Spurning

Evrópustofnun grundvallarmannréttinda

Spyrjandi

Evrópuvefur

Svar

Evrópustofnun grundvallarmannréttinda (e. European Union Agency for Fundamental Rights, FRA) er ein af sérstofnunum Evrópusambandsins. Henni var komið á fót árið 2007 með ákvörðun ráðsins nr. 168/2007 og hefur aðsetur í Vín í Austurríki. Meginhlutverk stofnunarinnar er að sjá til þess að grundvallarréttindi einstaklinga séu tryggð í Evrópusambandinu.

Stofnuninni var komið á fót til að veita helstu stofnunum ESB og aðildarríkjum þess ráðgjöf og sérfræðiálit um grundvallarmannréttindi við framkvæmd reglna og laga sambandsins og getur hún því einungis unnið að málum sem heyra undir verkahring Evrópusambandsins. Þau mál sem stofnunin fjallar hvað mest um varða mismunun, aðgang að réttlátri málsmeðferð, kynþáttafordóma og útlendingahatur, gagnavernd, réttindi fórnarlamba glæpa og réttindi barna.

Helstu verkefni stofnunarinnar eru að:
  • Safna saman og greina upplýsingar og gögn frá aðildarríkjum sambandsins sem varða grundvallarmannréttindi.
  • Veita stofnunum ESB og aðildarríkjum þess aðstoð og sérfræðiálit um grundvallarmannréttindi.
  • Miðla upplýsingum og vekja athygli á grundvallarmannréttindum.

Stofnunin starfar í nánum tengslum við framkvæmdastjórn ESB, Evrópuþingið og ráðið; aðrar alþjóðastofnanir eins og Evrópuráðið, Sameinuðu þjóðirnar og Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu; ríkisstjórnir, frjáls félagasamtök, menntastofnanir og innlendar jafnréttis- og mannréttindastofnanir.

Evrópustofnun grundvallarmannréttinda samanstendur af stjórn, framkvæmdastjórn, vísindanefnd, skrifstofu og deildum.

Í stjórninni eru 28 óháðir sérfræðingar sem aðildarríkin skipa, 2 sem framkvæmdastjórnin skipar og 1 sem kemur frá Evrópuráðinu. Stjórnin skilgreinir áherslur stofnunarinnar hverju sinni, samþykkir fjárhagsáætlun og hefur eftirlit með verkefnum hennar.

Framkvæmdastjórnin samanstendur af formanni og varaformanni stjórnarinnar, tveimur öðrum sérfræðingum hennar og einum af þeim sérfræðingum sem skipaðir eru af framkvæmdastjórninni. Hún undirbýr ákvarðanir stjórnarinnar og veitir framkvæmdastjóra stofnunarinnar ráðgjöf.

Vísindanefndin samanstendur af 11 hæfum og sérmenntuðum óháðum einstaklingum sem eiga að tryggja vísindaleg störf stofnunarinnar.

Skrifstofan heldur utan um alla starfsemi stofnunarinnar. Hún starfar í þágu stjórnarinnar og lýtur stjórn framkvæmdastjórans. Núverandi framkvæmdastjóri Evrópustofnunar grundvallarmannréttinda er Morten Kjaerum frá Danmörku.

Fimm deildir starfa innan stofnunarinnar og er starfsemi þeirra skipt í svið frelsis og réttlætis, jafnréttis og borgaralegra réttinda, samskiptasvið, stjórnsýslusvið og mannauðs- og skipulagssvið.

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur27.9.2013

Tilvísun

Evrópuvefur. „Evrópustofnun grundvallarmannréttinda“. Evrópuvefurinn 27.9.2013. http://evropuvefur.is/svar.php?id=65952. (Skoðað 19.4.2024).

Höfundur

Evrópuvefur

Við þetta svar er engin athugasemd Fela