Spurning

Munu vísindamenn á Íslandi fá fleiri styrki eða frekari aðgang að sjóðum ESB ef Ísland gerist fullgildur aðili að ESB?

Spyrjandi

Valtýr Sigurðsson

Svar

Stutta svarið við þessari spurningu er nei. Íslenskir vísindamenn hafa fullan aðgang að rannsókna- og nýsköpunarsjóðum Evrópusambandsins, til jafns við aðildarríki ESB, í gegnum EES-samninginn. Sjóðirnir, sem heyra undir 7. rannsóknaráætlun Evrópusambandsins og samkeppnis- og nýsköpunaráætlunina, eru svonefndir samkeppnissjóðir. Það þýðir að umsóknir um styrki eru metnar eftir gæðum óháð því frá hvaða þátttökulöndum umsækjendur koma. Hversu margir styrkir koma í hlut íslenskra vísindamanna veltur því aðeins á gæðum umsókna þeirra í samanburði við umsóknir vísindamanna frá öðrum löndum.


Vísindamenn við Háskóla Íslands.

Aðild að Evrópusambandinu mundi ekki breyta þessu þar sem jafn aðgangur Íslendinga að styrkjum úr sjóðum á sviði vísinda og nýsköpunar, sem og menntunar, menningar- og æskulýðsstarfs, er tryggður með EES-samningnum. Það sem á hinn bóginn mundi breytast við inngöngu í ESB er að Íslendingar fengju aukinn aðgang að stefnumótun og ákvarðanatökum innan áætlananna, svo sem varðandi markmið, tegundir forgangsverkefna og fjárveitingu.

Yfirlit um styrkjakerfi Evrópusambandsins er að finna í svari við spurningunni Getið þið útskýrt styrkjakerfi ESB í stuttu máli?

Mynd

Upprunaleg spurning:

Munu vísindamenn á Íslandi fá fleiri styrki eða frekari aðgang að sjóðum ESB ef Ísland gerist fullgildur aðili að ESB eða hafa þeir nú þegar fullan aðgang í gegnum EES-samninginn?
Við þetta svar er engin athugasemd Fela