Spurning

Alþjóðahvalveiðiráðið

Spyrjandi

Evrópuvefur

Svar

Alþjóðahvalveiðiráðið (e. The International Whaling Commission, IWC) var stofnað með alþjóðasamningi um stjórnun hvalveiða árið 1946. Upphaflega var ráðið samtök hvalveiðiþjóða og átti að vinna í þágu hagsmuna þeirra en í kjölfar hnignunar ýmissa hvalastofna urðu verndunar- og friðunarsjónarmið ríkjandi. Markmið ráðsins í dag er að stuðla að vernd hvalastofna þannig að hvalaveiðar geti þróast með skipulegum hætti. Ráðið leggur mikla áherslu á rannsóknir Vísindaráðsins sem grundvalla ákvarðanatöku ráðsins að miklu leyti.

Alþjóðahvalveiðiráðið fundar á tveggja ára fresti. Fundinn sitja sendinefndir aðildarríkjanna. Öllu jafna koma stærstu sendinefndirnar frá Bandaríkjunum, Japan, Noregi og Íslandi. Vert er að taka fram að öll ríki geta fengið aðild að Alþjóðahvalveiðiráðinu, óháð því hvort ríkið hafi einhverja hagsmuni, beina eða óbeina af hvalveiðum. Atkvæðisréttur innan ráðsins er einungis háður því skilyrði að ekki séu vanskil á árgjaldi ráðsins. Til að gera breytingar á sáttmálanum um stjórnun hvalveiða þarf samþykki ¾ aðildarríkjanna.

Ísland var aðili að alþjóðasamningnum um stjórnun hvalveiða og Alþjóðahvalveiðiráðinu frá upphafi en í kjölfar þeirra stefnubreytinga sem ráðið gerði frá nýtingarsjónarmiðum til verndunar og friðunarsjónarmiða, ákváðu stjórnvöld að segja Ísland úr ráðinu árið 1991. Úrsögnin tók gildi ári síðar. Þrátt fyrir úrsögnina hélt Ísland stöðu sinni sem áheyrnaraðili. Í kjölfar úrsagnarinnar stofnaði Ísland, ásamt Noregi, Færeyjum og Grænlandi, Norður-Atlantshafssjávarspendýraráðið, NAMMCO, í því skyni að uppfylla skyldur sínar samkvæmt 65. gr. hafréttarsamningsins til að eiga samstarf á vettvangi viðeigandi alþjóðastofnana. Árið 2002 gerðist Ísland á ný aðili að ráðinu. Aðildinni fylgdi fyrirvari við hvalveiðibanninu og er Ísland því óbundið af því. Réttarstaða Íslands er því hin sama og ef íslensk stjórnvöld hefðu mótmælt banninu tuttugu árum áður.

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur 4.10.2013

Tilvísun

Evrópuvefur. „Alþjóðahvalveiðiráðið“. Evrópuvefurinn 4.10.2013. http://evropuvefur.is/svar.php?id=65980. (Skoðað 26.4.2024).

Höfundur

Evrópuvefur

Við þetta svar er engin athugasemd Fela