Spurning

Hvernig er samskiptum ESB og Rússlands háttað?

Spyrjandi

Ritstjórn

Svar

Samskipti Rússlands og Evrópusambandsins grundvallast á samstarfssamningi frá árinu 1997. Hann hefur það að markmiði að efla viðskipti og stuðla almennt að farsælu sambandi milli Rússlands og ESB. Sambandið var eflt árið 2003 með stofnun fjögurra svonefndra sameiginlegra svæða. Leiðtogar Rússlands og ESB halda fundi tvisvar á ári þar sem ýmis málefni er snerta samstarfið eru rædd. Fundirnir hafa þó oft og tíðum gengið brösulega enda ágreiningsefnin verið mörg. Árið 2012 gerðist Rússland aðili að Alþjóðaviðskiptastofnuninni sem gerði það að verkum að reglur um viðskipti milli Rússlands og Evrópusambandsins eru nú mun skýrari en áður.

***

Rússland er stærsta nágrannaríki Evrópusambandsins og mikilvægi stöðugleika í samskiptum þeirra á milli því augljóst. Sambandið er þó ekki og hefur aldrei verið sérstaklega kærleiksríkt en fyrir því eru góðar og gildar sögulegar ástæður. Eftir að kalda stríðinu lauk og Sovétríkin liðuðust í sundur máttu stjórnvöld í Rússlandi horfa upp á það hvernig ríki sem áður voru hluti af Sovétríkjunum eða á áhrifasvæði þeirra hlupu hvert í kapp við annað í skjól til Evrópusambandsins og Norður-Atlantshafsbandalagsins með aðildarumsóknir sínar í farteskinu. Eins og gefur að skilja gramdist rússneskum stjórnvöldum þessi þróun enda var hún merki um þverrandi ítök þeirra í Evrópu.

Stækkanir Evrópusambandsins til austurs árin 2004 og 2007 voru Rússum að sama skapi þvert um geð og þekktust þeir hvorki boð sambandsins um þátttöku í evrópsku nágrannastefnunni né á samstarfsvettvangi ESB og nágrannaríkja þess í austri. Stjórnvöld í Rússlandi hafa enda löngum lagt meiri áherslu á tvíhliða samskipti við einstök aðildarríki Evrópusambandsins heldur en við sambandið í heild.


Frá síðasta leiðtogafundi Evrópusambandsins og Rússlands, sem haldinn var í Jekaterínbúrg í Rússlandi í júní 2013 (frá vinstri: José Manuel Barosso forseti framkvæmdastjórnar ESB, Vladimir Putin Rússlandsforseti og Herman Van Rompuy forseti leiðtogaráðs ESB).

Samskiptin milli Evrópusambandsins og Rússlands eru mest á sviði viðskipta, en Rússland er þriðji stærsti viðskiptaaðili ESB og ESB er stærsti viðskiptaaðili Rússlands. Stærstur hluti innfluttrar orku og hráefna til Evrópusambandsins, svo sem olía, gas og kol, kemur frá Rússlandi. Segja má að Evrópusambandið sé háð innflutningi á orku og hráefni frá Rússlandi og að sama skapi að Rússland sé háð Evrópusambandinu um tekjur af útflutningnum. Af þessum sökum gerðu Rússland og Evrópusambandið með sér samstarfssamning (e. Partnership and Cooperation Agreement) sem tók gildi árið 1997 og hefur verið grundvöllur samskipta ríkjanna síðan. Markmið samningsins er að efla viðskipti og stuðla almennt að farsælu sambandi milli Rússlands og Evrópusambandsins.

Samskipti Rússlands og ESB voru efld árið 2003 með stofnun fjögurra sameiginlegra svæða (e. common spaces) á grundvelli samningsins frá 1997. Þetta eru sameiginlegt efnahagssvæði, sameiginlegt svæði frelsis, öryggis og réttlætis, svæði samvinnu á sviði ytri öryggismála og svæði samskipta á sviði rannsókna, menntunar og menningar.

Leiðtogar Rússlands og Evrópusambandsins hittast á leiðtogafundum tvisvar á ári en þess á milli eru haldnir fundir um ýmis málefni. Leiðtogafundirnir hafa oft gengið brösulega og verið frestað vegna margvíslegra ágreiningsmála, enda eru Evrópusambandið og Rússland oft á öndverðum meiði í efnahags- og stjórnmálum. Þannig hefur Evrópusambandið ítrekað gagnrýnt rússnesk stjórnvöld fyrir skort á mannréttindum og lýðræði í landinu, nú síðast vegna frumvarps, sem samþykkt var af neðri deild rússneska þingsins á dögunum, og skerðir réttindi samkynhneigðra þar í landi. Þá hafa Evrópusambandið og Rússland oftar en ekki tekið ólíka afstöðu til stríðandi fylkinga á alþjóðavettvangi. Nýlegasta dæmið er uppreisnin í Sýrlandi, þar sem Rússar hafa stutt stjórnarher landsins í átökunum. Sýrlandsdeilan var á meðal umræðuefna á síðasta leiðtogafundi Evrópusambandsins og Rússlands, sem haldinn var í Jekaterínbúrg í Rússlandi í byrjun júní 2013.

Evrópusambandið tók því fagnandi þegar Rússland gerðist aðili að Alþjóðaviðskiptastofnuninni árið 2012, þar sem regluverk á sviði viðskipta milli ESB og Rússlands er nú mun skýrara. Aðildin eflir viðskiptasambandið milli Rússlands og ESB enn frekar auk þess sem hún girðir fyrir að Rússland geti tekið einhliða ákvarðanir um hækkun tolla eins og áður tíðkaðist. Þegar þetta er skrifað í júní 2013 hafa viðræður milli Rússlands og ESB um nýjan samstarfssamning þegar hafist. Nýja samningnum er ætlað að endurnýja grundvöll samskipta Rússlands og Evrópusambandsins og stuðla að frekara samstarfi þeirra á milli með áherslu á viðskipti, fjárfestingar og orkumál.

Heimildir og mynd:

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur14.6.2013

Tilvísun

Lena Mjöll Markusdóttir. „Hvernig er samskiptum ESB og Rússlands háttað?“. Evrópuvefurinn 14.6.2013. http://evropuvefur.is/svar.php?id=65440. (Skoðað 9.11.2024).

Höfundur

Lena Mjöll Markusdóttirlaganemi og verkefnastjóri á Evrópuvefnum

Við þetta svar er engin athugasemd Fela