Spurning

Viðskiptastefnunefnd ESB

Spyrjandi

Evrópuvefur

Svar

Viðskiptastefnunefnd ESB (e. Trade Policy Committee) heyrir undir ráðið og í henni sitja fulltrúar allra aðildarríkjanna og framkvæmdastjórnarinnar. Hlutverk nefndarinnar er meðal annars að aðstoða framkvæmdastjórn sambandsins í fríverslunarviðræðum við önnur ríki eða ríkjahópa utan sambandsins, innan þess ramma sem ráðið setur henni. Framkvæmdastjórninni er skylt að upplýsa nefndina reglulega um gang mála í öllum samningaviðræðum. Nefndin ræðir málefni viðskiptastefnunnar og er vettvangur fyrir aðildarríkin til að koma hagsmunum sínum og sjónarmiðum á framfæri.

Síðustu ár hefur nefndin fundað vikulega í Brussel. Einu sinni í mánuði fundar nefndin með háttsettum embættismönnum. Nefndin ræðir öll málefni viðskiptastefnunnar, meðal annars undirbúning og skipulag funda í tengslum við Doha-lotuna innan Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (e. World Trade Organization), vandkvæði varðandi útflutning á einstökum vörum, og hugar að viðskiptahliðum annarra stefna sambandsins til að tryggja samræmi. Undir nefndina heyra einnig sérfræðihópar, til dæmis á sviði þjónustuviðskipta og fjárfestinga.
Við þetta svar er engin athugasemd Fela