Spurning

Doha-samningalotan

Spyrjandi

Evrópuvefur

Svar

Doha-samningalotan svonefnda eru samningaviðræður sem aðildarríki Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar hafa staðið í með hléum síðastliðin tólf ár. Markmið viðræðnanna er að minnka viðskiptahömlur milli ríkja í alþjóðaviðskiptum og þá einkum á þeim sviðum fríverslunar sem gæti gagnast fátækum ríkjum hvað mest, líkt og í landbúnaði. Viðræðurnar eru umfangsmiklar en í þeim taka þátt samninganefndir 150 ríkja Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar og spanna umræðurnar tuttugu ólíka þætti fríverslunar.

Doha-viðræðurnar hófust í nóvember 2001 og stefnt var að því að þeim yrði lokið í árslok 2004. Ekki tókst að standa við þá tímaáætlun þar sem upp komu ýmis ágreiningsefni sem hægðu umtalsvert á framgangi samninga. Til að mynda deildu Evrópusambandið og Bandaríkin harkalega við Kína og Indland um aðgengi að mörkuðum þróunarríkjanna. Stjórnvöld í Kína, Indlandi og Indónesíu vildu vernda bændur sína og koma í veg fyrir að ódýrar landbúnaðarvörur flæddu inn á þeirra markaði.

Segja má að nokkurs konar pattstaða hafi myndast í viðræðunum þar sem enn ber of mikið í milli aðila, þó svo að drög að rammasamkomulagi um marga helstu þætti hafa legið fyrir um tíma. Undanfarin ár hefur starf Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar að miklu leyti einkennst af tilraunum til þess að halda áfram viðræðum innan Doha-lotunnar. Stofnunin hefur lagt ríka áherslu á nýja nálgun viðræðnanna þar sem fyrri ágreiningsefni eru lögð til hliðar og fremur einblínt á að ná samkomulagi um þau atriði sem minni ágreiningur er um. Enn er of snemmt að segja til um hvort þessar nýju áherslur skili árangri en stefnt er að því að niðurstaða liggi fyrir á níunda ráðherrafundi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, sem haldinn verður síðari hluta árs 2013.

Pattstaðan í Doha-lotunni hefur leitt til þess að aðildarríki Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar hafa leitað annarra leiða til þess að ná fram markmiðum sínum um aukið frjálsræði í viðskiptum og sterkara regluverk í alþjóðaviðskiptum. Tvíhliða fríverslunarsamningar hafa aukist verulega á undanförnum árum og Ísland og EFTA-ríkin hafa tekið þátt í þeirri þróun. Þá hefur hópur aðildarríkja Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar tekið sig saman og hafið viðræður um aukið frjálsræði í þjónustuviðskiptum. Í þeim hópi eru meðal annars ESB-ríkin, Bandaríkin, Kanada, Noregur, Sviss, Ástralía, Nýja-sjáland, Japan, Suður-Kórea, Mexíkó, auk fleiri ríkja.

Náist að ljúka Doha-samningunum mun það stórauka viðskipti milli ríkja á alþjóðamörkuðum með iðnvarning, þjónustuviðskipti og landbúnaðarafurðir. Gera má ráð fyrir að útflutningsbætur verði afnumdar, dregið verði úr markaðshvetjandi ríkisstuðningi, tollar verði lækkaðir og markaðsaðgengi muni aukast. Mörg ríki, Ísland þar með talið, hafa lagt ríka áherslu á það í samningaviðræðunum að taka þurfi sérstakt tillit til sérstöðu viðkvæms landbúnaðar á jaðarsvæðum. Þó er fyrirsjáanlegt að ef Doha-lotunni lýkur með samningum mun það hafa áhrif á opinberan stuðning við íslenskan landbúnað. Hversu mikil þau áhrif verða er erfitt að segja til um.

Við þetta svar er engin athugasemd Fela