Spurning

Fastanefnd EFTA

Spyrjandi

Evrópuvefur

Svar

Fastanefnd EFTA (e. Standing Committee of the EFTA States) er skipuð sendiherrum EFTA/EES-ríkjanna og er vettvangur pólitískrar umræðu þeirra á milli. Nefndin starfar á grundvelli sérstaks samnings milli EFTA-ríkjanna, en helsta hlutverk hennar er að samræma afstöðu EFTA/EES-ríkjanna gagnvart Evrópusambandinu fyrir fundi með fulltrúum ESB í sameiginlegu EES-nefndinni. Fastanefndin fundar að jafnaði sjö til átta sinnum á ári og eru ákvarðanir að meginreglu teknar samhljóða.

Fastanefndin starfar náið með EFTA-skrifstofunni í Brussel (e. EFTA Secretariat) en skrifstofan gegnir mikilvægu hlutverki við miðlun upplýsinga um þróun mála á vettvangi Evrópusambandsins til EFTA/EES-ríkjanna.

Fimm undirnefndir eru fastanefndinni til aðstoðar. Þær undirbúa þau mál sem fara til afgreiðslu hjá fastanefndinni og eru síðan borin á borð hjá sameiginlegu EES-nefndinni. Undirnefndirnar fimm eru skipaðar fulltrúum utanríkisráðuneyta EFTA/EES-ríkjanna. Fyrsta undirnefndin fjallar um mál á sviði frjáls vöruflæðis, önnur undirnefnd um frjálst flæði fjármagns og þjónustu, þriðja nefndin um frjálsa för fólks, fjórða nefndin um þverfagleg málefni og samstarfsverkefni og fimmta nefndin fjallar um laga- og stofnanaleg mál.

Vert er að taka fram að undirnefndirnar fimm funda annars vegar sem undirnefndir fastanefndar EFTA líkt og greint er frá hér að ofan og hins vegar sem undirnefndir sameiginlegu EES-nefndarinnar og þá með fulltrúum framkvæmdastjórnar ESB.

37 vinnuhópar eru undirnefndunum til aðstoðar en þá skipa sérfræðingar fagráðuneyta eða undirstofnana þeirra á hinum ýmsu sviðum er varða EES-samninginn. Vinnuhóparnir hittast eftir því sem þörf er á til að ræða lagatillögur og gerðir á sínu sviði og undirbúa ákvarðanir sem fara fyrir viðkomandi undirnefnd.

Ísland gegndi formennsku fastanefndar EFTA frá byrjun árs 2012 og fram til loka júní. Ísland lagði áherslu á að fylgja eftir markmiðum Evrópu 2020 áætlunar ESB og þeim tillögum sem settar voru fram undir formerkjum hennar.

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur26.10.2012

Tilvísun

Evrópuvefur. „Fastanefnd EFTA“. Evrópuvefurinn 26.10.2012. http://evropuvefur.is/svar.php?id=63524. (Skoðað 20.7.2024).

Höfundur

Evrópuvefur

Við þetta svar er engin athugasemd Fela