Eftirlitsmiðstöð Evrópu með lyfjum og lyfjafíkn
Spyrjandi
Evrópuvefur
Svar
Eftirlitsmiðstöð Evrópu með lyfjum og lyfjafíkn (e. European Monitoring Centre for Drugs and Drug Addiction, EMCDDA) er sjálfstæð stofnun á vegum Evrópusambandsins. Hún var stofnuð árið 1993 og hefur aðsetur í Lissabon í Portúgal. Hlutverk stofnunarinnar er að veita stefnumótendum, sérfræðingum og rannsakendum fíkniefnamála, sem og fjölmiðlum og almenningi áreiðanlegar, ítarlegar og víðtækar upplýsingar um fíkniefnamál. Eftirlitsmiðstöðin fær allar nauðsynlegar upplýsingar frá landsmiðstöðvum aðildarríkja ESB, Noregi, Tyrklandi og framkvæmdastjórn ESB í gegnum evrópskt netsamstarf um eiturlyf og fíkn (fr. Réseau Européen d´Information sur les Drogues et les Toxicomanies, REITOX). Miðstöðin hefur því aðgang að öllum tölfræðilegum staðreyndum um ávana- og fíkniefni sem haldið er til haga í Evrópusambandinu og samstarfsríkjum og er áhersla lögð á að upplýsingarnar sem þar er að finna séu uppfærðar reglulega. Eftirlitsmiðstöðin samanstendur af stjórn, vísindanefnd, aðalskrifstofu og ýmsum vinnuhópum. Stjórnin er helsti vettvangur ákvarðanatöku innan stofnunarinnar. Hún fundar minnst einu sinni á ári og samanstendur af fulltrúum frá öllum aðildarríkjum ESB, tveimur fulltrúum framkvæmdastjórnar ESB, tveimur fulltrúum Evrópuþingsins og einum fulltrúa frá hverju samstarfsríki. Formaður stjórnarinnar er kjörinn til þriggja ára í senn ásamt einum varaformanni. Vísindanefndin aðstoðar stjórnina og framkvæmdastjóra stofnunarinnar og veitir þeim ráðgefandi álit. Vísindanefndin samanstendur af fimmtán vísindamönnum í það mesta og eru þeir skipaðir úr hópi vísindamanna sem hafa faglega þekkingu og reynslu af rannsóknum á ávana- og fíkniefnum. Stjórnin skipar í vísindanefndina til þriggja ára í senn. Aðalskrifstofan samanstendur af framkvæmdastjóra og rekstrardeild. Stjórn Eftirlitsmiðstöðvarinnar skipar framkvæmdastjóra til fimm ára í senn að fenginni tillögu framkvæmdastjórnar ESB. Núverandi framkvæmdastjóri Eftirlitsmiðstöðvarinnar er Wolfgang Götz frá Þýskalandi. Rekstrardeildin hefur umsjón með daglegum rekstri stofnunarinnar. Hún undirbýr og framkvæmir starfs- og fjárhagsáætlanir hennar, framfylgir ákvörðunum stjórnarinnar og tryggir birtingu skýrslna. Vinnuhóparnir eru átta talsins og fer meginstarfsemi Eftirlitsmiðstöðvarinnar fram í þeim. Starfsemi þeirra er skipt í eftirfarandi svið:- Útbreiðsla, afleiðingar og gagnastjórnun.
- Samdráttur framboðs og nýir straumar.
- Íhlutun, bestu starfsvenjur og samstarfsaðilar.
- Stefna, mat og samhæfing.
- Reitox og alþjóðleg samvinna.
- Samskipti.
- Upplýsinga- og fjarskiptatækni.
- Fjármála- og mannauðsstjórnun.
Um þessa spurningu
Dagsetning
Útgáfudagur25.1.2013
Flokkun:
Efnisorð
Eftirlitsmiðstöð Evrópu með lyfjum og lyfjafíkn fíkniefni ávanaefni eiturlyf Lissabon tölfræði upplýsingar ESB-ríki stjórn vísindanefnd aðalskrifstofa vinnuhópar framkvæmdastjóri alþjóðlegt samstarf Ísland
Tilvísun
Evrópuvefur. „Eftirlitsmiðstöð Evrópu með lyfjum og lyfjafíkn“. Evrópuvefurinn 25.1.2013. http://evropuvefur.is/svar.php?id=64214. (Skoðað 9.9.2024).
Höfundur
Prenta
Senda
Frekara lesefni á Evrópuvefnum:
- Hver er afstaða ESB til lögleiðingar marijúana og/eða annarra kannabisefna?
- Hvað er Lyfjastofnun Evrópu og hvert er hlutverk hennar?
- Hvað eru IPA-styrkir og hverjir geta sótt um þá?
- Við höfum sótt um aðstoð við umsóknarríki, þurfum við þá ekki að fullnægja skilyrðum um aðlögun að regluverki ESB? Hvernig yrði það gert?