Spurning

Starfsmannadómstóll Evrópusambandsins

Spyrjandi

Evrópuvefur

Svar

Starfsmannadómstóll Evrópusambandsins (e. Civil Service Tribunal) leysir ágreininga milli starfsmanna og stofnana eða deilda Evrópusambandsins. Dómstólnum var komið á fót árið 2005 og hefur hann aðsetur í Lúxemborg.

Dómstólinn skipa sjö dómarar sem tilnefndir eru af ráðinu. Hver dómari gegnir embættinu í sex ár í senn, en getur verið endurskipaður. Við tilnefninguna gætir ráðið þess að hópurinn sé sem fjölbreyttastur, bæði landfræðilega og hvað varðar réttarkerfi aðildarríkjanna. Dómararnir velja forseta dómstólsins til þriggja ára í senn, en hann getur verið endurskipaður.

Oftast dæma þrír dómarar í hverju máli, en geta þó verið frá einum og upp í fullskipaðan dómstól, það er sjö dómarar.

Málsmeðferð

Málsmeðferð hefst þegar kæra berst til dómstólsins. Hún getur verið á einu af opinberum tungumálum Evrópusambandsins og verður það tungumál dómsmálsins. Hægt er að lesa meira um tungumál ESB í svari Evrópuvefsins við spurningunni Hver eru opinber tungumál Evrópusambandsins?. Dómritari sendir kæruna á gagnaðila, sem hefur tvo mánuði til að skila inn greinargerð. Dómstóllinn getur ákveðið að þetta ferli skuli endurtekið þannig að önnur umferð málflutningsskjala fari milli málsaðila.

Hver, sem sýnt getur fram á hagsmuni að því er varðar niðurstöðu máls sem kært hefur verið til dómstólsins, getur gerst meðalgönguaðili við rekstur málsins.

Að þessu loknu fer fram munnlegur málflutningur, sem oftast er opinber. Í málflutningnum geta dómararnir spurt lögmenn eða aðilana sjálfa spurninga. Þegar dómararnir hafa komist að niðurstöðu er hún lesin upp á opinberum áheyrnarfundi.

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur 4.11.2013

Tilvísun

Evrópuvefur. „Starfsmannadómstóll Evrópusambandsins“. Evrópuvefurinn 4.11.2013. http://evropuvefur.is/svar.php?id=66176. (Skoðað 20.5.2024).

Höfundur

Evrópuvefur

Við þetta svar er engin athugasemd Fela