Svar
Hvalveiðar heyra undir umhverfismál hjá Evrópusambandinu og eru bannaðar samkvæmt svonefndri vistgerðartilskipun. Hið sama gildir um viðskipti með hvalaafurðir innan sambandsins. Nær öll aðildarríkin eru hlynnt banninu og ekkert þeirra stundar hvalveiðar. Það væri því ólíklegt að Ísland fengi undaþágu frá því banni. Líklega þyrftu Íslendingar að hætta hvalveiðum ef til aðildar kæmi.
***
Ef til aðildar Íslands að Evrópusambandinu kæmi mundi Ísland líklega þurfa að hætta hvalveiðum. Hugsanlegar undanþágur eru ólíklegar þar sem hvalveiðar eru bannaðar innan Evrópusambandsins samkvæmt vistgerðartilskipun sambandsins um vernd náttúrlegra búsvæða og villtra plantna og dýra (
nr. 92/43/EBE). Hið sama gildir um viðskipti með hvalaafurðir innan sambandsins. Allar hvalategundir eru tilgreindar í IV. viðauka vistgerðartilskipunarinnar sem tegundir sem þarfnast strangrar verndar. Ekkert aðildarríkjanna stundar hvalveiðar og nær öll þeirra eru hlynnt banninu. Vistgerðartilskipunin hefur ekki verið tekin upp í íslenskan rétt á vettvangi
EES-samningsins.
Íslensk hvalveiðiskip. |
Núverandi stefna Íslands í hvalveiðimálum byggist á
ályktun Alþingis um hvalveiðar frá 10. mars 1999 og grundvallast á meginreglunni um verndun og sjálfbæra nýtingu. Hvalveiðum Íslands er stjórnað á vísindalegum grunni innan 200 mílna efnahagslögsögu landsins og í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar Íslands. Hvalveiðar Íslendinga falla undir alþjóðlegar reglur um rannsóknir og eftirlit á vettvangi
Alþjóðahvalveiðiráðsins (IWC) og
Norður-Atlantshafssjávarspendýraráðsins (NAMMCO). Eins og er nýtir Ísland tvo hvalastofna, langreyði og hrefnu.
Í
samningsafstöðu Íslands um umhverfismál vegna aðildarviðræða Íslands og ESB leitar Ísland eftir því að sambandið staðfesti heimildir landsins til nýtingar á þeim hvalategundum sem teljast hafa varanlega búsetu innan íslensku efnahagslögsögunnar og að sú nýting verði tryggð til frambúðar. Ísland fer jafnframt fram á breytingar og tæknilega aðlögun á viðaukum vistgerðartilskipunar ESB. Í samningsafstöðunni eru þau rök færð í málinu að á Íslandi eru stundaðar vísindarannsóknir á hvölum og að Hafrannsóknarstofnun hafi reglubundið eftirlit með útbreiðslu og fjölda dýra í hvalastofnum í samstarfi við vísindastofnanir í nágrannalöndum við Norður-Atlantshafið. Þannig sé tryggt að árlegar nýtingarheimildir fyrir einstakar hvalategundir byggi á bestu fáanlegu vísindalegum upplýsingum.
Reglur Evrópusambandsins um bann við hvalveiðum endurspegla í raun gildandi bann Alþjóðahvalveiðiráðsins um hvalveiðar í atvinnuskyni. Ísland, sem á aðild að ráðinu, hefur þó löngum haldið því fram að landið sé ekki lagalega bundið af hvalveiðibanni Alþjóðahvalveiðiráðsins sökum þeirra lagalegu fyrirvara sem gerðir voru við endurinngöngu Íslands í ráðið árið 2001. Þessir fyrirvarar eru óaðskiljanlegur hluti af aðildarskjali Íslands að Alþjóðahvalveiðiráðinu. Ýmis aðildarríki ráðsins hafa mótmælt þessum fyrirvörum. Mótmælin eru almennt pólitísks eðlis og hafa hingað til ekki haft áhrif á framangreinda niðurstöðu.
Afgerandi afstaða Evrópusambandsins gegn hvalveiðum gerir það að verkum að komi til aðildar Íslands að sambandinu þyrfti Ísland að öllum líkindum að breyta núverandi lögum um hvalveiðar og innleiða löggjöf ESB um bann við hvalveiðum og sölu hvalaafurða í íslenskan rétt.
Heimildir og mynd: