Spurning

Hvaða borgaralegu réttindi eru í húfi vegna hugsanlegrar inngöngu í ESB?

Spyrjandi

N.N.

Svar

Hér fyrir neðan er seinni hluti svarsins við spurningunni Getur verið að umræðan um ESB hafi það markmið að ræna Íslendinga borgaralegum réttindum og gera þá að þegnum í hinu nýja heimsveldi? Við mælum með því að lesendur lesi fyrri hlutann fyrst.

***

Stundum er sagt að ESB sé ekki lýðræðislegt samband heldur skrifræðislegt, það er að lýðræði sé ekki virkt í ákvörðunum innan sambandsins heldur séu meiriháttar ákvarðanir teknar af embættismönnum, það er fólki sem ekki er kosið heldur ráðið í tiltekin störf og ber því ekki ábyrgð gagnvart kjósendum. En lýðræði snýst ekki bara um kosningar, hvorki beinar kosningar um tiltekin mál né óbeinar kosningar fulltrúa á þing. Lýðræði snýst fullt eins um vernd réttinda, til dæmis mannréttinda, og það snýst líka um möguleika einstaklinganna til að vera ráðandi um eigið hversdagslegt líf þar sem almennar kosningar skipta engu meginmáli. Það snýst líka um vernd komandi kynslóða – sem ekki geta tekið þátt í kosningum – fyrir arðráni núverandi kynslóðar.


Lýðræði snýst einnig um vernd komandi kynslóða fyrir arðráni núverandi kynslóðar.

Þótt innganga í ESB þýði framsal á tilteknum valdheimildum ríkisins til yfirþjóðlegs aðila, og þótt yfirvald í tilteknum málum fjarlægist meir en nú er venjulega borgara, þá er samt ekki þar með víst að borgararnir sjálfir hafi minni tækifæri til að ráða sínu eigin lífi eða að réttarstaða þeirra versni, eða að komandi kynslóðum sé búin meiri hætta. Reyndar eru til skýr dæmi um að réttarstaða íslenskra borgara hafi batnað vegna afskipta yfirþjóðlegra stofnana, til dæmis eftir dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í Strassborg. ESB er auk þess að ýmsu leyti framsýnna í umhverfismálum en Ísland og að því marki sem þau mál varða kjör komandi kynslóða, þá eru þær hugsanlega í betri stöðu innan ESB en utan.

Annað sem skiptir máli í þessu sambandi er að sjálfstæði þjóðar felst ekki í því að hún sé óháð öðrum þjóðum – því það er engin þjóð – heldur í því að hún standa jafnfætis öðrum þjóðum í þeim samskiptum, efnahagslegum og pólitískum, sem hún þarf óhjákvæmilega að eiga í. Að því marki sem borgaraleg réttindi velta á fullveldi þjóðarinnar, þá er ekki hægt að gefa sér neitt fyrirfram um hvort slík réttindi muni skerðast eða styrkjast við inngöngu í ESB.

Hvaða skilningur er lagður í borgaraleg réttindi, eins og réttinn til virkrar pólitískrar þátttöku, ræðst af þeim kringumstæðum og möguleikum sem eru fyrir hendi til slíkrar þátttöku. Það er ekki hægt að ganga að neinum ákveðnum skilningi sem gefnum, og máta hann svo einfaldlega við þær kringumstæður sem til greina koma. Pólitísk þátttaka innan ESB er ekki eins og pólitísk þátttaka utan ESB, bara annað hvort meiri eða minni, áhrifaríkari eða vanmáttugri, og svo framvegis. Þátttakan er öðruvísi, leiðirnar aðrar, markmiðin kannski líka og jafnvel málaflokkarnir.

Annað atriði sem flækir málið er að það er síður en svo ljóst hvað átt er við með orðinu lýðræði. Hér rekumst við á vandann sem Orwell gerði að umfjöllunarefni í greininni „Stjórnmál og ensk tunga“ (Orwell, 2009) sem vitnað var til í svari við spurningunni Getur verið að umræðan um ESB hafi það markmið að ræna Íslendinga borgaralegum réttindum og gera þá að þegnum í hinu nýja heimsveldi?. Ýmislegt hefur verið skrifað um lýðræði á íslensku á undanförnum árum, bæði af heimspekingum, sagnfræðingum og stjórnmálafræðingum (þegar leitað er í Gegni eftir efnisorðinu „lýðræði“ og beðið um rit á íslensku, koma upp 150 færslur). Spurningunni um það, hvort borgaralegum réttindum sé betur borgið innan ESB eða utan, verður samt ekki svarað einfaldlega með tilvísun í niðurstöðu þessarar umræðu. Tilraunir til að svara einmitt þessari spurningu hljóta að vera hluti af íslenskri umræðu um inntak lýðræðisins.

Lesandanum finnst kannski að hér hafi verið farið í flæmingi undan þeirri spurningu sem lagt var upp með. Sú tilfinning er að vissu leyti rétt, því ekki hefur verið gefið neitt ákveðið svar við henni. Hins vegar hafa verið dregin fram nokkur atriði sem þarf til að gefa slíkt svar, það þarf til dæmis skýran skilning á lýðræðishugtakinu og það þarf að skoða hvað einkennir umræðuna. Hvað hið fyrrnefnda varðar hafa íslenskir fræðimenn lagt ýmislegt til á síðustu árum og áratugum, þótt það hafi ekki ratað inn í almenna umræðu nema að litlu leyti. Hér má kannski kvarta yfir dugleysi fjölmiðlanna, en það má líka kvarta yfir útbreiddu viljaleysi til að taka þátt í alvöru rökræðu um efnið. Hvað hið síðarnefnda varðar, þá held ég ekki að neinn hafi gert úttekt á umræðunni með tilliti til þess hvort lykilhugtökum sé vísvitandi og kerfisbundið misbeitt, hvort tilteknir hópar séu útilokaðir frá almennri umræðu og hvort tilteknar skoðanir séu álitnar ótækar í umræðunni.

Heimildir og mynd:
  • Orwell, Stjórnmál og bókmenntir, íslensk þýðing eftir Ugga Jónsson, Hið íslenska bókmenntafélag 2009.
  • Mynd sótt á www.students.ou.edu, 12.4.2012.

Við þetta svar er engin athugasemd Fela