Njóta fátækustu ríki heims sérstakra tollfríðinda hjá Evrópusambandinu?
Spyrjandi
Elvar Örn Arason
Svar
Í stuttu máli er svarið já, fátækustu ríki heims njóta sérstakra tollfríðinda hjá Evrópusambandinu. Allt frá árinu 1971 hefur Evrópusambandið veitt þróunarríkjum aukinn markaðsaðgang að sambandinu, meðal annars með því að veita þeim tollfríðindi við innflutning á vörum á grundvelli almenns tollaívilnanakerfis (e. Generalized System of Tariff Preferences, GSP). GSP-kerfið veitir þróunarríkjum betri möguleika á að flytja út framleiðsluvörur sínar til þeirra ríkja sem efnaðri eru og á að ýta undir viðskipti og stuðla að auknum hagvexti í þróunarríkjum með það að markmiði að gera þau samkeppnishæf á alþjóðavísu. Árið 2001 kom ESB á fót svokölluðu EBA-samkomulagi (e. Everything But Arms Agreement, EBA) þar sem felldir voru niður tollar á öllum vörum, fyrir utan vopn og skotfæri, til fátækustu þróunarríkjanna. EBA-samkomulagið er ein áætlun GSP-kerfis Evrópusambandsins.- Hefðbundið GSP-kerfi sem 176 þróunarríki og -svæði hafa aðgang að. Undir hefðbundna GSP-kerfi ESB falla 6,4 þúsund vörur sem skipt er niður í viðkvæmar og óviðkvæmar vörur. Af þessum 6,4 þúsund vörum eru 2,5 þúsund skilgreindar sem óviðkvæmar og 3,9 þúsund sem viðkvæmar. Á viðkvæmar vörur eru lagðir 3,5% lægri tollar en skilgreindir bestukjaratollar (e. most favoured nation tariff, MFN) GATT-samkomulagsins. Óviðkvæmar vörur eru tollfrjálsar.
- GSP+-kerfi sem veitir viðkvæmum þróunarríkjum aukin fríðindi ef þau skuldbinda sig til að uppfylla alþjóðasamninga um mann- og verkalýðsréttindi, samninga sem tengjast umhverfismálum og meginreglum um góða stjórnsýsluhætti. Viðkvæm þróunarríki sem sækja um GSP+ og uppfylla ofangreind skilyrði fá tolla niðurfellda á öllum þeim 6,4 þúsund vörum sem skilgreind eru í hefðbundna GSP-kerfinu. Þróunarríki sem talin eru viðkvæm þurfa að uppfylla eftirfarandi:
- ekki vera á skrá Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar yfir efnahagslega vel sett ríki;
- fimm stærstu vöruflokkar ríkisins mega ekki fara yfir 75% af heildarútflutningi til ESB;
- og útflutningur tiltekins ríkis má ekki vera yfir 1% af heildarinnflutningi allra GSP-ríkjanna til ESB.
- EBA-samkomulagið sem veitir fátækustu þróunarríkjum heims niðurfellingu allra tolla af öllum vörum, nema á vopnum og skotfærum. Viðkvæmu vörurnar bananar, hrísgrjón og sykur eru ekki alveg tollfrjálsar en á tímabilinu frá 1. október 2009 til 30. september 2012 skuldbindur innflytjandi í ESB sig til að kaupa slíkar vörur á lágmarksverði sem má þó ekki vera lægra en 90% af viðmiðunarverði. Í dag eru 48 ríki skilgreind af Sameinuðu þjóðunum sem fátækustu ríki heims og hafa þau öll aðgang að EBA-samkomulaginu (sjá töflu).
Afganistan Gínea Malaví Samóa Angóla Gínea-Bissá Maldíveyjar Saó Tóme og Prinsípe Austur-Tímor Haítí Malí Senegal Bangladess Jemen Máritanía Síerra Leóne Benín Kambódía Mið-Afríkulýðveldið Sómalía Búrkína Fasó Kíribatí Miðbaugs-Gínea Súdan Búrúndí Kongó Mósambík Tansanía Bútan Kómoreyjar Nepal Tógó Djíbútí Laos Níger Tsjad Erítrea Lesótó Rúanda Túvalú Eþíópía Líbería Salómonseyjar Úganda Gambía Madagaskar Sambía Vanúatú
- Álit framkvæmdastjórnarinnar á aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu (íslensk þýðing). (Skoðað 6.9.2012).
- Generalised System of Preferences - European Commission. (Skoðað 4.9.2012).
- European Commission : Trade : Generalised System of Preferences (GSP). (Skoðað 4.9.2012).
- European Commission : Trade : Everything But Arms. (Skoðað 4.9.2012).
- ICTSD - Reform of the Generalised System of Preferences: A reader. (Skoðað 4.9.2012).
- Mynd: FIS - Worldnews - Trade agreement sought with EU. (Sótt 7.9.2012).
Um þessa spurningu
Dagsetning
Útgáfudagur 7.9.2012
Efnisorð
tollar tollfríðindi tollaívilnanir þróunarríki þróuð ríki GSP-kerfi Sameinuðu þjóðirnar GATT-samkomulagið ESB framkvæmdastjórnin ráðið Evrópuþingið hagvöxtur samkeppnishæfni
Tilvísun
Brynhildur Ingimarsdóttir. „Njóta fátækustu ríki heims sérstakra tollfríðinda hjá Evrópusambandinu?“. Evrópuvefurinn 7.9.2012. http://evropuvefur.is/svar.php?id=63144. (Skoðað 12.10.2024).
Höfundur
Brynhildur Ingimarsdóttiralþjóðastjórnmálafræðingur og fyrrverandi verkefnastjóri á Evrópuvefnum