Spurning

Evrópska réttaraðstoðin

Spyrjandi

Evrópuvefur

Svar

Hlutverk evrópsku réttaraðstoðarinnar er að stuðla að samræmingu rannsókna og saksókna afbrota í aðildarríkjum Evrópusambandsins. Sérstaklega er miðað að því að einfalda alþjóðlega réttaraðstoð og framkvæmd framsalsbeiðna. Hún aðstoðar aðildarríkin við rannsókn og saksókn afbrota yfir landamæri (e. cross-border crime) ef tiltekið afbrot nær yfir tvö eða fleiri aðildarríki. Evrópska réttaraðstoðin sjálf má ekki rannsaka eða saksækja vegna afbrots.

Réttaraðstoðin sinnir sömu tegundum afbrota og evrópska lögregluskrifstofan. Hún vinnur til að mynda gegn hryðjuverkum, fíkniefnasmygli, mansali, peningaþvætti og netglæpum. Réttaraðstoðin getur aðstoðað við afbrot sem ekki heyra undir starfssvið hennar ef aðildarríki biður sérstaklega um það.

Viðræður um stofnun evrópsku réttaraðstoðarinnar (e. Eurojust) hófust á fundi leiðtogaráðsins í Finnlandi í október 1999. Réttaraðstoðin tók til starfa í febrúar 2002 og hefur aðsetur í Haag í Hollandi. Hjá evrópsku réttaraðstoðinni starfar hópur dómara, saksóknara og lögreglumanna frá öllum ESB-ríkjunum.

Evrópska réttaraðstoðin starfar náið með evrópsku lögregluskrifstofunni og evrópuskrifstofu gegn svikum, og hefur gert samstarfssamninga við nokkur ríki utan ESB, til að mynda Noreg, Ísland, Sviss og Bandaríkin. Noregur og Bandaríkin eiga einnig fasta tengifulltrúa (e. liasion officers) hjá evrópsku réttaraðstoðinni. Réttaraðstoðin er með tengiliði í 23 ríkjum utan ESB til viðbótar.

Starfsemi evrópsku réttaraðstoðarinnar hefur vaxið mjög frá stofnun. Árið 2002 aðstoðaði hún í 202 málum, en árið 2010 voru málin orðin 1.424. Í desember 2008 var gefin út ákvörðun ráðsins sem hefur það að markmiði að efla starf evrópsku réttaraðstoðarinnar enn frekar. Sérstaklega er miðað að því að uppræta fjölþjóðlega skipulagða glæpastarfsemi.

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur22.11.2013

Tilvísun

Evrópuvefur. „Evrópska réttaraðstoðin“. Evrópuvefurinn 22.11.2013. http://evropuvefur.is/svar.php?id=66225. (Skoðað 19.6.2024).

Höfundur

Evrópuvefur

Við þetta svar er engin athugasemd Fela