Spurning

Er það rétt að Evrópusambandið standi í vegi fyrir 20% endurgreiðslu fyrir kvikmyndaframleiðslu?

Spyrjandi

Valur Zophoníasson

Svar

Í stuttu máli er svarið nei. Endurgreiðslur úr ríkissjóði vegna kvikmynda- og sjónvarpsþáttaframleiðslu er vinsæl aðferð úti í heimi til að laða að erlenda framleiðendur, meðal annars í ríkjum Evrópusambandsins. Endurgreiðslur sem þessar eru ríkisaðstoð. Almennt séð er ríkisaðstoð talin geta raskað samkeppni á markaðnum en í sumum tilfellum þykir hún nauðsynlegur þáttur í að viðhalda sanngjörnu og skilvirku hagkerfi. Ríkisaðstoð vegna kvikmyndaframleiðslu hefur hingað til verið leyfileg á EES-svæðinu innan ákveðinna marka. Eftirlit með ríkisaðstoð er strangt og til að mynda þurfa breytingar sem kunna að vera gerðar á lögum um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi að hljóta samþykki Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA).

***

Á Íslandi gildir sú regla að heimilt er að endurgreiða úr ríkissjóði 20% af framleiðslukostnaði sem til fellur við framleiðslu kvikmynda eða sjónvarpsefnis hér á landi að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Falli 80% af heildarframleiðslukostnaði til á Íslandi reiknast endurgreiðslan af heildarframleiðslukostnaði sem til fellur á EES-svæðinu. Upprunalegt hlutfall endurgreiðslu var 12% en hefur farið hækkandi og var síðast hækkað úr 14% í 20% árið 2009. Regla þessi á sér stoð í lögum um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi (nr. 43/1999) og samnefndri reglugerð (nr. 622/2012). Lögin eru reglulega framlengd til nokkurra ára í senn. Ástæða þess er sú að auðveldara sé að bregðast við breyttum sjónarmiðum ESA um lögmæti endurgreiðslnanna. Í sinni núverandi mynd gilda lögin til ársins 2016.


Framleiðendur sjónvarpsþáttanna Game of Thrones hafa að vonum orðið ánægðir með endurgreiðsluna sem þeir fengu frá íslenska ríkinu.

Þetta endurgreiðslukerfi hefur orðið til þess að margir innlendir og erlendir framleiðendur kvikmynda og sjóvarpsefnis hafa kosið að framleiða efni sitt hér á landi. Þessi aðferð til að lokka framleiðendur til landsins þekkist víða úti í heimi, meðal annars í ríkjum Evrópusambandsins. Ætti það engan að undra, enda er hún atvinnuskapandi fyrir innlent kvikmyndagerðarfólk og skilar auknum tekjum í ríkissjóð ef vel gengur.

Endurgreiðsluhlutfallið er breytilegt eftir löndum, og því hefur verið haldið fram að það sé enn of lágt á Íslandi til að það sé samkeppnishæft við önnur lönd. Landfræðileg staðsetning Íslands og landslagið hafa þó án efa orðið landinu til framdráttar þar sem það hefur verið nokkuð vinsæl staðsetning til kvikmynda- og sjónvarpsþáttaframleiðslu á undanförnum árum.

Endurgreiðsla sem þessi fellur undir ríkisaðstoð. Almennt er tekið fyrir ríkisaðstoð innan EES-svæðisins þar sem hún getur verið til þess fallin að raska samkeppni á markaðnum. Stundum er inngrip ríkisins þó talið nauðsynlegt til að tryggja sanngjarnt og skilvirkt hagkerfi og ríkisaðstoð því leyfð í sumum tilfellum. Nánar má lesa um ríkisaðstoð í svari við spurningunni Hver er stefna ESB varðandi ríkisstyrki til einkafyrirtækja? Ríkisaðstoð vegna kvikmyndaframleiðslu hefur hingað til verið leyfileg innan ákveðinna marka. Á Íslandi og í hinum EFTA-ríkjunum er það ESA sem fylgist með ríkisaðstoð sem er veitt hér á landi. ESA sér meðal annars um að samþykkja breytingar sem gerðar eru á lögunum. Þær reglur sem nú eru í gildi á Íslandi um 20% endurgreiðslu vegna kvikmynda- og sjónvarpsþáttaframleiðslu eru að mati ESA í samræmi við reglur EES-samningsins og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

Eins og áður sagði eru sett viss skilyrði fyrir því að endurgreiðslan fáist og koma þau fram í 4. gr. laganna. Þar er meðal annars kveðið á um að viðkomandi framleiðsla skuli vera til þess fallin að koma menningu, sögu eða náttúru Íslands á framfæri. Einnig skal stofna sérstakt félag utan um framleiðsluna á Íslandi eða stofna útibú fyrir skráð félag á EES-svæðinu og sundurliðuð fjárhagsáætlun verður að liggja fyrir. Þá njóta auglýsingar, fréttatengt efni og stuttmyndir ekki endurgreiðslu samkvæmt lögunum.

Heimildir og mynd:

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur26.7.2013

Flokkun:

Evrópumál > ýmislegt

Tilvísun

Lena Mjöll Markusdóttir. „Er það rétt að Evrópusambandið standi í vegi fyrir 20% endurgreiðslu fyrir kvikmyndaframleiðslu?“. Evrópuvefurinn 26.7.2013. http://evropuvefur.is/svar.php?id=65497. (Skoðað 15.4.2024).

Höfundur

Lena Mjöll Markusdóttirlaganemi og verkefnastjóri á Evrópuvefnum

Við þetta svar er engin athugasemd Fela