Spurning

Hver eru laun æðstu embættismanna ESB?

Spyrjandi

Gunnlaugur Ingvarsson

Svar

Launatafla embættismanna Evrópusambandsins myndar grunninn að útreikningi launa æðstu embættismanna. Þannig eru grunnmánaðarlaun forseta framkvæmdastjórnarinnar (José Manuel Barroso), forseta leiðtogaráðsins (Hermans Van Rompuy) og forseta dómstóls Evrópusambandsins (Vassilios Skouris) skilgreind sem 138% af mánaðarlaunum embættismanns í hæsta launaflokki og -þrepi (2. grein reglugerðar 422/67/EEC og 1. grein ákvörðunar ráðsins 2009/909). Miðað við núgildandi launatöflu (frá 1. júlí 2007) hefur embættismaður í 16. launaflokki og þriðja þrepi (e. grade 16, step 3) 18.370,84 evrur í grunnlaun á mánuði.

Staða Hlutfall af 16-3 Grunnmánaðarlaun í €
Forseti framkvæmdastjórnarinnar
Forseti leiðtogaráðsins
Forseti dómstóls ESB
138% 25.351,76 €
Varaforseti framkvæmdastjórnarinnar 125% 22.963,55 €
Framkvæmdastjórar
Dómarar og aðallögmenn dómstóls ESB
112,5% 20.667,2 €
Ritarar dómstóls ESB 101% 18.554,55 €
Evrópuþingmenn 38,5%* 7.956,87 €

* Hlutfall launa Evrópuþingmanna miðast við laun dómara við dómstól Evrópusambandsins.

Ofantaldir embættismenn eiga ennfremur rétt á dvalarstyrk (e. residence allowance), sem jafngildir 15% af grunnlaunum þeirra, og mánaðarlegu risnufé (e. entertainment allowance) að upphæð: (sjá 4. grein reglugerðar 422/67/EEC og 1. grein ákvörðunar ráðsins 2009/909)
  • 1.418,07 evrur fyrir forseta framkvæmdastjórnarinnar, forseta dómstóls Evrópusambandsins og forseta leiðtogaráðsins.
  • 911,38 evrur fyrir varaforseta framkvæmdastjórnarinnar.
  • 607 evrur fyrir framkvæmdastjóra, dómara og aðallögmenn (e. advocate-general) dómstóls Evrópusambandsins.
  • 554,17 fyrir ritara dómstóls Evrópusambandsins.

Embættismenn stofnana Evrópusambandsins koma frá öllum aðildarríkjum og hafa því flestir flust búferlum milli landa til Brussel eða Strassborgar vegna starfs síns. Til þess að mæta þeim ókostum sem slíkum flutningum fylgja, ekki síst fyrir fjölskyldur embættismannanna, eiga þeir rétt á svokölluðum fjölskyldugreiðslum (e. family allowance) að uppfylltum ákveðnum skilyrðum (sjá viðauka VII við reglugerð 31/62/EEC). Fjölskyldugreiðslurnar samanstanda af:
  • Heimilisstyrk (e. household allowance), 167,31 evru og 2% af grunnlaunum embættismanns.
  • Barnagreiðslum (e. dependant child allowance), 365,60 evrum á mánuði með hverju barni yngra en 18 ára sem býr á heimili með embættismanni.
  • Menntunargreiðslum (e. education allowance), að hámarki 248,06 evrum á mánuði með hverju barni á skólaaldri.

Ennfremur eiga embættismenn rétt á: (sjá viðauka VII við reglugerð 31/62/EEC)
  • Utanlandsstyrk (e. expatriation allowance), sem nemur 16% af heildargrunnlaunum, ef þeir eru ekki ríkisborgarar þess ríkis sem vinnustaður þeirra er staðsettur í.
  • Endurgreiðslu ferðakostnaðar fyrir sig og fjölskyldu sína frá dvalarstað til upprunalands einu sinni á ári.
  • Ýmsum öðrum greiðslum tengdum flutningum, sem nauðsynlegir eru starfsins vegna, og framfærslu sem og endurgreiðslu útlagðs kostnaðar.


Þingmenn Evrópuþingsins þurfa að ferðast mikið.
Grunnmánaðarlaun þingmanna Evrópuþingsins eru 38,5% af grunnlaunum dómara við dómstól Evrópusambandsins (10. grein ákvörðunar Evrópuþingsins 5005/684) eða 7.956,87 evrur miðað við núgildandi launatöflu sem laun dómara Evrópudómstólsins miðast við. Launin eru greidd af fjárlögum Evrópuþingsins.

Þingmenn Evrópuþingsins koma frá öllum aðildarríkjum sambandsins líkt og aðrir starfsmenn stofnana ESB. Sem kjörnir fulltrúar kjósenda er það hins vegar nauðsynlegt starfi þingmanna að vera í nánum tengslum við kjördæmi sín. Líkt og þingmenn hefðbundinna þjóðþinga þurfa Evrópuþingmenn þó að dvelja langdvölum á þingstað fjarri heimilum sínum og halda sumir þingmenn því tvö heimili. Evrópuþingið hefur þar að auki aðsetur í Brussel en aðalfundir þess eru haldnir einu sinni í mánuði í Strassborg í Frakklandi. Ferðalög eru því augljóslega stór þáttur í starfi þingmanna Evrópuþingsins.

Vegna útgjalda sem til eru komin í aðildarríki þingmanna eiga þeir tilkall til útgjaldastyrks (e. general expenditure allowance). Til þess konar útgjalda telst fyrst og fremst kostnaður við rekstur kjördæmisskrifstofu, að hámarki 4.299 evrur á mánuði (árið 2011). Þingmenn eiga ennfremur rétt á endurgreiðslu ferðakostnaðar vegna þingfunda, nefndafunda og flokksfunda sem oftast eru haldnir í Brussel eða Strassborg. Þingið greiðir þingmönnum einnig fasta framfærslugreiðslu (e. subsistance allowance) að upphæð 304 evrur á dag fyrir þá opinberu fundi þingsins og nefnda þess sem þeim ber að sitja, ef þeir eru viðstaddir. Fyrir sambærilega fundi sem ekki fara fram innan ESB greiðir þingið 152 evrur á dag auk kostnaðar við gistingu og morgunverð. Þar að auki eiga þingmenn rétt á endurgreiðslu ferðakostnaðar og uppihalds, að hámarki 4.243 evrum (árið 2010) vegna annarra ferðalaga, til að mynda vegna ráðstefna í öðrum aðildarríkjum eða vinnuheimsókna í tengslum við sérstök þingmál.

Reglur um einn launataxta fyrir þingmenn Evrópuþingsins tóku fyrst gildi við upphaf yfirstandandi kjörtímabils, í júlí 2009. Fram að því höfðu þingmenn Evrópuþingsins haft sömu grunnlaun og þingmenn í neðrideild þjóðþinga þeirra aðildarríkja sem þeir komu frá og voru laun þeirra greidd af aðildarríkjunum. Þetta leiddi til þess að mikill munur var á launum þingmanna, og þar af leiðandi möguleikum þeirra til að sinna störfum sínum, eftir því frá hvaða aðildarríki þeir komu. Samkvæmt frétt á vef BBC voru launahæstu þingmenn Evrópuþingsins þeir ítölsku, með um 11.000 evrur í laun á mánuði. Spánverjar voru launalægstir, með um 2.600 evrur á mánuði, fram að stækkun ESB til austurs í byrjun maí 2004 en þingmenn margra nýju aðildarríkjanna höfðu einungis á milli 1000 og 2000 evrur í mánaðarlaun.

Mynd:

Upphafleg spurning:

Hvað hafa þingmenn á Evrópuþinginu í laun á ári og hver eru helstu fríðindi þeirra? Hvað með laun Barrosso, Van Rompuy og annarra kommissara? Hvað með aðra embættismenn?

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur23.3.2012

Flokkun:

Evrópumál > Stofnanir

Tilvísun

Þórhildur Hagalín. „Hver eru laun æðstu embættismanna ESB?“. Evrópuvefurinn 23.3.2012. http://evropuvefur.is/svar.php?id=62201. (Skoðað 6.10.2024).

Höfundur

Þórhildur HagalínEvrópufræðingur og fyrrverandi ritstjóri Evrópuvefsins

Við þetta svar er engin athugasemd Fela