Spurning

Hvað eru IPA-styrkir og hverjir geta sótt um þá?

Spyrjandi

Ritstjórn

Svar

Evrópusambandið veitir ríkjum sem hafa sótt um aðild að sambandinu stuðning samkvæmt svokallaðri IPA-áætlun (e. Instrument for Pre-accession Assistance eða fjármögnunarleið við foraðildarstuðning). IPA-áætluninni var komið á fót til að styðja við umsóknarríki bæði í formi fjárhagsstuðnings og í gegnum tvíhliða samstarf sérfræðinga aðildar- og umsóknarríkja. IPA stendur öllum umsóknar- og mögulegum umsóknarríkjum til boða en allar þjóðir sem gengið hafa í sambandið síðan 2004 hafa notið stuðnings frá Evrópusambandinu. IPA-aðstoð skiptist annars vegar í fjölþegaáætlanir og landsáætlanir einstakra landa. Íslensk stjórnvöld velja þau verkefni sem eru hluti af landsáætlun Íslands og aðilum í íslenskri stjórnsýslu býðst einnig að taka þátt í fjölþegaáætlunum.

***

Eftir lok kalda stríðsins og fall járntjaldsins var fyrirséð að fjöldi ríkja sem ekki höfðu sömu reynslu af evrópsku samstarfi og þau sem fram að því höfðu gengið í sambandið mundi sækja um aðild að ESB. Lengi býr að fyrstu gerð og reynsla ESB sýndi að það gat skipt sköpum fyrir ríki að vanda vel að inngönguferlinu. Það er flókið og dýrt fyrir ríki að gera viðamiklar breytingar á stjórnsýslu sinni á skömmum tíma og því var ákveðið að veita umsóknarríkjum stuðning, bæði í formi peningastyrkja og sérfræðiþekkingar. Komið var á fót tvíhliða samstarfi þar sem aðildarríki sambandsins gátu miðlað af reynslu sinni til umsóknarríkja. Stuðningsleiðirnar voru margar en smám saman varð til þekking á því hvaða stuðningur reyndist bestur. Til að einfalda ferlið fyrir umsækjendur og auðvelda yfirsýn fyrir sambandið var ákveðið árið 2007 að allur stuðningur til umsóknarríkja yrði sameinaður undir svonefndri IPA-áætlun og að stækkunarskrifstofa ESB mundi hafa umsjón með stuðningnum.


Núverandi umsóknarríki að ESB sem njóta IPA-stuðnings eru (græn): Ísland, Júgóslavía, Serbía, Svartfjallaland og Tyrkland. Möguleg umsóknarríki eru (gul): Albanía, Bosnía og Hersegóvína og Kósóvó. Króatía (blá) hefur fengið stöðu inngöngulands og er stefnt að formlegri inngöngu hennar í ESB þann 1. júlí 2013.

Aðeins umsóknarríki og möguleg umsóknarríki geta sótt um aðstoð í gegnum IPA. Öll aðildarríki ESB eiga fulltrúa í svokallaðri stjórnarnefnd IPA sem ætlað er að tryggja að aðstoðin þjóni þeim markmiðum sem henni eru sett og sé í samræmi við stækkunarstefnu sambandsins. Fjárhagsrammi IPA (e. Multi-annual Indicative Financial Framework, MIFF) er fjölær rammaáætlun sem nær til þriggja ára í senn og allar styrkveitingar á vegum IPA þurfa að eiga sér stoð í fjárhagsrammanum. Sérstök heildaráætlun er gerð fyrir hvert umsóknarríki (e. Multi-annual Indicative Planning Document, MIPD) þar sem markmið aðstoðarinnar eru skilgreind, tilgreint hvar helsta þörfin er á aðstoð, hvar helstu áskoranir liggja auk þess sem fjallað er sérstaklega um þá málaflokka sem þykja mikilvægastir. Þessi áætlun er unnin sameiginlega af stjórnvöldum umsóknarríkisins og framkvæmdastjórn ESB.


IPA-áætlunin skiptist í fjölþegaáætlanir og landsáætlanir. Landsáætlanir eru skipulagðar þannig að hvert ríki útbýr sína áætlun og fær ákveðna peningaupphæð til að hægt sé að vinna þau verkefni sem eru í áætluninni. Fjölþegaáætlanir eru miðstýrðar áætlanir þar sem ákveðið fjármagn er merkt tilteknu verkefni sem ríkin geta sótt um að taka þátt í. Dæmi um fjölþegaáætlanir eru People to People (P2P) sem snýst um að fulltrúar borgaralegs samfélags allra umsóknarríkjanna komi saman til að ræða fyrirfram ákveðin málefni. Markmiðið er að fólk læri af reynslu hvers annars og kynnist fólki í svipuðum aðstæðum. Local Authority Facility (LAF) er fjölþegaáætlun sem svipar til P2P en þar er markhópurinn sveitastjórnarfólk. TAIEX (Technical Assistance and Information Exchange Instrument) er annað dæmi um fjölþegaáætlun en markmið hennar er að sérfræðingar á vegum aðildarríkjanna aðstoði sérfræðinga umsóknarríkjanna við að innleiða löggjöf ESB.

Íslensk stjórnvöld velja þau verkefni sem eru hluti af landsáætlun Íslands en slíka áætlun þarf að leggja fram árlega. Í samræmi við markmið heildaráætlunar fyrir Ísland ber verkefnum landsáætlunar að innihalda verkefni sem, annars vegar, stuðla að því að styrkja stjórnsýsluna til að geta betur sinnt samningaviðræðum og mögulegri aðild. Hins vegar er verkefnunum ætlað að aðstoða við undirbúning fyrir þátttöku í uppbyggingarsjóðum sambandsins. Aðstoðina má einnig nýta til að mæta skuldbindingum í tengslum við aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu og er það stefna íslenskra stjórnvalda að öll verkefni er njóta IPA-stuðnings á Íslandi séu valin með tilliti til þess að þau nýtist óháð aðild að ESB.


Gert er ráð fyrir því að Ísland fái 12 milljónir evra fyrir árið 2011 og aðra eins upphæð fyrir árið 2012. Yfirumsjón með IPA á Íslandi hefur svokallaður landstengiliður IPA (e. National IPA Coordinator, NIPAC) en hann er fulltrúi íslenskra stjórnvalda gagnvart framkvæmdastjórninni og starfar í utanríkisráðuneytinu. Ekki er hægt að sækja um IPA-styrk beint til ESB. Hafi stofnun eða félag áhuga á að athuga möguleika sína á að fá IPA-styrk þarf það að hafa samráð við skrifstofu landstengiliðs sem veitir aðstoð og upplýsingar í tengslum við alla IPA-aðstoð. Verkefni sem valin eru þurfa að uppfylla þau skilyrði sem sett hafa verið fyrir aðstoð, annars vegar af hendi ESB og hins vegar af hendi íslenskra stjórnvalda. Litið er til fjölærrar heildaráætlunar fyrir Ísland þegar mikilvægi verkefna er metið.

Dæmi um verkefni sem hljóta styrk samkvæmt landsáætlun Íslands fyrir árið 2011 eru gerð þjóðhagsreikninga hjá Hagstofu Íslands, kortlagning á vistkerfi og fuglalífi á Íslandi með það fyrir augum að auðkenna þau svæði sem þarfnast verndunar, þýðingamiðstöð utanríkisráðuneytisins fær styrk til að standa að þýðingu á regluverki ESB á íslensku og fræðslumiðstöð atvinnulífsins fær styrk til að efla starfshæfni fullorðinna með litla formlega menntun til að þróa raunfærnimat. Auk þessa fær háskólafélag Suðurlands styrk til að vinna að verkefninu Katla Jarðvangur sem felur meðal annars í sér þróunaráætlun fyrir Eyjafjallajökulssvæðið og uppbyggingu á þekkingarsetri um svæðið.

Heimildir og myndir:

Við þetta svar er engin athugasemd Fela