Spurning

Hvað er Þróunarsjóður EFTA?

Spyrjandi

Ritstjórn

Svar

Í EES-samningnum er kveðið á um fjárhagslegan stuðning EFTA/EES-ríkjanna, Noregs, Íslands og Liechtenstein, við ríki sem eiga aðild að Evrópska efnahagssvæðinu og standa illa í efnahagslegu tillit. Í þessum tilgangi var Þróunarsjóður EFTA stofnaður en sjóðurinn starfar eftir fimm ára áætlun hverju sinni. Stuðningur EFTA/EES-ríkjanna er ein af grunnforsendum EES-samningsins en segja má að hann endurspegli hvað aðgöngumiðinn að innri markaði ESB kostar hverju sinni. – Þróunarsjóðurinn hefur styrkt tengsl EFTA/EES-ríkjanna við styrkþegaríkin og skapað tækifæri fyrir íslenska sérfræðinga til að miðla af reynslu sinni og taka þátt í félagslegum og efnahagslegum umbótum í styrkríkjunum.

***

EES-samningurinn skuldbindur EFTA/EES-ríkin til þess að leggja sitt af mörkum til að draga úr félagslegum og efnahagslegum ójöfnuði milli ríkja á Evrópska efnahagssvæðinu (116. gr. EES-samningsins). Í þessum tilgangi var, árið 1994, komið á fót sjóði til styrktar verkefnum í tilteknum aðildarríkjum ESB og skuldbundu EFTA/EES-ríkin sig til að leggja sjóðnum til fjárframlög. Gert var samkomulag um fjárframlög EFTA/EES-ríkjanna til fimm ára en það var síðan framlengt um önnur fimm ár árið 1999.

Við stækkun Evrópska efnahagssvæðisins árið 2004, þegar tíu ný ríki gerðust aðilar að Evrópusambandinu, gerði sambandið ríkari kröfu en áður til EFTA/EES-ríkjanna um fjárframlög á grundvelli ákvæða EES-samningsins. Niðurstaða samningaviðræðnanna var sú að stofnað yrði nýtt fjármagnskerfi sem rekið yrði af EFTA/EES-ríkjunum og fékk heitið Þróunarsjóður EFTA. Framlög hvers EFTA/EES-ríkis til sjóðsins miðast við hlut þess í samanlagðri landsframleiðslu allra EFTA/EES-ríkjanna. Greiðslur Íslands til sjóðsins eru einn stærsti kostnaðarliður þátttökunnar í EES-samstarfinu.


Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra Íslands og Teodor Baconschi utanríkisráðherra Rúmeníu funduðu nýlega um jarðhitaverkefni sem stendur til að hefja í Rúmeníu á vegum Þróunarsjóðs EFTA.
Viðhorf Evrópusambandsins er að stuðningur EFTA/EES-ríkjanna sé ein af grunnforsendum EES-samningsins; í raun mætti segja að framlögin endurspegli hvað aðgöngumiðinn að innri markaði ESB kostar hverju sinni. Að kröfu ESB var aftur gengið til samninga um framlög EFTA/EES-ríkjanna til Þróunarsjóðsins árið 2008 þegar gildistími þáverandi samkomulags um fimm ára áætlun sjóðsins var að renna út. Að þessu sinni tóku samningaviðræðurnar langan tíma og reyndust erfiðar þar sem framkvæmdastjórn ESB setti fram kröfur um stórfellda hækkun fjárframlaga EFTA/EES-ríkjanna.

Samkomulag fyrir tímabilið 2009-2014 náðust ekki fyrr en á fyrri hluta árs 2010 og var samið um 33% hækkun á framlagi EFTA/EES-ríkjanna til sjóðsins. Noregur og Liechtenstein tóku á sínar herðar mestan hluta hækkunarinnar þar sem tekið var tillit til alvarlegrar efnahagslegrar stöðu Íslands í kjölfar hruns fjármálakerfisins haustið 2008. Samið var um að EFTA/EES-ríkin mundu greiða tæpan milljarð evra í sjóðinn, fyrir tímabilið 2009-2014, eða því sem nemur 198 milljónum evra á ári. Til viðbótar leggur Noregur sjóðnum til 160 milljónir evra á ári.

Á yfirstandandi tímabili greiðir Noregur samanlagt 95% af heildarframlögum EFTA/EES-ríkjanna til Þróunarsjóðsins. Framlag Íslands verður að hámarki 6,8 milljónir evra á ári en það er sama fjárhæð og Ísland greiddi til sjóðsins á tímabilinu á undan. Upphæðin gæti þó hugsanlega lækkað ef efnahagsþróun á Íslandi verður óhagstæðari en í hinum EFTA/EES-ríkjunum og ef gengi íslensku krónunnar helst veikt. Upplýsingar um framlög Íslands til Þróunarsjóðs EFTA sundurliðað eftir árum, á verðlagi hver árs og ársins 2010, er hægt að nálgast í svari utanríkisráðherra við fyrirspurn Guðlaugs Þórs Þórðarsonar um Þróunarsjóð EFTA.


Skipting úthlutaðs fjármagns úr Þróunarsjóði EFTA til styrkríkjanna fyrir tímabilið 2009-2014.
Á yfirstandandi tímabili renna fjárveitingar úr Þróunarsjóði EFTA til Búlgaríu, Eistlands, Grikklands, Kýpur, Lettlands, Litháen, Ungverjalands, Möltu, Póllands, Portúgal, Rúmeníu, Slóveníu, Slóvakíu, Spánar og Tékklands. Lagðar eru áherslur á ólíka málaflokka eftir tímabilum. Að þessu sinni leggur sjóðurinn áherslu á rannsóknir og skólastyrkjaáætlanir, umhverfismál, endurnýjanlegra orkugjafa, heilbrigðismál, menntun og menningu, samfélagslegar umbætur og mannsæmandi vinnuskilyrði, sem og réttarbætur og mannauðsstjórnun.

Í gegnum Þróunarsjóð EFTA hafa tvíhliða tengsl EFTA/EES-ríkjanna við styrkþegaríkin aukist og einnig hafa skapast tækifæri fyrir íslenska sérfræðinga til að miðla af reynslu sinni og taka þátt í félagslegum og efnahagslegum umbótum í umræddum ríkjum. Ísland hefur jafnan lagt áherslu á að leggja sitt af mörkum á sviðum sjávarútvegs, hagnýtingar jarðhita og orkuvinnslu þar sem Íslendingar búa yfir reynslu og þekkingu. Þannig hefur Orkustofnun verið samstarfsaðili um rekstur jarðhitaáætlana í Ungverjalandi, Portúgal og Rúmeníu. Rannís hefur tekið þátt í ýmiss konar verkefnum rannsókna og skólastyrkja sem rekin hafa verið í Búlgaríu, Tékklandi, Grikklandi, Ungverjalandi, Lettlandi, Litháen, Rúmeníu og Slóvakíu. Þá mun Þjóðskrá Íslands taka þátt í umfangsmiklu skráningarverkefni í Rúmeníu.

Heimildir og myndir:

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur24.8.2012

Tilvísun

Þorvarður Kjerulf Sigurjónsson. „Hvað er Þróunarsjóður EFTA?“. Evrópuvefurinn 24.8.2012. http://evropuvefur.is/svar.php?id=63100. (Skoðað 13.10.2024).

Höfundur

Þorvarður Kjerulf Sigurjónssonalþjóðastjórnmálafræðingur og fyrrverandi verkefnastjóri hjá Evrópuvefnum

Við þetta svar er engin athugasemd Fela