Spurning

Hvað tákna stjörnurnar í fána Evrópusambandsins?

Spyrjandi

Ágúst Már Ágústsson

Svar

Á fána Evrópusambandsins eru tólf gull-litaðar stjörnur sem mynda hring á bláum fleti. Það er almennur misskilningur að stjörnurnar tákni aðildarlönd sambandsins en það er ekki rétt enda eru löndin nú 28 talsins.

***

Fáninn á að tákna sameiningu Evrópu en ekki aðeins aðildarlandanna. Hringurinn er tákn einingar og samheldni og stjörnurnar eru tólf því sú tala er stundum notuð sem tákn um fullkomnun. Fjöldi stjarnanna á því ekki að breytast eftir því sem aðildarlöndum fjölgar.

Tímatal okkar byggir nokkuð á tölunni tólf. Til dæmis er árinu skipt í tólf mánuði og á úrskífu eru tólf stundir. Lærisveinar Jesú voru tólf og töflurnar í hinum forna Rómarrétti einnig.

Sögu fánans má rekja aftur til ársins 1955 þar sem hann var upprunalega notaður af Evrópuráðinu, (e. The Council of Europe). Ráðið hvatti síðar aðrar stofnanir Evrópu til að taka upp fánann og frá árinu 1986 hafa þær, að meðtöldu Evrópusambandinu, notað hann sem tákn um sameinaða Evrópu.

Heimild og mynd:

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur 9.6.2004

Tilvísun

SHJ. „Hvað tákna stjörnurnar í fána Evrópusambandsins?“. Evrópuvefurinn 9.6.2004. http://evropuvefur.is/svar.php?id=4332. (Skoðað 13.10.2024).

Höfundur

SHJB.A.-nemi í heimspeki og stjórnmálafræði

Við þetta svar er engin athugasemd Fela