Spurning

Hversu mörg aðildarríki ESB hafa fengið neyðarlán frá sambandinu?

Spyrjandi

N.N.

Svar

Undanfarin fimm ár hafa fimm aðildarríki Evrópusambandsins þurft að fá neyðarlán vegna efnahagsörðugleika. Þetta eru Grikkland, Írland, Portúgal, Spánn og Kýpur. Byrðar þessara lána hafa lagst misþungt á ESB-ríkin eftir íbúafjölda, landsframleiðslu og hvort þau eigi aðild að evrusamstarfinu. Evruríkin standa undir langstærstum hluta þeirra skuldbindinga sem björgunarpakkarnir fela í sér.

***

Fimm aðildarríki Evrópusambandsins hafa fengið neyðarlán frá hinum aðildarríkjum sambandsins vegna efnahagsörðugleika undanfarin fimm ár í samtals fimm björgunarpökkum. Grikkland var fyrsta aðildarríkið sem fékk neyðarlán, í maí 2010 og aftur í mars 2012. Írland fékk neyðarlán í nóvember 2010, Portúgal í maí 2011 og Spánn fékk lánsloforð í júní 2012 til að styðja við bankakerfi landsins. Loks fékk Kýpur neyðarlán í mars 2013. Rétt er að taka fram að í tilviki Grikklands og Írlands var um að ræða tvíhliða lánafyrirgreiðslu beint frá einstökum ESB-ríkjum. Þessi tvíhliða lán voru veitt án þess að evruríkin hefðu áður skuldbundið sig til að veita slík lán.

Heildarupphæðir þessara björgunarpakka voru umtalsverðar. Í tilviki Grikklands árið 2010 var upphæðin 107,3 milljarðar evra, en það samsvarar um það bil 17.275 milljörðum króna miðað við gengi krónunnar í byrjun september 2013. Sextán evruríki lánuðu Grikklandi um 77,3 milljarða evra (um 12.445 milljarðar kr.) Slóvakíu sá sér ekki ekki fært að veita lánafyrirgreiðslu vegna bágrar efnahagsstöðu heima fyrir. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) lánaði 30 milljarða evra til viðbótar (um 4.830 milljarðar kr.).


Nikos Anastasiades, forseti Kýpur og José Manuel Barroso forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins á fundi vegna efnahagsörðugleika Kýpur þann 23. mars 2013.

Síðara lánið sem Grikkland fékk í mars 2012 var 103 milljarðar evra. Það lán var fjármagnað af af Evrópska fjármálastöðugleikasjóðinum (e. European Financal Stability facility, EFSF) sem greiddi út 110,2 milljarða evra og AGS sem greiddi um 19,8 milljarða.

Írland fékk samþykkt neyðarlán í nóvember 2012 að upphæð 67,5 milljarða evra (10.867 milljarðar kr.). Lánið skiptist þannig að EFSF-sjóðurinn veitti lán að fjárhæð 17,7 milljarðar evra (2.849 milljarðar kr.), Evrópski viðbragðasjóðurinn fyrir fjármálastöðugleika (e. European Financial Stabilisation Mechanism, EFSM) og AGS lánuðu síðan hvor um sig 22,5 milljarða evra (3.622 milljarðar kr.). Þessu til viðbótar ákváðu stjórnvöld í Bretlandi, Danmörku og Svíþjóð að lána Írlandi samtals 4,8 milljarða evra til viðbótar (772 milljarðar kr.), án þess að vera skuldbundin til þess á nokkurn hátt.

Neyðarlánið til Portúgal var 78 milljarðar evra (12.558 milljarðar kr.). EFSF-sjóðurinn, EFSM og AGS veittu lánið, en hver um sig lánaði 26 milljarða evra (4.186 milljarðar kr.). Lánsloforðið til Spánar til stuðnings bankakerfi landsins að upphæð 100 milljarða evra (16.100 milljarðar kr.) var alfarið fjármagnað af EFSF-sjóðnum.

Síðasta ESB-ríkið sem sóst hefur eftir neyðarláni er Kýpur en landið fékk 10 milljarði evra í lán í mars á þessu ári. Upphaflega sótti Kýpur um neyðarlán að fjárhæð 17 milljarðar evra en landið var talið ófært um að greiða svo hátt lán til baka. Evruríkin veita lánið í gegnum Evrópska stöðugleikakerfið, en það er nýr sjóður sem leysir af hólmi EFSF- og EFSM-sjóðina. Lánsupphæðin er 9 milljarðar evra (1.449 milljarðar kr.) en AGS hefur einnig hönd í bagga og veitti landinu 1 milljarð evra (1,61 milljarð kr.).

Efnahagsbyrðar þessara lána hafa lagst misþungt á aðildarríki Evrópusambandsins eftir íbúafjölda og landsframleiðslu og hvort þau eigi aðild að evrusamstarfinu eða ekki. Evruríkin standa undir langstærstum hluta þeirra skuldbindinga sem björgunarpakkarnir fela í sér. Talsvert hefur verið deilt innan sambandsins um aðkomu þeirra ESB-ríkja sem hafa ekki tekið upp evru, en umræður um aðgerðir við skuldavandanum hafa nær alfarið farið fram á vettvangi evruríkjanna. Ítarlegri umfjöllun um þær ráðstafanir Evrópusambandsins til að koma á fjármálastöðugleika má finna í svari vefsins við spurningunni Ef við værum fullgildur aðili að ESB og með evru, hver hefði hlutur okkar orðið í þeim „björgunarpökkum“ sem ESB-löndin hafa þurft að leggja saman í?

Heimildir og mynd:

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur20.9.2013

Tilvísun

Þorvarður Kjerulf Sigurjónsson. „Hversu mörg aðildarríki ESB hafa fengið neyðarlán frá sambandinu?“. Evrópuvefurinn 20.9.2013. http://evropuvefur.is/svar.php?id=65753. (Skoðað 15.7.2024).

Höfundur

Þorvarður Kjerulf Sigurjónssonalþjóðastjórnmálafræðingur og fyrrverandi verkefnastjóri hjá Evrópuvefnum

Við þetta svar er engin athugasemd Fela