Spurning

Af hverju er Rússland ekki í Evrópusambandinu?

Spyrjandi

N.N.

Svar

Rússland er ekki aðili að Evrópusambandinu og hefur aldrei sýnt því áhuga. Óvíst er að Rússland fengi inngöngu í sambandið ef það legði inn umsókn þar sem það uppfyllir ekki Kaupmannahafnarviðmiðin, inngönguskilyrði ESB. Staða mannréttinda í Rússlandi er bágborin, þrátt fyrir að landið hafi fullgilt Mannréttindasáttmála Evrópu.

***

Augljósasta ástæðan fyrir því að Rússland er ekki aðili að Evrópusambandinu er sú að Rússland hefur aldrei sótt um aðild að sambandinu og mun líklega ekki gera það í náinni framtíð. Helsta skýringin á því er sú að Rússland, sem er stærsta land í heimi að flatarmáli og hefur um 140 milljónir íbúa, hefur ekki áhuga á aðild að ESB og telur sig ekki þurfa á henni að halda. Þess í stað hafa Rússland og ESB gert með sér tvíhliða samstarfssamning um fjögur sameiginleg svæði (e. common spaces). Nánar má fræðast um samstarfið í svari við spurningunni Hvernig er samskiptum ESB og Rússlands háttað?

Áhugaleysi Rússlands á aðild að Evrópusambandinu má að nokkru leyti rekja til þess að Rússland og ESB hafa löngum eldað grátt silfur saman, sérstaklega eftir fall Sovétríkjanna undir lok síðustu aldar. Mörg fyrrum Sovétríki styrktu strax í kjölfarið tengslin við önnur Evrópulönd, svo sem með inngöngu í Norður-Atlantshafsbandalagið og Evrópusambandið, en þessi þróun var Rússum þvert um geð.


Medvedev forsætisráðherra og Pútín forseti Rússlands hafa ekki áhuga á aðild að ESB.

Jafnvel þótt Rússland hygðist sækja um aðild að Evrópusambandinu er óvíst að það fengi inngöngu. Eins er ekki víst að öll ESB-ríkin hefðu áhuga á að Rússland gengi í sambandið. Á grundvelli 49. greinar sáttmálans um starfshætti ESB getur sérhvert evrópskt ríki sótt um aðild að sambandinu sem uppfyllir sameiginleg gildi þau sem ESB byggist á. Þó getur ríki ekki orðið aðili að ESB nema með gagnkvæmu samþykki sínu og aðildarríkja sambandsins og að uppfylltum svonefndum Kaupmannahafnarviðmiðum.

Ef Rússland hefði áhuga á aðild að ESB mundi inngangan að öllum líkindum helst stranda á fyrsta viðmiðinu, sem kveður á um stöðugt stjórnarfar og stofnanir sem tryggi lýðræði, réttarríki, mannréttindi og vernd minnihlutahópa. Í skýrslu sem mannréttindafulltrúi Evrópuráðsins gaf út árið 2004, eftir heimsókn sína til Rússlands, kemur fram að Rússland hafi tekið gríðarlegum framförum frá falli Sovétríkjanna hvað varðar mannréttindi og lýðræði. Þrátt fyrir það var niðurstaða skýrslunnar sú að Rússland eigi enn langt í land í mannréttindamálum og að þau séu víða fótumtroðin. Dómskerfi Rússlands megi bæta með ýmsu móti, til að mynda hvað varðar hlutleysi dómara og afgreiðslutíma dómsmála. Einnig gagnrýndi mannréttindafulltrúinn harðlega að þrátt fyrir að dauðarefsingar hafi ekki verið stundaðar í Rússlandi í hartnær áratug hafi þær enn ekki verið afnumdar með lögum. Þá megi ýmislegt betur fara hvað varðar vernd hinna fjölmörgu minnihlutahópa í Rússlandi, auk þess sem útlendinga- og kynþáttahatur fyrirfinnst víða.

Nýlega var samþykkt frumvarp á rússneska þinginu sem skerðir réttindi samkynhneigðra til muna. Hefur frumvarpið verið gagnrýnt af mörgum, meðal annars Evrópusambandinu. Ýmis mál sem varða mannréttindi í Rússlandi rata oft í fjölmiðla. Margir muna eflaust eftir því þegar meðlimir hljómsveitarinnar Pussy Riot voru dæmdir í fangelsi fyrir gjörning sinn.


Mannréttindi eru víða fótumtroðin í Rússlandi.

Evrópusambandið og Rússland funda reglulega um mannréttindamál, síðast þann 17. maí 2013. Var það í sautjánda skiptið sem slíkur fundur fór fram. Um ágæti fundanna má deila, en gagnrýnisraddir vilja meina að þeir séu ekki nógu áhrifaríkir í baráttunni fyrir bættum mannréttindum í Rússlandi. Áætlað er að næsti fundur verði haldinn haustið 2013 og hefur Evrópusambandið óskað eftir því að hann fari fram í Moskvu til að færa hann nær hlutaðeigandi ráðuneytum og stofnunum.

Rússland gerðist aðili að Evrópuráðinu árið 1996. Aðildarríkjum Evrópuráðsins ber skylda til að innleiða Mannréttindasáttmála Evrópu og fullgilti Rússland hann árið 1998.

Heimildir og myndir:

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur21.6.2013

Tilvísun

Lena Mjöll Markusdóttir. „Af hverju er Rússland ekki í Evrópusambandinu?“. Evrópuvefurinn 21.6.2013. http://evropuvefur.is/svar.php?id=64610. (Skoðað 9.12.2024).

Höfundur

Lena Mjöll Markusdóttirlaganemi og verkefnastjóri á Evrópuvefnum

Við þetta svar er engin athugasemd Fela