Spurning

Feneyjanefndin

Spyrjandi

Evrópuvefur

Svar

Nefnd Evrópuráðsins um lýðræði með lögum (e. The European Commission for Democracy through Law), sem í daglegu tali er kölluð Feneyjanefndin (e. Venice Commission), er ráðgjafarnefnd Evrópuráðsins um stjórnskipunarmál.

Nefndin var stofnuð í Feneyjum árið 1990 en í kjölfar falls Berlínarmúrsins var mikil þörf á aðstoð og ráðgjöf um stjórnskipun og við stjórnarskrárgerð í ríkjum Mið- og Austur-Evrópu, sem voru í þann mund að losna undan oki Sovétríkjanna. Á síðustu tuttugu árum hefur nefndin þróast frá því að sinna nokkurs konar neyðaraðstoð við gerð stjórnarskráa í alþjóðlega viðurkennda og sjálfstæða hugveitu um lagaleg málefni.

Nefndin var upphaflega stofnuð af 18 ríkjum en árið 2002 var stofnsamningur hennar víkkaður út þannig að ríkjum utan Evrópu var gert kleift að eiga fulla aðild að nefndinni. Núverandi aðildarríki eru 58 talsins, þau eru öll 47 ríki Evrópuráðsins auk Kirgistan, Síle, Kóreu, Marokkó, Alsír, Ísrael, Perú, Brasilíu, Túnis, Mexíkó og Kasakstan.

Hvert aðildarríki skipar einn fulltrúa í nefndina, til fjögurra ára í senn. Fulltrúarnir eru sjálfstæðir í störfum sínum en þeir eru einkum sérfræðingar í stjórnskipunar- eða þjóðarétti, dómarar við hæstarétt eða stjórnlagadómstól eða þingmenn á þjóðþingum aðildarríkjanna. Núverandi fulltrúi Íslands í Feneyjanefndinni er Herdís Þorgeirsdóttir, doktor í lögum. Nefndin kemur saman til allsherjarfundar í Feneyjum fjórum sinnum á ári, í mars, júní, október og desember.

Við þetta svar er engin athugasemd Fela