Spurning

Hver er viðbótarkostnaður ESB-ríkjanna þegar þau fara með formennsku í ráðinu?

Spyrjandi

Jóhannes Finnur Halldórsson

Svar

Aðildarríki Evrópusambandsins skiptast á að fara með formennsku í ráðinu á hálfs árs fresti. Formennska í ráðinu er nánar skilgreind í svari við spurningunni Hvað felst í því að fara með formennsku í ráðinu?

Aðildarríkin ákveða sjálf hversu miklum fjármunum þau eyða í sinni formennskutíð. Kostnaðurinn er því breytilegur eftir ríkjum. Formennska Þýskalands í ráðinu á fyrri helmingi ársins 2007 er talin hafa verið sú dýrasta fram til þessa en kostnaðurinn við hana nam 180 milljónum evra eða tæplega 30 milljörðum íslenskra króna á genginu 164. Formennska Danmörku á fyrri hluta ársins 2012 kostaði til samanburðar 35 milljónir evra eða tæplega 6 milljarða íslenskra króna á núverandi gengi og er talin með þeim ódýrustu fram til þess tíma.


Frakkland fór með formennsku í ráðinu á síðari hluta árs 2008 og nam kostnaðurinn við hana 171 milljón evra. Liður í auglýsingaherferð landsins var að upplýsa Eiffel-turninn í París með bláum ljósaperum og stjörnunum tólf sem eru tákn um sameinaða Evrópu.

Hvert aðildarríki gerir áætlun um hversu miklu það hyggst eyða á formennskutímabili sínu og ber allan kostnaðinn af formennskunni. Það nýtur þó oftar en ekki fjárstuðnings frá innlendum fyrirtækjum og öðrum styrktaraðilum.

Fjármagninu er einkum varið í fundahöld og skipulagningu ráðstefnuhalds á vegum ráðsins, í að tryggja öryggi við slíkar samkomur, túlkun, gistingu, þjálfun og laun embættismanna sem ráðnir eru til að veita nauðsynlega þjónustu á meðan formennskunni stendur. Formennskuríkið ákveður svo hvort og þá hversu miklu það vilji eyða í annað sem viðkemur formennskunni. Ef formennskuríkið vill til að mynda bjóða fundargestum upp á sódavatn verður það að greiða þann kostnað. Hið sama gildir um skreytingar á húsakynnum ráðsins, kaup á gjöfum, auglýsingaherferðir, upplýsingagjöf, hátíðarhöld og svo má lengi telja.

Í eftirfarandi töflu eru teknar saman upplýsingar um kostnað tiltekinna aðildarríkja ESB við að fara með formennsku í ráðinu síðan árið 2007, þegar niðurröðun formennskuríkjanna í ráðinu fram til ársins 2020 var ákveðin.

Ártal Misseri Formennskuríki Kostnaður (í milljónum evra)
2013 Haustmisseri Litháen 62 (áætlaður kostnaður)
Vormisseri Írland 60
2012 Haustmisseri Kýpur 46
Vormisseri Danmörk 35
2011 Haustmisseri Pólland 115
Vormisseri Ungverjaland 85
2010 Haustmisseri Belgía 59
Vormisseri Spánn 55
2009 Haustmisseri Svíþjóð 90
Vormisseri Tékkland 124,5
2008 Haustmisseri Frakkland 171
Vormisseri Slóvenía 62
2007 Haustmisseri Portúgal 67
Vormisseri Þýskaland 180

Heimildir og mynd:

Upprunalega spurningin hljóðaði svona:
Hver er viðbótarkostnaður þess ríkis innan ESB, af því að sinna æðstu formennsku ESB í þá sex mánuði sem þjóðirnar sinna þeirri forystu í hvert skipti?

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur11.10.2013

Tilvísun

Brynhildur Ingimarsdóttir. „Hver er viðbótarkostnaður ESB-ríkjanna þegar þau fara með formennsku í ráðinu?“. Evrópuvefurinn 11.10.2013. http://evropuvefur.is/svar.php?id=65936. (Skoðað 19.6.2024).

Höfundur

Brynhildur Ingimarsdóttiralþjóðastjórnmálafræðingur og fyrrverandi verkefnastjóri á Evrópuvefnum

Við þetta svar er engin athugasemd Fela