Spurning

Geta tilskipanir ESB tekið gildi á Íslandi án þess að vera samþykktar af hérlendum yfirvöldum?

Spyrjandi

Ómar Runólfsson

Svar

Í 7. grein EES-samningsins er kveðið á um skyldu Íslands og annarra EFTA/EES-ríkja til að taka afleidda löggjöf Evrópusambandsins, reglugerðir og tilskipanir, upp í landsrétt sinn á þeim sviðum sem EES-samningurinn nær til. Engar gerðir Evrópusambandsins verða þó skuldbindandi að íslenskum rétti nema með samþykki hérlendra stjórnvalda. Það þýðir ekki að allar ESB-gerðir fái þinglega meðferð áður en þær taka gildi. Langflestar gerðir eru teknar upp í EES-samninginn og innleiddar í landslög á grundvelli samþykkis ríkisstjórnarinnar, það er með stjórnvaldsfyrirmælum en ekki lögum.

Formlegar ákvarðanir um hvaða gerðir Evrópusambandsins skuli teknar upp í viðauka EES-samningsins eru teknar á fundum sameiginlegu EES-nefndarinnar. Ákvarðanir nefndarinnar eru undirbúnar af stjórnkerfum EFTA/EES-ríkjanna, oftast af sérfræðingum í viðeigandi fagráðuneyti, í samvinnu við EFTA-skrifstofuna.


EFTA/EES-ríkin eru Ísland, Noregur og Liechtenstein.

Það fyrsta sem íslensk stjórnvöld þurfa að leggja mat á varðandi nýjar ESB-gerðir er hvort þær varði svið EES-samningsins eða ekki. Ef niðurstaðan er sú að svo sé þarf að taka afstöðu til þess hvort þörf sé á tæknilegri eða efnislegri aðlögun gerðarinnar að ákveðnum aðstæðum eða hagsmunum á Íslandi. Ósk um efnislega aðlögun kallar í öllum tilvikum á samningaviðræður við ESB. Síðast en ekki síst þarf að meta hvort nægileg lagastoð sé til staðar í íslenskum lögum fyrir innleiðingu tiltekinnar gerðar í landsrétt eða hvort innleiðingin krefjist þess að breytingar séu gerðar á lögum. Gerðir sem krefjast lagabreytinga er aðeins hægt að samþykkja með svokölluðum stjórnskipulegum fyrirvara, það er með fyrirvara um samþykki Alþingis, og eru það einu gerðirnar sem fá þinglega meðferð fyrir gildistöku.

Fyrir fundi sameiginlegu EES-nefndarinnar eru drög EFTA-skrifstofunnar að ákvörðunum nefndarinnar send með athugasemdum til utanríkisráðuneytisins. Utanríkisráðuneytið leggur drögin fyrir ríkisstjórn ásamt minnisblaði og óskar eftir samþykki ríkisstjórnarinnar fyrir því að ákvarðanirnar verði teknar í sameiginlegu EES-nefndinni. Sömu gögn eru einnig sendar utanríkismálanefnd Alþingis til upplýsingar. Í minnisblaðinu er sérstaklega tilgreint ef innleiðing tiltekinnar gerðar krefst lagabreytingar þannig að ákvörðunina þurfi að taka með stjórnskipulegum fyrirvara. Jafnframt er tilgreint, varðandi þær gerðir sem ekki eru taldar kalla á lagabreytingar, í hvaða lögum er að finna lagastoð fyrir innleiðingu þeirra.

Ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar taka að jafnaði gildi daginn eftir að þær eru teknar. Þær gerðir sem teknar eru upp í samninginn með viðkomandi ákvörðun fá því gildi í EES-samningnum strax næsta dag, nema annað sé ákveðið eða gildistökudagur þeirra ekki runninn upp. Gildistaka EES-gerðar getur þannig verið með þrennum hætti:
  • Daginn eftir að ákvörðun er tekin í sameiginlegu EES-nefndinni, ef gerð hefur þegar öðlast gildi í ESB.
  • Á gildistökudegi gerðarinnar, ef hann er síðar.
  • Ef gerð er með stjórnskipulegum fyrirvara þá öðlast gerðin gildi fyrsta dag annars mánaðar eftir að öll ríki hafa aflétt stjórnskipulegum fyrirvara sínum, nema gildistökudagur sé síðar í ESB.

Tíminn frá því að gerð er tekin upp í EES-samninginn og þangað til hún verður skuldbindandi fyrir Ísland er því alla jafna mjög skammur, einkum ef haft er í huga að í raun verða íslensk stjórnvöld að vera búin að taka gerðina upp í íslenskan rétt um leið og hún öðlast gildi. Um aðferðir við innleiðingu EES-gerða í íslenskan rétt er fjallað í svari við spurningunni Hvernig innleiðir Ísland tilskipanir og annað frá ESB?

Vanræki íslenska ríkið skyldu sína samkvæmt 7. grein EES-samningsins til að taka afleidda löggjöf ESB á sviðum EES-samningsins upp í landsrétt geta borgarar öðlast skaðabótakröfu á hendur ríkinu ef þeir hafa orðið fyrir tjóni af vanrækslunni, sjá svar við spurningunni Af hverju þurfa Íslendingar að fara eftir reglum sem Evrópusambandið setur, þó svo að Ísland sé ekki í ESB?

Heimildir og mynd:

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur19.11.2014

Tilvísun

Þórhildur Hagalín. „Geta tilskipanir ESB tekið gildi á Íslandi án þess að vera samþykktar af hérlendum yfirvöldum?“. Evrópuvefurinn 19.11.2014. http://evropuvefur.is/svar.php?id=68561. (Skoðað 12.10.2024).

Höfundur

Þórhildur HagalínEvrópufræðingur og fyrrverandi ritstjóri Evrópuvefsins

Við þetta svar er engin athugasemd Fela