Spurning

Um hvað snerust bananastríð Evrópu og Bandaríkjanna?

Spyrjandi

Kristín Sigurðardóttir

Svar

Bananastríð Evrópusambandsins og Bandaríkjanna er hugtak sem notað er um deilur vegna tolla sem lagðir voru á innflutta banana í ESB. Evrópusambandið hafði afnumið tolla á innflutta banana frá AKK-löndunum til að efla þróun í þeim löndum. Þetta voru Bandaríkin ekki ánægð með, enda stjórna bandarísk fjölþjóðafyrirtæki mörgum stærstu bananaframleiðendunum í Suður-Ameríku. Fjölmargar kvartanir voru lagðar inn til Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar sem alltaf komst að þeirri niðurstöðu að Evrópusambandið væri að brjóta gegn alþjóðlegum reglum um viðskipti. Evrópusambandið var tregt til að una niðurstöðum stofnunarinnar, en árið 2012 var loks undirritað samkomulag sem á að binda enda á deilurnar.

***

Bananastríðin svokölluðu voru tveggja áratuga viðskiptadeilur milli Evrópusambandsins og Bandaríkjanna auk nokkurra ríkja í Suður-Ameríku. Deilurnar snerust um tolla sem ESB lagði á innflutta banana.

Deilurnar hófust árið 1993 þegar Evrópusambandið afnam tolla vegna innflutnings á banönum frá fyrrum nýlendum sínum í Karíbahafinu, Afríku og Kyrrahafinu (AKK-löndin). Ætlun sambandsins var að aðstoða við að efla efnahaginn í þessum löndum. Tollar voru hins vegar enn lagðir á bananainnflutning frá Suður-Ameríku. Mörgum bananabændum þaðan er stjórnað af bandarískum fjölþjóðafyrirtækjum (e. multinationals), til að mynda Dole, Chiquita og Del Monte. Bandaríkin héldu því fram að Evrópusambandið gæfi bananabændunum í AKK-löndunum greiðari aðgang að markaði sambandsins og bryti þar með gegn fríverslunarreglum.


Bananar.

Bananamarkaðurinn í ESB er sá stærsti í heiminum. Árið 2008 flutti Evrópusambandið inn 5,5 tonn af banönum. Aðeins 10% banananna koma þó frá ESB-ríkjum, það er frá Spáni, Grikklandi, Portúgal, Kýpur og hinum frönsku Gvadelúpeyjum og Martiník. 17% banananna koma frá AKK-löndunum, en yfir 70% frá Suður-Ameríku.

Bandaríkin, Ekvador, Gvatemala, Hondúras og Mexíkó lögðu sameiginlega inn kvörtun til alþjóðaviðskiptastofnunarinnar árið 1997 og unnu málið. Evrópusambandinu var gert að breyta reglum sínum um bananainnflutning. Evrópusambandið greip þó ekki til aðgerða og ástandið hélst óbreytt. Á næstu árum urðu kvartanirnar til Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar fjölmargar og var niðurstaðan alltaf sú sama. Alþjóðaviðskiptastofnunin gaf Bandaríkjunum meira að segja leyfi til að leggja 100% tolla á tilteknar innfluttar vörur frá ESB í staðinn, svo sem franskan ost.

Að lokum féllst Evrópusambandið á að una niðurstöðum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar. Í nóvember 2012 má segja að bananastríðin hafi loks tekið enda þegar ESB og 11 lönd í Suður-Ameríku undirrituðu Genfar-samkomulagið um viðskipti með banana. Samkvæmt samkomulaginu ætlar Evrópusambandið að lækka tolla á bananainnflutningi frá Suður-Ameríku í átta þrepum. Í staðinn samþykktu suður-amerísku löndin að hætta við öll útistandandi málaferli fyrir Alþjóðaviðskiptastofnuninni gegn ESB vegna deilnanna.

Í kjölfar samkomulagsins má vænta þess að verð á banönum í ESB muni lækka, þar sem samkeppni Suður-Ameríku, AKK-landanna og þeirra ESB-ríkja sem rækta banana er nú mun meiri. Sumir hræðast að þróunin í AKK-löndunum, sem Evrópusambandið lagði upp með að efla, muni nú fara í öfuga átt. Til að fyrirbyggja að svo verði hefur verið ákveðið að þessi lönd skuli hljóta allt að 200 milljónir evra frá Evrópusambandinu til að þau geti aðlagast harðari samkeppni. Einnig munu evrópsku bananabændurnir hljóta hærri fjárframlög.

Heimildir og mynd:

Við þetta svar er engin athugasemd Fela