Spurning

Getur Evrópusambandið gerst aðili að alþjóðlegum samningum?

Spyrjandi

Erna Bjarnadóttir

Svar

Til þess að alþjóðastofnun eins og Evrópusambandið geti gerst aðili að alþjóðlegum samningi þarf hún að hafa aðildarhæfi (rétthæfi), það er hún þarf að geta notið réttinda og borið skyldur að þjóðarétti á sjálfstæðan hátt. Evrópusambandið hefur uppfyllt þessi skilyrði frá því árið 2009, þegar Lissabon-breytingarnar á sáttmálum sambandsins tóku gildi og sambandið hlaut réttarstöðu lögaðila.

***

Evrópusambandið var stofnað með Maastricht-sáttmálanum árið 1993 og gegndi til að byrja með hlutverki eins konar þaks í svonefndu stoðaskipulagi (e. pillar structure) sem sáttmálinn fól í sér. Evrópubandalögin, það er Evrópubandalagið, ásamt Kjarnorkubandalagi Evrópu og Kola- og stálbandalaginu (til ársins 2002), mynduðu fyrstu stoð sambandsins. Bandalögin höfðu hvert um sig réttarstöðu lögaðila samkvæmt stofnsáttmálum sínum og höfðu því sjálfstætt aðildarhæfi að alþjóðlegum stofnunum. Til að mynda varð Evrópubandalagið aðili að Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna árið 1991 og Alþjóðaviðskiptastofnuninni árið 1995. Gagnaðilar EFTA/EES-ríkjannaEES-samningnum, sem tók gildi árið 1994, voru enn fremur Efnahagsbandalag Evrópu (forveri Evrópubandalagsins) og Kola- og stálbandalagið.


Fulltrúi Evrópusambandsins í Alþjóðaviðskiptastofnuninni er framkvæmdastjóri ESB á sviði viðskipta, Karel De Gucht.

Með Lissabon-sáttmálanum, sem gekk í gildi árið 2009, var stoðaskipulagið afnumið. Evrópusambandið leysti um leið Evrópubandalagið af hólmi og tók við hlutverki þess (1. gr. 3. mgr. sáttmálans um Evrópusambandið (SESB)) og sambandinu var enn fremur veitt réttarstaða lögaðila (47. SESB). Síðan þá hefur Evrópusambandið getað gerst sjálfstæður aðili að alþjóðlegum samningum á þeim sviðum sem aðildarríkin hafa veitt því valdheimildir. Jafnframt er Evrópusambandið arftaki réttinda og skyldna Evrópubandalagsins á grundvelli alþjóðlegra samninga, svo sem EES-samningsins, og er því nú formlegur aðili að þeim alþjóðastofnunum sem Evrópubandalagið var áður aðili að.

Samkvæmt sáttmálanum um starfshætti Evrópusambandsins (SSE) er sambandinu heimilt að gera samning við eitt eða fleiri þriðju lönd eða alþjóðastofnanir ef kveðið er á um það í sáttmálunum (216. gr). Þetta er í samræmi við meginregluna um veittar valdheimildir, það er að sambandið skuli aðeins aðhafast innan ramma þeirra valdheimilda sem aðildarríkin veita því. Slíkar valdheimildir hefur sambandið meðal annars á sviði sameiginlegu viðskiptastefnunnar, umhverfismála og til að gera samstarfssamninga við eitt eða fleiri þriðju lönd eða alþjóðastofnanir.

Að auki er sambandinu heimilt að gera alþjóðlegan samning:

  1. Ef gerð hans er nauðsynleg til að ná, innan ramma stefna sambandsins, einhverju því markmiði sem um getur í sáttmálunum.
  2. Ef slíkt er heimilað í lagalega bindandi gerð sambandsins (til að mynda tilskipun eða reglugerð).
  3. Ef líklegt er að slíkur samningur hafi áhrif á sameiginlegar reglur eða breyti gildissviði þeirra.

Gerð alþjóðasamninga fellur undir fullar valdheimildir Evrópusambandsins ef kveðið er á um gerð þeirra í lagagerð sambandsins eða hún telst nauðsynleg til að gera sambandinu kleift að beita valdheimildum sínum á vettvangi sínum eða að því marki sem gerð slíkra samninga er til þess fallin að hafa áhrif á sameiginlegar reglur eða breyta gildissviði þeirra (3. gr. SESB).

Þar sem aðild að alþjóðastofnunum á sér stað á grundvelli alþjóðlegra samninga getur Evrópusambandið orðið aðili að alþjóðastofnun svo fremi sem sáttmálarnir veita því beina eða óbeina heimild til þess. Þannig er til að mynda kveðið á um það í sáttmálanum um Evrópusambandið að sambandið skuli gerast aðili að Mannréttindasáttmála Evrópu (6. gr.).

Til að taka af allan vafa lýstu aðildarríki Evrópusambandsins því yfir við undirritun Lissabon-sáttmálans að þótt sambandið hafi réttarstöðu lögaðila heimili það sambandinu ekki á nokkurn hátt að setja löggjöf eða aðhafast umfram þær valdheimildir sem aðildarríkin veita því í sáttmálunum (24. Yfirlýsing varðandi réttarstöðu Evrópusambandsins sem lögaðila).

Heimildir og mynd:

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur13.7.2012

Flokkun:

Evrópumál > ýmislegt

Tilvísun

Þórhildur Hagalín. „Getur Evrópusambandið gerst aðili að alþjóðlegum samningum?“. Evrópuvefurinn 13.7.2012. http://evropuvefur.is/svar.php?id=62921. (Skoðað 20.7.2024).

Höfundur

Þórhildur HagalínEvrópufræðingur og fyrrverandi ritstjóri Evrópuvefsins

Við þetta svar er engin athugasemd Fela