Spurning

Allsherjarþing SÞ

Spyrjandi

Evrópuvefur

Svar

Allsherjarþingið (e. General Assembly) er ein af helstu stofnunum Sameinuðu þjóðanna (SÞ). Öll ríki SÞ eru aðilar að allsherjarþinginu og auk þess hafa Palestína og Vatíkanið þar áheyrnarfulltrúa.

Allsherjarþingið kemur saman einu sinni á ári. Þingið hefst þriðja þriðjudag í september og stendur fram í desember. Ef mál þingsins klárast ekki fyrir þann tíma, sem oftast er raunin, hefst þingið aftur í janúar og stendur yfir þar til málin eru frágengin. Sérstök þing og neyðarfundir eru haldin á öðrum tímum ársins eftir þörfum. Þingið kom saman í fyrsta sinn 10. janúar 1946 í London. Á allsherjarþinginu geta fulltrúar aðildarríkja SÞ rætt um hvaða málefni sem er, svo lengi sem það er ekki til umfjöllunar hjá öryggisráðinu.

Forseti allsherjarþingsins er kjörinn í september til eins árs í senn. Hann kemur til skiptis frá ríki eins eftirfarandi landsvæða: Afríku, Asíu, Austur-Evrópu, Suður-Ameríku eða Karíbahafinu, og Vestur-Evrópu eða annarra ríkja. Þegar þetta svar er skrifað er forseti allsherjarþingsins John William Ashe frá Antígva og Barbúda. Árið 2014 mun Sam Kutesa frá Úganda taka við forsætinu.

Hlutverk allsherjarþingsins er fjórþætt:
  • Það ákveður fjárútlát fyrir SÞ.
  • Það kýs þá tíu meðlimi öryggisráðsins sem ekki hafa þar fast sæti.
  • Það fer yfir skýrslur frá öðrum undirstofnunum SÞ.
  • Það samþykkir ályktanir.

Aukinn meirihluta (tvo þriðju) þarf til að samþykkja ákvarðanir um mikilvæg málefni, svo sem frið og öryggi og hvernig fé SÞ skuli varið. Um önnur málefni er kosið með einfaldri meirihlutakosningu. Hvert ríki innan þingsins hefur eitt atkvæði. Ákvarðanir allsherjarþingsins, utan ákvarðana um fjárútlát SÞ, eru ekki bindandi fyrir aðildarríkin. Þá kýs allsherjarþingið aðalframkvæmdastjóra (aðalritara) SÞ að fenginni tillögu öryggisráðsins.

Störf allsherjarþingsins fara að mestu fram í sex aðalnefndum þess, þar sem öll aðildarríkin eiga sér fulltrúa.
  • Fyrsta nefnd fjallar um öryggis- og afvopnunarmál.
  • Önnur nefnd fjallar um efnahags-, þróunar- og umhverfismál.
  • Þriðja nefnd fjallar um félags- og mannréttindamál.
  • Fjórða nefnd fjallar um sérstök pólitísk mál og nýlendumál.
  • Fimmta nefnd fjallar um fjárhags- og stjórnunarmál.
  • Sjötta nefnd fjallar um þjóðréttarmál.

Við þetta svar er engin athugasemd Fela