Spurning

Hvað felst í því að fara með formennsku í ráðinu?

Spyrjandi

N.N.

Svar

Aðildarríki Evrópusambandsins skiptast á að fara með formennsku í ráðinu í sex mánuði í senn. Samkvæmt ákvæði 16(9) sáttmálans um Evrópusambandið, í samræmi við 236. gr. sáttmálans um starfshætti Evrópusambandsins, fara fulltrúar aðildarríkjanna í ráðinu með formennsku í samsetningum ráðsins til skiptis, að undanskilinni þeirri sem fer með utanríkismál.

Hlutverk formennskuríkisins er einkum tvíþætt:
  • Það sér um að undirbúa og leiða fundi og ráðstefnur á vegum ráðsins og hefur eftirlit með því að öll vinna fari vel fram í ráðinu. Formennskuríkið þarf því að tryggja góða samvinnu milli aðildarríkjanna og stuðla að samkomulagi þeirra á milli þannig að ákvarðanataka innan ráðsins gangi vel og snurðulaust fyrir sig.
  • Það er fulltrúi ráðsins í samskiptum þess við aðrar stofnanir sambandsins, einkum Evrópuþingið og framkvæmdastjórnina. Þetta þýðir að formennskuríkið talar fyrir hönd aðildarríkjanna 28 í öllum viðræðum við þessar stofnanir. Ákvarðanir ráðsins eru í langflestum tilvikum teknar á grundvelli tillagna frá framkvæmdastjórninni og í samráði við Evrópuþingið, því er mikilvægt að formennskuríkið tryggi gott samstarf milli stofnananna.


Litháen fer með formennskuna í ráðinu frá 1. júlí til 31. desember 2013. Á myndinni sést hvernig ráðið hefur verið skreytt með kennimerkjum litháensku formennskunnar.

Með Lissabon-sáttmálanum, sem gekk í gildi 1. desember 2009, voru embætti forseta leiðtogaráðs ESB og æðsta talsmanns stefnu sambandsins í utanríkis- og öryggismálum stofnuð. Forseti leiðtogaráðsins stýrir nú fundum leiðtogaráðsins og æðsti talsmaður stefnu ESB í utanríkis- og öryggismálum undirbýr og hefur stjórn með fundum utanríkismálaráðsins. Fyrir þann tíma var það í verkahring formennskuríkisins. Formennskuríkið vinnur þó náið með forseta leiðtogaráðsins og æðsta talsmanninum þannig að það sé upplýst um öll mál.

Til að tryggja samfelldni í starfsemi ráðsins koma þrjú samliggjandi formennskuríki sér saman um stefnu næstu 18 mánaða og mynda svokallað þríeyki (ru. тройка eða troïka). Aðildarríkin skiptast svo á að fara með formennsku í ráðinu á sex mánaða fresti. Á meðan hin ríkin tvö sinna ekki formennskunni hafa þau það hlutverk að aðstoða formennskuríkið. Þessu fyrirkomulagi var komið á árið 2009 (ákvörðun ráðsins nr. 2009/881/ESB) í samræmi við ákvörðun ráðsins um niðurröðun formennskuríkjanna í ráðinu fram til ársins 2020 (nr. 2007/5/EB).

Þegar þetta er skrifað, í október 2013, fer Litháen með formennskuna og mun Grikkland taka við 1. janúar 2014. Tekur þá við þríeyki Ítalíu, Lettlands og Lúxemborgar.

Skipting á formennsku í ráðinu fram til ársins 2020:

Ártal Vormisseri Haustmisseri
2013 Írland Litháen
2014 Grikkland Ítalía
2015 Lettland Lúxemborg
2016 Holland Slóvakía
2017 Malta Bretland
2018 Eistland Búlgaría
2019 Austurríki Rúmenía
2020 Finnland

Heimildir og mynd:

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur 4.10.2013

Flokkun:

Evrópumál > Stofnanir

Tilvísun

Brynhildur Ingimarsdóttir. „Hvað felst í því að fara með formennsku í ráðinu?“. Evrópuvefurinn 4.10.2013. http://evropuvefur.is/svar.php?id=65993. (Skoðað 21.5.2024).

Höfundur

Brynhildur Ingimarsdóttiralþjóðastjórnmálafræðingur og fyrrverandi verkefnastjóri á Evrópuvefnum

Við þetta svar er engin athugasemd Fela