Spurning

Þarf að vera nákvæm innihaldslýsing á efnum í vefnaðarvöru sem seld er á EES-svæðinu? Ef já, hversu nákvæm þarf hún að vera?

Spyrjandi

Kata Jónsdóttir

Svar

Á Íslandi gilda sömu reglur og í Evrópusambandinu um innihaldslýsingu vefnaðarvara. Þær kveða meðal annars á um hvaða vefnaðarvara megi bera hvaða heiti, í hvaða röð textíltrefjar skuli taldar upp og hvenær þurfi að taka fram upplýsingar um hlutfall tiltekinna trefja miðað við þyngd vöru. – Tilgangur reglnanna er að bæta möguleikana til samkeppni á innri markaðinum.

***

Á grundvelli samningsins um Evrópska efnahagssvæðið var tilskipun Evrópusambandsins um textílheiti (nr. 2008/121/EB) innleidd í íslensk lög með reglugerð um heiti og merkingu textílvara (nr. 295/2010). Skilyrði fyrir markaðssetningu textílvara á öllu Evrópska efnahagssvæðinu, meðan á vinnslu stendur eða áður en hún hefst og á öllum stigum dreifingar, er að þær uppfylli þessar reglur.

Í tilskipuninni um textílheiti er að finna skilgreiningu á því hvað textílvörur eru og ítarlegan viðauka þar sem talið er upp úr hvers konar textíltrefjum vefnaðarvara þarf að vera til að bera tiltekin heiti, svo sem ull, silki eða baðmull. Þá er kveðið á um að textílvörur skuli fá merkimiða eða aðra merkingu hvenær sem þær eru settar á markað í framleiðslu- eða dreifingarferlinu. Þegar textílvörur eru boðnar til sölu eða seldar neytendum verður að gefa heiti, lýsingu og upplýsingar varðandi trefjainnihald til kynna með greinilegu og samræmdu prentletri. Þetta á einkum við um verðlista, auglýsingabæklinga, umbúðir, vörumiða og merkingar.


Samræmdar reglur gilda á öllu Evrópska efnahagssvæðinu um hvernig skal merkja vefnaðarvörur.

Um merkingar textílvara segir meðal annars að óheimilt sé að lýsa textílvöru sem „100%“, „hreinni“ eða „al-“ eða nota aðrar áþekkar táknanir nema hún sé einvörðungu samsett úr trefjum sömu tegundar. Þó er heimilt að textílvara innihaldi aðrar trefjar allt að 2% af þyngd svo fremi tæknilegar orsakir liggi að baki og að þeim sé ekki bætt við kerfisbundið.

Textílvörur sem eru samsettar úr tveimur eða fleiri tegundum trefja, þar sem ein tegundin er að minnsta kosti 85% af heildarþyngd, skal merkja:
  • með heiti þeirrar trefjategundar ásamt hundraðshluta hennar miðað við þyngd,
  • með heiti þeirrar trefjategundar og orðunum „minnst 85%“, eða
  • með hundraðshlutum allra efna sem varan er samsett úr.

Textílvara, sem samsett er úr tveimur trefjum eða fleiri, þar sem engin trefjategund nær 85% af heildarþyngd, skal merkja:
  • með heiti og hundraðshluta tveggja helstu trefjanna miðað við þyngd
  • ásamt heitum annarra trefjaefnisþátta í réttri röð eftir þyngd, með eða án upplýsinga um hundraðshluta miðað við þyngd.

Þetta eru meginákvæðin um innihaldslýsingar vefnaðarvara í tilskipun Evrópusambandsins um textílheiti. Allar nánari upplýsingar er að finna í tilskipuninni sjálfri.

Tilgangurinn með samræmdum reglum um heiti á textíltrefjum og upplýsingar á vörumiðum var að ryðja úr vegi hindrunum á aðgengi framleiðanda í einu aðildarríki að mörkuðum annarra aðildarríkja. Ólíkar reglur ríkjanna um heiti, samsetningu og merkingar textílvara voru dæmi um það sem kallað er tæknilegar viðskiptahindranir og voru lengi taldar standa sameiginlegum markaði Evrópusambandsríkjanna fyrir þrifum. Gerð var gangskör að því að útrýma slíkum hindrunum með samþykkt einingarlaga Evrópu árið 1986. Þau innihéldu tímaáætlun um stofnun innri markaðar Evrópusambandsins sem fól í sér að samþykktur var fjöldinn allur af tilskipunum til samræmingar á reglum aðildarríkjanna, þeirra á meðal svonefndar nýaðferðartilskipanir. Með samningnum um Evrópska efnahagssvæðið fengu EFTA/EES-ríkin aðild að innri markaðinum gegn því að innleiða þessar sömu tilskipanir í sín landslög.

Mynd:

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur 2.11.2012

Tilvísun

Þórhildur Hagalín. „Þarf að vera nákvæm innihaldslýsing á efnum í vefnaðarvöru sem seld er á EES-svæðinu? Ef já, hversu nákvæm þarf hún að vera?“. Evrópuvefurinn 2.11.2012. http://evropuvefur.is/svar.php?id=63437. (Skoðað 12.10.2024).

Höfundur

Þórhildur HagalínEvrópufræðingur og fyrrverandi ritstjóri Evrópuvefsins

Við þetta svar er engin athugasemd Fela