Spurning

Munu almenningssamgöngur verða betri og hraðari og verða hér lestasamgöngur ef við göngum í ESB?

Spyrjandi

Elísa Líf Ingvarsdóttir

Svar

Ákvarðanir um það hvort hér verði byggt upp lestarkerfi eða viðbætur gerðar á íslensku samgöngukerfi eru óháðar mögulegri aðild Íslands að Evrópusambandinu. Ef íslensk stjórnvöld ákveða að koma á fót lestarkerfi hérlendis mundi það þurfa að fylgja reglum Evrópusambandsins um lestasamgöngur, hvort sem við værum í ESB eða stæðum fyrir utan það. Ástæðan er sú að EES-samningurinn kveður á um þetta. Ef Ísland gengi í Evrópusambandið fengi það fulla aðild að uppbyggingarsjóðum ESB sem styrkja meðal annars verkefni á sviði samgöngumála.

***

Allar ákvarðanir um viðbætur eða breytingar á íslensku samgöngukerfi yrðu áfram í höndum íslenskra stjórnvalda þótt Ísland gengi í Evrópusambandið. Vangaveltur um það hvort hér verði byggt upp lestasamgöngukerfi eru óháðar mögulegri aðild Íslands að ESB. Ef hér yrði hins vega komið á lestarkerfi mundi það þurfa að uppfylla reglur Evrópusambandsins um lestasamgöngur, hvort svo sem Ísland mundi innleiða þær í gegnum EES-samninginn eða sem aðildarríki Evrópusambandsins.

Umræðan um lestasamgöngur á Íslandi skýtur reglulega upp kollinum. Yfirleitt eru það hugmyndir um að koma á hraðlest milli Keflavíkurflugvallar og Reykjavíkur eða að byggja upp léttlestarkerfi sem starfrækt yrði á höfuðborgarsvæðinu. Bent hefur verið á að innlend raforka gæti verið notuð til að knýja sporvagnana og mundi slíkt draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda. Sömuleiðis mundu lestasamgöngur væntanlega draga úr umferðarþunga.


Fyrsta og eina járnbrautalestin sem notuð hefur verið á Íslandi. Hún flutti grjót frá Öskjuhlíðinni til hafnarframkvæmda við Reykjavíkurhöfn.

Íbúum höfuðborgarsvæðisins hefur fjölgað mjög á undanförnum áratugum og árið 2024 er áætlað að þeir verði í kringum 230 þúsund. Erlendis er oft miðað við að lestarkerfi séu tekin í gagnið þegar íbúafjöldi viðkomandi borgar er kominn um eða yfir eina milljón en Íslendingar eiga enn langt í land með að ná þeim fjölda. Þær athuganir sem gerðar hafa verið á mögulegum lestasamgöngum hér á landi hafa leitt til þeirrar niðurstöðu að fámenni, dreifbýli höfuðborgarsvæðisins og góð virkni fyrirliggjandi almenningssamgangna geri það að verkum að ekki svari kostnaði að koma á slíku kerfi, enda sé stofn- og rekstrarkostnaður lestarkerfa mikill.

Ef til aðildar Íslands að Evrópusambandinu kæmi fengi Ísland úthlutað styrkjum úr Byggðaþróunarsjóði ESB en markmið hans er meðal annars að bæta samgöngur í aðildarríkjunum. Ef íslensk stjórnvöld ákvæðu að koma á íslensku lestarkerfi má ætla að stuðningur til þess gæti fengist úr sjóðnum. Ákvarðanir um hvaða verkefni hlytu stuðning úr Byggðaþróunarsjóði hérlendis yrðu teknar af íslenskum stjórnvöldum í samræmi við forgangsatriði byggðastefnu Evrópusambandsins, leiðbeiningar framkvæmdastjórnarinnar og aðstæður á Íslandi. Ítarlegri umfjöllun um úthlutun styrkja úr Byggðaþróunarsjóði Evrópusambandsins til verkefna á sviði samgöngumála má finna í svari við spurningunni Myndi ESB veita styrki til jarðganga eða brúarsmíði hér ef til aðildar kæmi?

Samstarf Evrópusambandsríkja á sviði samgangna nær til allra helstu samgöngugreina, það er að segja siglinga, vega, flugs, vatnaleiða og lesta. Löggjöf Evrópusambandsins á sviði samgöngumála hefur nú þegar verið tekin upp í íslenskan rétt í gegnum EES-samninginn, að undanskilinni löggjöfinni um hvíldartíma flutningabílstjóra, og reglum um lestasamgöngur. Í skýrslu innanríkisráðuneytisins um samgöngumál og áhrif hugsanlegrar aðildar að Evrópusambandinu kemur fram að helstu breytingarnar við inngöngu yrðu meðal annars þær að:
  • Ísland fengi fulla aðild að uppbyggingarsjóðum ESB sem styrkja meðal annars verkefni á sviði samgöngumála.
  • Ísland fengi aðild að samstarfsáætluninni TEN-T13 (e. Trans European Networks, TEN) og Galileo-áætluninni á sviði samgöngumála og þar af leiðandi aðgang að sjóðum áætlananna.
  • Íslensk stjórnvöld hefðu aukna aðkomu að ákvarðanatökuferli Evrópusambandsins á sviði samgöngumála. Þátttaka Íslands í ráðinu mundi tryggja virkan þátt Íslands í að semja og samþykkja reglur sambandsins í samgöngumálum. Þetta væri einkum mikilvægt á sviðum þar sem Ísland hefur sérstöðu, til dæmis vegna fámennis (dreifbýlis) og náttúru.

Heimildir og myndir:

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur 8.3.2013

Flokkun:

Evrópumál > ýmislegt

Tilvísun

Þorvarður Kjerulf Sigurjónsson. „Munu almenningssamgöngur verða betri og hraðari og verða hér lestasamgöngur ef við göngum í ESB?“. Evrópuvefurinn 8.3.2013. http://evropuvefur.is/svar.php?id=63658. (Skoðað 20.5.2024).

Höfundur

Þorvarður Kjerulf Sigurjónssonalþjóðastjórnmálafræðingur og fyrrverandi verkefnastjóri hjá Evrópuvefnum

Við þetta svar er engin athugasemd Fela