Spurning

Hver er stefna ESB gagnvart jafnrétti kynjanna?

Spyrjandi

Egill Almar Ágústsson

Svar

Meginreglan um jafna meðferð kvenna og karla hefur verið ein af grundvallarreglum Evrópusambandsins allt frá stofnun þess og nær aftur til ársins 1957 þegar reglan um sömu laun fyrir sömu vinnu varð hluti af Rómarsáttmálanum. Reglunni var þó ekki beitt fyrr en á áttunda áratugnum þegar ákvæðið um sömu laun fyrir sömu vinnu var staðfest fyrir dómstól Evrópusambandsins í svokölluðu Defrenne-máli II (mál 43/75). Í kjölfarið var tilskipun (nr. 75/117) um launajafnrétti kynjanna samþykkt og var hún fyrsta tilskipunin sem sett var fram af Evrópusambandinu til að auka jafnrétti kynjanna. Síðan þá hefur Evrópusambandið beitt sér með ýmsum hætti til að jafna stöðu kvenna og karla meðal annars með því að setja frekari löggjöf um jafnan rétt, samþætta kynja- og jafnréttissjónarmið og beita sérstökum aðgerðum til að stuðla að framgöngu kvenna.

***

Jafnrétti er eitt af þeim sex gildum sem liggja til grundvallar Evrópusambandinu og kveðið er á um í 2. og 3. gr. sáttmálans um Evrópusambandið. Sambandið hefur jafnframt skuldbundið sig til að jafna stöðu kvenna og karla í allri sinni starfsemi og koma í veg fyrir ójöfnuð (8. og 10. gr. sáttmálans um starfshætti ESB). Jafnrétti kynjanna er einnig tryggt í 23. gr. sáttmála Evrópusambandsins um grundvallarréttindi þar sem segir „jafnrétti skal tryggt á öllum sviðum, þ.m.t. að því er varðar atvinnu, störf og laun. Jafnræðisreglan skal ekki hindra viðhald eða samþykkt ráðstafana sem eru til sérstakra hagsbóta því kyninu sem er í minnihluta“.


Lýsandi mynd af kynjamisrétti, einkum í tengslum við stöðu kvenna á almennum vinnumarkaði.

Evrópusambandið hefur þar að auki samþykkt 15 tilskipanir sem eiga að stuðla að jafnrétti kynjanna. Tilskipanirnar eru bindandi fyrir aðildarríkin sem þýðir að þeim er skylt að taka þær upp í sinn landsrétt. Tilskipanirnar spanna vítt svið allt frá lögum sem tryggja jafna meðferð karla og kvenna á vinnustöðum, félagslegt öryggi, lágmarkskröfur um fæðingarorlof, vernd barnshafandi kvenna og nýbakaðra mæðra svo eitthvað sé nefnt. Yfirlit yfir tilskipanirnar er að finna í íslenskri þýðingu á vefsíðu Jafnréttisstofu.

Tilskipanir eru einungis bindandi að markmiðum sínum og veita aðildarríkjum sambandsins því töluvert svigrúm við innleiðingu þeirra, svo sem varðandi lengd fæðingarorlofs, greiðslur í fæðingarorlofi og sérstakan orlofsrétt feðra. Í reynd er því staða jafnréttis kynjanna mjög mismunandi í aðildarríkjunum. Launamunur kynjanna mælist til að mynda 4,9% á Ítalíu, 8,5% í Slóveníu, 9% í Belgíu og Rúmeníu en 23,2% í Þýskalandi, 25,5% í Austurríki, 26,2% í Tékklandi og 30,9% í Eistlandi.

Á grundvelli tilskipunar ráðsins (nr. 2000/43) um beitingu meginreglunnar um jafnrétti án tillits til kynþáttar eða þjóðernisuppruna hafa aðildarríkin komið á fót landsbundnum jafnréttisstofnunum sem hafa eftirlit með að farið sé eftir jafnréttislögum í aðildarríkjunum. Einstaklingar sem telja að brotið hafi verið á sér geta fengið aðstoð hjá þessum stofnunum sem veita faglega ráðgjöf og hjálp við undirbúning að málsóknum. Í kjölfarið geta þeir leitað réttar síns fyrir dómstólum viðkomandi ríkis.

Í mars árið 2010, í tilefni þess að 15 ár voru liðin frá því að yfirlýsing og aðgerðaráætlun um málefni kvenna voru samþykktar á heimsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Peking og 30 ár voru liðin frá því að samningur um afnám allrar mismununar gagnvart konum var samþykktur af allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna, gaf framkvæmdastjórn Evrópusambandsins út sérstakan kvennasáttmála (e. A Women´s Charter). Í kvennasáttmálanum er að finna þau forgangsmál sem Evrópusambandið leggur áherslu á í baráttu sinni fyrir auknu kynjajafnrétti en jafnframt var ákveðið að koma á fót áætlun til framkvæmdar kvennasáttmálanum.

Framkvæmdaáætlun ESB um kynjajafnrétti (e. Strategy for equality between women and men) fyrir tímabilið 2010-2015 skuldbindur framkvæmdastjórnina til að koma kynjajafnrétti að í öllum stefnumálum sambandsins með það að markmiði að stuðla að:
  • Efnahagslegu sjálfstæði kvenna og karla.
  • Sömu launum fyrir sömu störf og jafn verðmæt störf.
  • Jafnrétti við ákvarðanatöku.
  • Reisn, ráðvendni og afnám kynbundins ofbeldis.
  • Kynjajafnrétti í utanríkistengslum.

Framkvæmdaáætlunin byggir á reynslu af vinnuáætlun ESB í jafnréttismálum fyrir árin 2006-2010 (e. Roadmap for equality between women and men). Í áætluninni er lögð áhersla á þátt kynjajafnréttis í efnahagslegum vexti og sjálfbærri þróun sem styður jafnframt við framkvæmd áætlunarinnar Evrópa 2020. Á vefsíðu Jafnréttisstofu er að finna frekari sundurliðun á forgangsmálum framkvæmdaáætlunarinnar. Framkvæmdastjórn ESB gefur út árlegar framvinduskýrslur sem bera saman árangurinn í jafnréttismálum miðað við gildandi framkvæmdaáætlun.

Jafnrétti við ákvarðanatöku er eitt forgangsmála ESB en skortur á jafnrétti við ákvarðanatöku er einn stærsti vandi sambandsins. Framfarir á því sviði eru mjög hægar en meðaltalshlutfall kvenna í stjórnunarstöðum fyrirtækja í aðildarríkjum ESB hækkaði úr 11,8% árið 2010 í tæp 14% árið 2012. Árið 2011 hvatti Viviane Reding, framkvæmdastjóri jafnréttis- og réttindamála sambandsins, framkvæmdastjóra og stjórnarformenn evrópskra fyrirtækja til að skuldbinda sig til að ná því markmiði að 30% af stjórnendum fyrirtækja þeirra yrðu konur árið 2015 og 40% árið 2020. Ári síðar, hafa einungis 24 fyrirtæki skrifað undir áheitin sem sýnir meðal annars tregðu fyrirtækja til að minnka kynjamisréttið á þessu sviði. Reding hefur í kjölfarið tilkynnt að hún muni leggja fram frumvarp um kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja á Evrópuþinginu á næstunni.


Viviane Reding, framkvæmdastjóri jafnréttis- og réttindamála ESB.

Í tengslum sínum við þriðju ríki og á vettvangi alþjóðastofnana, eins og Evrópuráðsins og Sameinuðu þjóðanna, hefur Evrópusambandið beitt sér til að vekja athygli á mikilvægi kynjajafnréttis á heimsvísu. Til að mynda fer sambandið fram á að á samráðsfundum við þriðju ríki, þar sem pólitísk skoðanaskipti eiga sér stað, sé einnig rætt um stöðu kvenna í viðkomandi ríki og mikilvægi þess að unnið sé að því að aukna jafnrétti kynjanna.

Í sendiskrifstofum Evrópusambandsins, sem eru starfræktar um allan heim, starfa jafnréttisfulltrúar og allir útsendir starfsmenn á vegum ESB eiga að hljóta þjálfun í jafnréttismálum áður en þeir eru sendir til starfa erlendis. Sífellt fleiri konur eru jafnframt ráðnar til starfa við mannúðaraðstoð, björgunar- og friðargæsluaðgerðir, friðarumleitanir og áhættustjórnun á vegum utanríkisþjónustu ESB þar sem konur eru taldar líklegri til að ná til kvenna sem hafa orðið fyrir ofbeldi á stríðstímum og vekja athygli á stöðu kvenna í málamiðlunum.

Evrópusambandið hefur einnig beitt sérstökum aðgerðum til að auka vitund almennings um kynjajafnrétti til dæmis með birtingu auglýsinga og myndbanda um kynbundinn launamun eða til að hvetja fyrirtæki og konur til að auka fyrirsvar kvenna í stjórnunarstöðum. Á vefsetri framkvæmdastjórnarinnar má til að mynda finna myndband sem er hluti af átaki gegn kynbundnum launamun.

Einstakar aðgerðir framkvæmdastjórnarinnar hafa þó sætt gagnrýni fyrir að missa marks. Sem dæmi má nefna myndband sem var ætlað að hvetja ungar stúlkur til að gerast vísindamenn og var hluti af átaki sambandsins til að auka fyrirsvar kvenna í vísinda- og tæknigeiranum. Myndbandið, sem var birt í lok júní síðastliðnum, hlaut hörð viðbrögð áhorfenda fyrir að sviðsetja grófa staðalímynd kvenna þar sem ungar, farðaðar fyrirsætur, klæddar stuttpilsum og háhæluðum skóm voru látnar leika hlutverk ungra vísindamanna. Framkvæmdastjórnin ákvað í kjölfarið að fjarlægja myndbandið af heimasíðu verkefnisins en það er ennþá aðgengilegt á YouTube.

Ísland hefur skuldbundið sig með EES-samningnum til að taka upp tilskipanir ESB varðandi jafnréttismál og hafa 13 af 15 jafnréttistilskipunum Evrópusambandsins þegar verið innleiddar í íslensk lög. Innleiðing tilskipunar (nr. 2000/43) um beitingu meginreglunnar um jafna meðferð manna án tillits til kynþáttar og þjóðernis og tilskipunar (nr. 2000/78) um beitingu meginreglunnar um jafna meðferð á vinnumarkaði og í atvinnulífinu hefur verið til skoðunar hér á landi undanfarin ár.

Á heimasíðu Jafnréttisstofu er að finna upplýsingar um þær samstarfsáætlanir og sjóði Evrópusambandsins sem meðal annars er ætlað að styrkja verkefni sem snúa að jafnrétti kynjanna. Sem aðili að EES-samningnum tekur Ísland þátt í og hefur aðgang að þeim.

Heimildir og mynd:Þetta svar er að hluta til unnið úr pistlum um ESB og jafnrétti kynjanna sem eru aðgengilegir á vefsíðu Jafnréttisstofu og birt hér með góðfúslegu leyfi vefsetursins.

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur28.9.2012

Tilvísun

Brynhildur Ingimarsdóttir. „Hver er stefna ESB gagnvart jafnrétti kynjanna?“. Evrópuvefurinn 28.9.2012. http://evropuvefur.is/svar.php?id=60259. (Skoðað 15.4.2024).

Höfundur

Brynhildur Ingimarsdóttiralþjóðastjórnmálafræðingur og fyrrverandi verkefnastjóri á Evrópuvefnum

Við þetta svar er engin athugasemd Fela