Spurning

Hvert er hlutverk Feneyjanefndar Evrópuráðsins?

Spyrjandi

Ritstjórn

Svar

Feneyjanefnd hefur verið nokkuð í umræðunni að undanförnu eða frá því að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis óskaði eftir áliti nefndarinnar á frumvarpi til stjórnskipunarlaga Íslands. Meginhlutverk nefndarinnar er einmitt þetta: að veita ríkjum lögfræðilegt álit sitt á lagafrumvörpum sem eru mikilvæg fyrir lýðræðislega virkni stofnana og styrkja þar með hin sameiginlegu evrópsku gildi stjórnskipunar.

***

Markmiðið með störfum Feneyjanefndar er að styrkja í sessi þrjár meginreglur stjórnskipunararfleifðar Evrópu: lýðræði, mannréttindi og réttarríkið – sem einnig eru hornsteinar Evrópuráðsins. Verkefni nefndarinnar skiptast á fjögur svið:
  • Aðstoð við skipulag stjórnskipunar.
  • Kosningar og þjóðaratkvæði.
  • Samvinna við stjórnlagadómstóla og umboðsmenn.
  • Fjölþjóðlegar rannsóknir, skýrslur og námskeið.

Í fyrsta lagi er það meginverkefni Feneyjanefndar að veita einstökum ríkjum lögfræðilegt álit sitt á lögum sem hafa mikið gildi fyrir lýðræðislega virkni stofnana. Beiðni um álit nefndarinnar berst yfirleitt frá viðkomandi ríki sjálfu. Ráðherranefnd Evrópuráðsins, Evrópuráðsþingið og framkvæmdastjóri Evrópuráðsins, sem og hver sú alþjóðastofnun sem starfar með Feneyjanefndinni, mega þó einnig leggja fram beiðni um slíkt álit.


Frá allsherjarfundi Feneyjanefndar í desember 2012. Fundir nefndarinnar eru haldnir í Scuola Grande di San Giovanni Evangelista í Feneyjum á Ítalíu.

Þegar beiðni um álit hefur borist skipar nefndin vinnuhóp skýrslugjafa sem skulu ráðleggja stjórnvöldum umrædds lands við undirbúning viðkomandi löggjafar. Eftir viðræður við yfirvöld og hlutaðeigandi í landinu undirbýr vinnuhópurinn álitsdrög um það hvort lagatextinn uppfylli lýðræðisviðmið á sínu sviði og hvernig megi bæta textann á grundvelli sameiginlegrar reynslu. Álitsdrögin eru síðan rædd og samþykkt af Feneyjarnefndinni á allsherjarfundi, yfirleitt að viðstöddum fulltrúum viðkomandi lands. Eftir að álitið hefur verið samþykkt er það birt opinberlega og sent þeim sem óskaði eftir því.

Með álitum sínum hefur Feneyjanefndin haft aðkomu að gerð stjórnskipunarlaga fjölmargra landa einkum í Mið- og Austur-Evrópu, svo sem í Lettlandi, Rússlandi, Úkraínu, Kirgistan, Albaníu, Moldóvu og Georgíu, en segja má að nefndin hafi verið stofnuð gagngert í þeim tilgangi. Sem dæmi um nýleg álit Feneyjanefndarinnar má nefna álit á frumvarpi til laga um breytingar á skipulagi dómstóla í Ungverjalandi, en tiltekin ákvæði í umræddu lagafrumvarpi voru talin ógna sjálfstæði dómsvalda landsins (sjá Getur Evrópusambandið beitt sér gegn andlýðræðislegri þróun í aðildarríki eins og í Ungverjalandi nú?). Þá voru í vikunni birt drög að áliti Feneyjanefndar á frumvarpi til nýrra stjórnskipunarlaga Íslands.

Í öðru lagi eiga fulltrúar úr Feneyjanefnd sæti í ráði um lýðræðislegar kosningar (e. The Council for Democratic Elections, CDE) ásamt fulltrúum Evrópuráðsþingsins og nefndar svæðis- og staðaryfirvalda hjá Evrópuráðinu (e. Congress of Local and Regional Authorities of the Council of Europe). Hlutverk ráðsins er að tryggja samvinnu þeirra sem sitja í ráðinu á sviði kosninga og kosningaeftirlits í þeim tilgangi að efla sameiginleg evrópsk gildi á þessu sviði.

Í þriðja lagi starfar Feneyjanefnd með stjórnlagadómstólum og hliðstæðum stofnunum í þeim tilgangi að tryggja að þær lýðræðislegu stjórnarskrár, sem nefndin á oft aðkomu að því að móta, séu einnig framkvæmdar í raun.

Í fjórða lagi tekur nefndin þátt í fjölþjóðlegu samstarfi með það að markmiði að bæta starfsemi lýðræðislegra stofnana, efla þekkingu á réttarkerfum og auka skilning á ólíkri réttarmenningu aðildarríkja nefndarinnar. Í þessum tilgangi stendur nefndin annars vegar fyrir gerð samanburðarrannsókna á efni sem tengist virkni lýðræðisins og hins vegar hefur hún haldið sérstök námskeið (e. UniDem (University for Democracy) Seminars) í samvinnu við háskóla eða dómstóla þar sem fulltrúar nefndarinnar skiptast á skoðunum við helstu sérfræðinga stjórnmála, fræða og dómstóla.

Heimildir og mynd:

Við þetta svar er engin athugasemd Fela