Spurning

Njóta Færeyjar einhverra tengsla við ESB gegnum samband sitt við Danmörku?

Spyrjandi

Sæmundur Þorsteinsson

Svar

Færeyjar eru eitt þriggja sjálfstjórnarsvæða á Norðurlöndunum en eyjarnar tilheyra formlega Danmörku. Færeyjar eiga ekki aðild að Evrópusambandinu þar sem Landsþing Færeyja, æðsta stjórnvald landsins, ákvað að standa fyrir utan sambandið þegar Danmörk gekk í það árið 1973.

Það voru einkum tveir þættir sem réðu því að Færeyjar ákváðu að standa utan Evrópusambandsins í kjölfar inngöngu Danmerkur. Annars vegar vildu Færeyjar ekki veita Evrópusambandinu fullar valdheimildir (e. exclusive competence) á sviði fiskveiða af ótta við að tapa að einhverju leyti hefðbundnum fiskveiðiréttindum sínum innan sinnar eigin efnahagslögsögu, en landið byggir 95% af öllum útflutningi sínum á sjávarútvegsafurðum.


Tingnes í Þórshöfn þar sem Landsþing Færeyja hefur aðsetur.

Hins vegar var lítill vilji í landinu, bæði hjá færeyskum stjórnvöldum og almenningi, fyrir þátttöku í Evrópusamstarfinu. Færeysk stjórnvöld voru ekki viss um að landið hefði þá stjórnsýslugetu sem nauðsynleg er til innleiðingar á viðamiklu regluverki Evrópusambandsins. Þá var viðhorf almennings gagnvart aðildinni fremur neikvætt sem mögulega tengist langri sjálfstæðisbaráttu Færeyja. Sjálfstæði Færeyja hefur löngum verið eitt helsta deilumál landsins en almenningur virðist ávallt skiptast jafnt í hópa þeirra sem vilja sjálfstæði og þeirra sem vilja áfram tilheyra Danmörku. Að öllu jöfnu var ekki mikill vilji meðal almennings fyrir frekara valdaframsali til stofnana Evrópusambandsins.

Formleg samskipti Færeyja og Evrópusambandsins grundvallast á tveimur tvíhliðasamningum. Sá fyrri er fríverslunarsamningur um fulla fríverslun með sjávarafurðir frá árinu 1981. Sá seinni er fríverslunarsamningur frá árinu 1996 sem nær til viðskipta á iðnaðarvörum, unnum og óunnum landbúnaðarvörum, að undanskildu lambakjöti, unninna kjötvara úr lambakjöti og mjólkurafurða.

Þrátt fyrir að standa fyrir utan sambandið hafa Færeyjar á undanförnum árum aukið jafnt og þétt þátttöku sína í samstarfi og verkefnum ESB. Til að mynda hafa Færeyjar innleitt matvælalöggjöf ESB samkvæmt samkomulagi þess efnis í kjölfar ofangreindra fríverslunarsamninga. Landið var þátttakandi í sjöundu rammaáætlun um aðgerðir Evrópusambandsins á sviði rannsókna, tækniþróunar og tilraunaverkefna. Gengi færeysku krónunnar er hið sama og dönsku krónunnar sem er bundin við evru og Færeyjar framkvæma ákvæði Schengen-samningsins um frjálsa för einstaklinga innan Schengen-svæðisins á grundvelli aðildar Danmerkur að Schengen. Þá standa yfir samningaviðræður er varða þátttöku Færeyja í samstarfinu um Samevrópska flugsvæðið (e. European Common Aviation Area (ECAA)). Ætla má að aðgengi Færeyja að ofangreindu samstarfi sé til komið fyrir tilstilli Danmerkur með beinum eða óbeinum hætti.

Heimildir og mynd:

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur11.10.2013

Flokkun:

Tilvísun

Þorvarður Kjerulf Sigurjónsson. „Njóta Færeyjar einhverra tengsla við ESB gegnum samband sitt við Danmörku?“. Evrópuvefurinn 11.10.2013. http://evropuvefur.is/svar.php?id=65606. (Skoðað 12.10.2024).

Höfundur

Þorvarður Kjerulf Sigurjónssonalþjóðastjórnmálafræðingur og fyrrverandi verkefnastjóri hjá Evrópuvefnum

Við þetta svar er engin athugasemd Fela