annars orðin lýðræði, frelsi og réttlæti. Um hið fyrstnefnda segir hann:

Þar sem um er að tefla orð eins og lýðræði, þá er ekki nóg með að ekki sé til nein viðurkennd skilgreining, heldur hefur sú tilraun að búa hana til mætt mótstöðu úr öllum áttum. (Bls. 220–221)

Stuttu síðar segir Orwell svo:

Orð af þessu tagi eru oft notuð á óheiðarlegan hátt af ásettu ráði. Það er að segja, sá sem notar þau skilgreinir þau á sinn eigin hátt, en telur áheyranda sínum trú um að hann eigi við eitthvað allt annað. (Bls. 221)


Enski rithöfundurinn George Orwell (1903-1950).
Það fyrirbæri sem Orwell lýsir hér var síður en svo bundið við hans tíma. Þannig má til að mynda segja að bók Andra Snæs Magnasonar, Draumalandið, hafi fyrst og fremst verið tilraun til að andæfa sambærilegum merkingarspjöllum í umræðunni um umhverfis- og efnahagsmál. Með því að misnota lykilhugtök með skipulegum hætti getur aðili, sem er ráðandi í umræðunni, gert skynsamlega umræðu nánast ómögulega. Svo vikið sé aftur að dæmunum sem Orwell tekur, þá má spyrja hvernig sé hægt að stuðla að opinni, upplýstri og skynsamlegri umræðu um grundvallaratriði í stjórnskipun, ef sjálft orðið lýðræði er merkingarlaust.

Þegar spurt er um það, hvort umræðan um mögulega aðild Íslands að ESB sé þessu marki brennd, þá þyrfti að skoða nokkur atriði. Í fyrsta lagi hvaða orð séu í senn mikilvæg og hugsanlega misnotuð með þessum hætti. Upp í hugann koma orð eins og sjálfstæði, sjálfræði, fullveldi og lýðræði. Þetta eru orð sem ættu að gegna lykilhlutverki í umræðunni um það, hvort fýsilegt sé fyrir Íslendinga, frá pólitískum sjónarhóli, að ganga í ESB og því skiptir miklu máli að þau hafi merkingu – eins skýra merkingu og kostur er – en sé ekki misbeitt, jafnvel skipulega, af þeim sem eru ráðandi í umræðunni.

(ii) Getur umræða falið í sér kúgun og vanvirðingu, eða leitt til slíks? Opin og opinber umræða lýtur ævinlega einhvers konar viðmiðum um hvað telst ásættanlegt framlag og hvað ekki, hvaða skoðanir eru tækar og hverjar ekki, og svo framvegis. Fólk sem ekki getur fullnægt slíkum viðmiðum, til dæmis vegna tungumálaerfiðleika, búa því við skerta réttarstöðu, það er þótt það búi við formlegt jafnrétti (því er ekki bannað með lögum að taka þátt í umræðunni) þá á það í raun ekki kost á að taka þátt í umræðunni. Viðmið sem skilgreina hvað sé ásættanlegt framlag eru vissulega ekki gefin óháð umræðunni og eru alls ekki óbreytanleg. Reyndar gerist það oft, að þátttakendur í umræðunni reyna að gera viðmiðin stífari til þess að halda tilteknum hópum utan við hana. Þetta er alþekkt úr fræðilegri umræðu, þar sem full tök á tilteknum fræðilegum orðaforða eru forsenda þess að vera tekinn alvarlega. En þetta er líka vel þekkt úr almennri umræðu um þjóðfélagsmál, þar sem til dæmis fólk af erlendum uppruna á erfitt með að taka þátt vegna þess að það hefur ekki full tök á íslensku.

Hvað útskúfun úr umræðu vegna ótækra skoðana varðar, þá eru nýleg dæmi um það ótalmörg. Fyrir bankahrunið haustið 2008 veittist mörgum mjög erfitt að setja fram gagnrýni á bankana og fjármálayfirvöld í opinberri umræðu. Þeir sem slíkt reyndu voru úthrópaðir. Svipaða sögu má segja um ýmsa sem vildu halda náttúruverndarsjónarmiðum á lofti í aðdraganda Kárahnjúkavirkjunar.

Þannig getur umræða hæglega falið í sér kúgun – og það þarf raunar ekki að leita langt til að finna dæmi þar sem hún hefur raunverulega falið í sér kúgun.

Spurning 2 var: „Getur umræða rænt fólk borgaralegum réttindum?“ Og mér virðist nokkuð augljóst að svarið við henni sé jákvætt. Umræða getur rænt fólk réttindum. Hvort umræðan um hugsanlega aðild Íslands að ESB hefur í raun gert það, er annað mál. Til að fá svar við henni þarf að skoða hvernig lykilhugtök eru skilgreind og hvort þau orð, sem eðlilegt er að nota til að fjalla um mikilvægar hliðar þessa máls, sé skipulega misbeitt. Einnig hvort tilteknum hópum sé skipulega ýtt út úr umræðunni og hvort tilteknar skoðanir séu útilokaðar eða afskrifaðar án þess að tekin sé skynsamleg afstaða til þeirra.

Heimildir og mynd:

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur13.4.2012

Tilvísun

Ólafur Páll Jónsson. „Getur verið að umræðan um ESB hafi það markmið að ræna Íslendinga borgaralegum réttindum og gera þá að þegnum í hinu nýja heimsveldi?“. Evrópuvefurinn 13.4.2012. http://evropuvefur.is/svar.php?id=62234. (Skoðað 22.5.2024).

Höfundur

Ólafur Páll Jónssonprófessor í heimspeki við HÍ

Við þetta svar er engin athugasemd Fela