Spurning

Hafa þrjú voldugustu ríki Evrópusambandsins farið með friði síðan um aldamótin 1900? – Viðbrögð lesanda

Spyrjandi

Haraldur Ólafsson

Svar

Svarið sem hér fer á eftir er fyrsta svarið á Evrópuvefnum sem birt er í flokknum „Viðbrögð lesenda“. Flokkurinn er til merkis um vilja vefsins til að efla upplýsta umræðu með þátttöku lesenda en eins og lesa má á vefnum:
[Getur l]esandi sem telur svari áfátt [...] bent ritstjórn á það og er svar þá lagfært ef höfundur fellst á það. Lesandi getur enn fremur skrifað eða hlutast til um að skrifa annað sjálfstætt svar við sömu spurningu. Ef það fullnægir kröfum um fagleg efnistök er það birt á sama hátt og settir viðeigandi tenglar milli svaranna.

Upprunalegt svar Þorsteins Vilhjálmssonar við spurningunni má einnig lesa hér á vefnum, sjá Hafa þrjú voldugustu ríki Evrópusambandsins farið með friði síðan um aldamótin 1900?

***

Upphaflegar spurningar voru sem hér segir, í heild:

Þrjú voldugustu ríki Evrópusambandsins hafa ekki alltaf farið með friði.

1. Hversu marga menn hafa stjórnvöld í þessum ríkjum drepið frá árinu 1900?

2. Í hvaða tilvikum hafa stjórnvöld beðist afsökunar á manndrápum eða sýnt merki um iðrun og yfirbót, til dæmis með fégjöldum?

3. Hafa stjórnvöld almennt notið stuðnings alþýðu í sláturtíð?

1. Hversu marga menn hafa stjórnvöld í þessum ríkjum drepið frá árinu 1900?

Svör við fyrstu spurningunni er að finna í þremur meðfylgjandi töflum sem greina frá 34 stríðum Breta, 30 stríðum Frakka og 8 stríðum Þjóðverja frá 1900 til 2011. Heimild er fyrst og fremst Wikipedia, en eins og allar heimildir um viðamikið efni af þessu tagi verður að hafa fyrirvara á er varðar það sem upp er gefið sem og það sem vanta kann.


Smellið á myndina til að stækka hana. Athugið að 1 merkir þúsund eða færri.

Mannfall er mjög á reiki í mörgum tilvikum, en leitast er við að telja aðeins vopndauða menn, ekki þá sem deyja af hungri eða farsóttum í tengslum við stríð. Þær tölur geta verið margfalt hærri og má í því sambandi nefna að í Austur-Afríku dóu 200 til 300 þúsund manns úr hungri í kjölfar þess að Þjóðverjar eyðilögðu þorp, brunna og uppskeru, en það er hundrað sinnum hærri tala en áætluð er á vopndauða og er tilgreind í töflunni. Þá er heildarfjöldi drepinna talinn, óháð því hver drap hvern. Í styrjöldum þar sem margir taka þátt deilist því ábyrgðin víða. Hlutur Frakka í mannfalli í síðari heimsstyrjöld er til dæmis aðeins örfá prósent, en segja má að Frakkar beri beint eða óbeint ábyrgð á flestum ef ekki öllum drápum í Alsírstríðinu.


Smellið á myndina til að stækka hana. Athugið að 1 merkir þúsund eða færri.

Mest er mannfallið um miðbik aldarinnar, en því fer fjarri að styrjöldum fari fækkandi. Með lokum síðari heimsstyrjaldar hætta Bretar, Frakkar og Þjóðverjar að drepa hverjir aðra. Frakkar og Bretar beindu spjótum sínum annað og Þjóðverjar grófu þau í nokkra áratugi, en hafa sótt þau aftur á síðustu árum. Sumir telja að Evrópusambandinu beri að þakka að gömlu evrópsku stórveldin berjist ekki lengur hvert við annað. Aðrir telja að aðstæður í heiminum hafi einfaldlega breyst og gefi ekki lengur tilefni til styrjalda af því tagi. Sovétríkin hafi risið upp sem helsta stórveldi Evrópu og gömlu nýlenduveldin fundið þörf til að sameinast gegn ógn sem þau töldu sér stafa af þeim.


Smellið á myndina til að stækka hana. Athugið að 1 merkir þúsund eða færri.

Í hliðstæðum skrám yfir styrjaldir annarra stórra ríkja á því tímabili sem um ræðir kennir ýmissa grasa. Í sumum tilvikum eins og í Argentínu og Brasilíu eru töflurnar mun minni vöxtum og svipaða sögu má segja um stór ríki á borð við Indland og Japan eftir miðja 20. öld. Listar Bandaríkja N-Ameríku, Rússlands og Sovétríkjanna bera á hinn bóginn meiri keim af listum fyrrum nýlenduvelda Evrópu. Með fyrirvara um túlkun á aðkomu Íslendinga að stríðum í Austurlöndum fjær á 21. öld og í Júgóslavíu árið 1999, sem ekki hefur verið á vígvelli, má segja að tafla yfir manndráp íslenskra stjórnvalda sé tóm. Óhætt er því að fullyrða að hvað þetta varðar sé mikill menningarmunur á Íslandi annars vegar og tveimur af öflugustu ríkjum Evrópusambandsins hins vegar, en þau síðarnefndu hafa að jafnaði hafið nýtt stríð á þriggja til fjögurra ára fresti í tíð fjögurra síðustu kynslóða eða þar um bil.

2. Í hvaða tilvikum hafa stjórnvöld beðist afsökunar á manndrápum eða sýnt merki um iðrun og yfirbót, til dæmis með fégjöldum?

Helsta heimild um afsakanir og iðrun stjórnvalda er samantekt á vegum Háskóla Wilfrid Laurier í Kanada. Listar af þessu tagi verða seint fullkomlega tæmandi, ekki síst ef stjórnvöld biðjast svo oft afsökunar á sömu drápum að ekki telst lengur fréttnæmt.

Frakkar hafa opinberlega beðist afsökunar á að hafa hjálpað Þjóðverjum að smala saman gyðingum til útrýmingar. Höfundur veit ekki til þess að frönsk stjórnvöld hafi iðrast annarra manndrápa af þeim milljónum sem tilgreind eru í hjálagðri töflu. Til að taka af tvímæli áréttaði Chirac Frakklandsforseti árið 2000 að ekki væri ástæða til að biðjast afsökunar á neinu í tengslum við stríðið í Alsír.

Bretar hafa beðist afsökunar á að hafa drepið 306 breska hermenn fyrir óhlýðni í fyrri heimsstyrjöld og 14 borgara á götu í N-Írlandi 1972. Samtals gera það 320 manns. Ekki veit höfundur til að þeir hafi iðrast annarra drápa af þeim milljónum sem tilgreindar hafa verið.

Þjóðverjar tóku á sig sök að lokinni fyrri heimsstyrjöld og greiddu háar skaðabætur. Þýsk stjórnvöld hafa oft beðist afsökunar á drápum í seinni heimsstyrjöld, ekki síst á útrýmingu gyðinga í Evrópu. Þá hafa þýsk stjórnvöld beðist afsökunar á að hafa sprengt Guernica á Spáni árið 1937. Eins hafa þýsk stjórnvöld beðist afsökunar og boðið fégjöld fyrir manndráp í Namibíu í upphafi 20. aldar.

Í stuttu máli virðist að Þjóðverjar iðrist margs en hvorki Bretar né Frakkar.

3. Hafa stjórnvöld almennt notið stuðnings alþýðu í sláturtíð?

Flest stríðin sem hér um ræðir voru háð af stjórnvöldum sem höfðu einhvers konar lýðræðislegt umboð þegnanna og eru þá nasistar ekki undanskildir, en þeir komust til valda í kjölfar kosningasigurs 1933. Sósíalistar í Frakklandi og Þýskalandi mæltu mjög gegn stríði þegar fyrri heimsstyrjöldin var í aðsigi, en létu svo undan síga síðsumars 1914.

Lítið er um heimildir um viðhorf almennings á fyrri tímum, en líklegt verður að telja að flestir hafi stutt stríðin, að minnsta kosti í upphafi. Það á þó ekki við um innrás Breta í Írak 2003 sem var umdeild í Bretlandi. Gera má því skóna að stríð verði óvinsælt þegar allt er komið í rúst og margir dauðir eins og var í Þýskalandi 1945.

Vígbúnaður gömlu evrópsku stórveldanna er mikill (eins og skoða má á heimasíðu Alþjóðlegu friðarrannsóknastofnunarinnar í Stokkhólmi, SIPRI) og ekki mjög umdeildur. Ályktun um stofnun Evrópuhers var samþykkt á Evrópuþinginu með miklum meirihluta 20. febrúar 2009 (sjá svar Evrópuvefsins við spurningunni Er Evrópusambandið með einhvers konar Evrópuher og eru aðildarríkin skyldug til að taka þátt í honum?) og þó þingið fari ekki með þau völd sem ætla mætti af nafni þess má gera því skóna að það endurspegli hugmyndir þegna Evrópusambandsins. Verður vart annað séð en að stjórnvöld gömlu evrópsku stórveldanna vilji vera tilbúin til áframhaldandi stríðsátaka, með því mannfalli sem slíkum átökum fylgir, ef þurfa þykir. Höfundi er ekki kunnugt um heimildir sem benda til þess að alþýða manna sé í meginatriðum andsnúin þeirri stefnu.

Höfundur þakkar Þórhildi Hagalín yfirlestur.

Tilvísanir með töflum:

Heimildir:
Við þetta svar er engin athugasemd Fela