Spurning
Landamærastofnun Evrópu
Spyrjandi
Evrópuvefur
Svar
Landamærastofnun Evrópu (e. European Agency for the Management of Operational Cooperation at the External Borders of the Member States of the European Union), einkum þekkt undir nafninu FRONTEX (fr. frontières extérieures), var stofnuð árið 2004 með reglugerð ráðsins nr. 2007/2004. Hún hóf starfsemi árið 2005 og hefur aðsetur í Varsjá í Póllandi. Meginhlutverk Landamærastofnunar Evrópu er að auðvelda landamæraeftirlit (sem er í höndum ríkja) með því að stýra og samræma samstarf Schengen-ríkjanna við landamæravörslu. Markmiðið er að efla öryggi og varnir ytri landamæra Schengen-svæðisins. Helstu verkefni stofnunarinnar eru að samhæfa samvinnu evrópskra landamæravarða og aðstoða við þjálfun þeirra, framkvæma áhættugreiningu, taka þátt í rannsóknum á sviði landamæragæslu, aðstoða aðildarríki þegar ólöglegir innflytjendur eru sendir á brott og þróa og reka upplýsingakerfi sem miðlar upplýsingum til og milli aðildarríkjanna um ástand ytri landamæra Schengen-svæðisins. Árið 2007 var viðbragðsteymi landamæravarða (e. Rapid Borders Intervention Teams, RABITs) komið á fót. Hægt er að kalla það til við mikla fjölgun innflytjenda við landamæri aðildarríkjanna Landamærastofnun Evrópu starfar náið með öðrum evrópskum stofnunum á borð við Evrópulögregluna, stofnunina um aðstoð við hælisleitendur (e. European Asylum Support Office, EASO), Evrópsku réttaraðstoðina (e. European Union´s Judicial Cooperation Unit, EUROJUST), Evrópustofnun grundvallarmannréttinda og evrópska lögregluskólann (fr. Collège Européen de Police, CEPOL). Saman vinna þessar stofnanir að því að mynda svokallað svæði frelsis, réttlætis og öryggis (e. area of freedom, security and justice, AFSJ). Forstjóri Landamærastofnunarinnar er Ilkka Laitinen frá Finnlandi. Hann hefur gegnt starfinu frá 2005.Um þessa spurningu
Dagsetning
Útgáfudagur 1.11.2013
Flokkun:
Efnisorð
Landamærastofnun Frontex Schengen landamæraverðir rannsóknir áhættugreining innflytjendur upplýsingakerfi landamæri RABITs EASO Eurojust Cepol
Tilvísun
Evrópuvefur. „Landamærastofnun Evrópu“. Evrópuvefurinn 1.11.2013. http://evropuvefur.is/svar.php?id=66202. (Skoðað 6.12.2024).
Höfundur
Prenta
Senda
Frekara lesefni á Evrópuvefnum:
Við þetta svar er engin athugasemd
Fela