Spurning

Evrópska nágrannastefnan

Spyrjandi

Evrópuvefur

Svar

Evrópsku nágrannastefnunni (e. European Neighbourhood Policy) var komið á fót í kjölfar stækkunar Evrópusambandsins árið 2004. Hún á að varna því að bilið milli hins stækkaða sambands og nýju nágrannaríkjanna í austri og suðri breikki. Stefnunni er ætlað að styrkja tengslin milli Evrópusambandsins og 16 nánustu nágrannaríkja þess og er hún hluti af utanríkisstefnu sambandsins.

Ríkin sem taka þátt í evrópsku nágrannastefnunni eru:

Alsír Líbanon
Armenía Líbía
Aserbaídsjan Moldavía
Egyptaland Marokkó
Georgía Hernumdu svæðin í Palestínu
Hvíta-Rússland Sýrland
Ísrael Túnis
Jórdanía Úkraína

Nágrannastefnan grundvallast á sérsniðnum tvíhliða aðgerðaáætlunum milli Evrópusambandsins og einstakra nágrannaríkja. Tólf ríkjanna sem taka þátt í nágrannastefnunni hafa gert slíka aðgerðaráætlun til þessa en ekki hefur náðst samkomulag við Alsír, Hvíta-Rússland, Líbíu og Sýrland. Viðræður um aðgerðaáætlun ESB og Alsír eru þó hafnar. Áætlanirnar snúa að tilteknum umbótum í efnahags- og stjórnmálum viðkomandi ríkja, sem framkvæmdar eru með fjárhagslegum og tæknilegum stuðningi Evrópusambandsins, gegn loforði um greiðari aðgang ríkjanna að innri markaðnum, til að mynda með lækkun tolla á vörur frá viðkomandi löndum. Þannig á stefnan að stuðla að efnahagslegum stöðugleika og eflingu lýðræðis, mannréttinda og réttarríkisins í nágrannaríkjum sambandsins.

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur14.6.2013

Tilvísun

Evrópuvefur. „Evrópska nágrannastefnan“. Evrópuvefurinn 14.6.2013. http://evropuvefur.is/svar.php?id=65452. (Skoðað 12.10.2024).

Höfundur

Evrópuvefur

Við þetta svar er engin athugasemd Fela