Spurning

Hefur Ísland tekið þátt í efnahagslegum refsiaðgerðum gegn ríkjum sem hafa brotið alþjóðleg lög?

Spyrjandi

N.N.

Svar

Já, Ísland hefur innleitt allar þvingunaraðgerðir og efnahagslegar refsiaðgerðir öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Þar að auki hefur Ísland innleitt flestar þvingunaraðgerðir Evrópusambandsins en ítarlegri umfjöllun um efnahagslegar refsiaðgerðir ESB er að finna í svari vefsins við spurningunni Beitir Evrópusambandið ríki efnahagslegum refsiaðgerðum, í hverju felast þær?

Refsiaðgerðir öryggisráðsins eru byggðar á VII. kafla sáttmála Sameinuðu þjóðanna um aðgerðir vegna ófriðarhættu, friðrofa og árása. Samkvæmt 41. gr. sáttmálans er ráðinu heimilt að ákveða hvaða aðgerðir, aðrar en hernaðaraðgerðir, skuli viðhafðar þegar Sameinuðu þjóðirnar bregðast við ógnun við heimsfrið og öryggi ríkja. Öryggisráðinu er eftirlátið talsvert frelsi við ákvarðanatöku í þessum efnum og upp hafa komið nokkur mál þar sem ályktanir ráðsins hafa verið mjög umdeildar. Þá er það álitaefni hvort og að hvaða marki eigi að endurskoða starfshætti og ákvarðanatökuferli ráðsins.


Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna á fundi.

Með aðild að Sameinuðu þjóðunum fallast aðildarríkin, Ísland þar með talið, á að hlíta ákvörðunum öryggisráðsins líkt og mælt er fyrir um í 25. gr. sáttmálans. Taki ráðið þá ákvörðun að nauðsynlegt sé að beita refsiaðgerðum gegn ríki skulu ríkisstjórnir aðildarríkjanna gera nauðsynlegar ráðstafanir til þess að framkvæma ályktun ráðsins. Ísland hefur þar með stutt refsiaðgerðir gegn Afganistan, Angóla, Haítí, Írak, Íran, Líbíu, Líberíu, Lýðveldi Fílabeinsstrandarinnar, Norður-Kóreu, Síerra Leóne, Sambandslýðveldinu Júgóslavíu, Sómalíu og Súdan. Þá tók Ísland þátt í viðskiptabanni gegn Suður-Afríku og Namibíu sem komið var á með lögum á sínum tíma.

Stefnu Íslands varðandi refsiaðgerðir má finna í lögum um framkvæmd alþjóðlegra þvingunaraðgerða (nr. 93/2008 með breytingum). Lögin heimila innleiðingu refsiaðgerða og veita stjórnvöldum nauðsynlega lagaheimild til þess að framkvæma refsiaðgerðir sem ákvarðaðar eru á alþjóðavettvangi af aðilum á borð við öryggisráð Sameinuðu þjóðanna, Evrópusambandið og Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu.

Heimildir og mynd:

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur27.11.2013

Tilvísun

Þorvarður Kjerulf Sigurjónsson. „Hefur Ísland tekið þátt í efnahagslegum refsiaðgerðum gegn ríkjum sem hafa brotið alþjóðleg lög?“. Evrópuvefurinn 27.11.2013. http://evropuvefur.is/svar.php?id=66313. (Skoðað 17.6.2024).

Höfundur

Þorvarður Kjerulf Sigurjónssonalþjóðastjórnmálafræðingur og fyrrverandi verkefnastjóri hjá Evrópuvefnum

Við þetta svar er engin athugasemd Fela