Spurning

Er það ekki brot á reglu EES-samningsins um frjálsa fjármagnsflutninga að neita erlendum aðilum (líka Íslendingum búsettum erlendis) að kaupa hlutabréf í TM hjá Landsbankanum?

Spyrjandi

Bjarni Berg Elfarsson

Svar

Ofangreind spurning virðist byggð á þeirri forsendu að erlendum aðilum í skilningi laga um gjaldeyrismál sé bannað að kaupa hlutabréf í íslenskum félögum eins og Tryggingamiðstöðinni hf. (TM). Sú forsenda er ekki fyllilega rétt. Erlendir aðilar mega kaupa hlutabréf í íslenskum félögum samkvæmt heimild í 13. gr. m. laga um gjaldeyrismál (nr. 87/1992). Er þá gert að skilyrði að fjárfest sé fyrir gjaldeyri sem fluttur er til landsins og skipt í krónur hjá fjármálafyrirtæki á Íslandi.

Ef við gefum okkur hins vegar þá forsendu að hinn erlendi aðili ætli að fjárfesta fyrir krónur sem viðkomandi á en ekki fyrir erlendan gjaldeyri þá er óheimilt að fjárfesta í hlutabréfum í því tilfelli, samanber 3. mgr. 13. gr. b. laga um gjaldeyrismál. Sérstaka undanþágu þyrfti frá Seðlabanka Íslands ef framkvæma ætti slíka fjárfestingu.


Seðlabanki Íslands.

Af lýsingu Tryggingamiðstöðvarinnar hf. dagsettri 11. apríl 2013 og núgildandi gjaldeyrislögum er ekki lagt bann við fjárfestingum aðila utan Íslands bæði íslenskum og erlendum að uppruna. Hins vegar eru lagðar takmarkanir við notkun krónueigna í eigu erlendra aðila í lögum um gjaldeyrismál. Erlendir aðilar geta því ekki ráðstafað þeim krónum sem þeir eiga í hlutabréfakaup nema að undangenginni undanþágu frá Seðlabanka Íslands.

Þær hömlur sem settar eru við fjárfestingum erlendra aðila í lögum um gjaldeyrismál eru vissulega hindrandi fyrir frjálst flæði fjármagns samkvæmt EES-samningnum. Þrátt fyrir það virðast þær hömlur vera réttlætanlegar á grundvelli 2. og 4. mgr. 43. gr. EES-samningsins við aðstæður eins og þær sem uppi eru í íslensku efnahagslífi.

Þær hömlur sem eru settar samkvæmt lögum um gjaldeyrismál útheimta flókið mat á ýmsum þjóðhagfræðilegum þáttum. EFTA-ríki njóta aukins svigrúms til að meta hvort skilyrðin teljast uppfyllt og til að ákveða til hvaða úrræða skuli gripið. Núverandi gjaldeyrishöft eru tímabundnar hindranir á fjárfestingum á Íslandi, og er ómögulegt að segja til um hvenær þau verða afnumin.

Mynd:

Upprunalega spurningin hljóðaði svo:

Neitað að kaupa hlutabréf í TM hjá Landsbankanum með þeim rökum að ég sé erlendur aðili (búsetu erlendis), er það ekki brot á fjórfrelsissamningnum?

Frjálsir fjármagnsflutningar. Þeir fela í sér að engin höft skulu vera milli samningsaðila á flutningi fjármagns í eigu þeirra sem búsettir eru í aðildarríkjum EES, né nokkur mismunun, byggð á ríkisfangi eða búsetu aðila eða því hvar fé er notað til fjárfestingar (63. gr. SSE og 40. gr. EES-samningsins).
Við þetta svar er engin athugasemd Fela