Spurning

Hvað eru mörg konungdæmi í Evrópu?

Spyrjandi

N.N.

Svar

Í Evrópu eru 12 konungdæmi. Þau eru Andorra, Belgía, Bretland, Danmörk, Holland, Liechtenstein, Lúxemborg, Mónakó, Noregur, Spánn, Svíþjóð og Vatíkanið. Í flestum löndunum ber þjóðhöfðinginn titilinn konungur eða drottning, í Lúxemborg nefnist hann stórhertogi, fursti í Mónakó, Liechtenstein og Andorra og svo páfi í Vatíkaninu.

Tíu þessara konungdæma eru ríki þar sem embætti þjóðhöfðingja gengur í erfðir. Í Vatíkaninu er þjóðhöfðinginn páfi sem er kjörinn af kardínálum kaþólsku kirkjunnar. Í Andorra eru tveir furstar sem saman gegna hlutverki þjóðhöfðingja; forseti Frakklands og spænski biskupinn af Urgel sem er skipaður af páfanum.


Landakort af Evrópu. Bláu löndin á kortinu eru lýðveldi en þau rauðu konungdæmi.

Flest þessara ríkja hafa þingbundna konungsstjórn þar sem forsætisráðherra er höfuð framkvæmdavaldsins og leiðtogi löggjafarvaldsins en þjóðhöfðinginn beitir einungis táknrænu valdi sínu með samþykki ríkisstjórnarinnar. Í Liechtenstein og Mónakó er hálfþingbundin konungsstjórn þar sem forsætisráðherra er höfuð framkvæmdavaldsins en þjóðhöfðinginn hefur töluverð pólitísk völd sem hann getur beitt að eigin frumkvæði. Vatíkanið er einveldi og þjóðhöfðinginn er höfuð framkvæmdavaldsins og fer með öll völd.

Sjö þessara konungdæma eru aðilar að Evrópusambandinu: Belgía, Bretland, Danmörk, Holland, Lúxemborg, Spánn og Svíþjóð. Fjögur þeirra hafa einnig tekið upp evru, það eru Beneluxlöndin og Spánn.

Í upphafi tuttugustu aldar voru einungis Frakkland, Sviss og San Marínó lýðveldi með þingræðislegt stjórnarfar í Evrópu. Útbreiðsla lýðveldisstjórnarfars hófst ekki fyrr en á fyrri hluta tuttugustu aldar þegar fjölmörgum konungum var steypt af stóli í kjölfar stríðsátaka eða byltinga. Í upphafi tuttugustu og fyrstu aldar er því meirihluti Evrópuríkja lýðveldi þar sem æðsti leiðtogi ríkisins er þjóðkjörinn með beinum eða óbeinum hætti.

Heimildir og mynd:

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur26.7.2013

Flokkun:

Evrópumál > ýmislegt

Tilvísun

Brynhildur Ingimarsdóttir. „Hvað eru mörg konungdæmi í Evrópu?“. Evrópuvefurinn 26.7.2013. http://evropuvefur.is/svar.php?id=65611. (Skoðað 6.12.2024).

Höfundur

Brynhildur Ingimarsdóttiralþjóðastjórnmálafræðingur og fyrrverandi verkefnastjóri á Evrópuvefnum

Við þetta svar er engin athugasemd Fela